Hvernig er hægt að minnka losun koltvísýrings (CO2) út í andrúmsloftið?Mannkynið verður að minnka brennslu kola, olíu og bensíns, sem eykur styrk gróðurhúsalofttegunda. Í þess stað þarf að nýta vatnsorku og jarðhita, og framleiða rafmagn með vindmyllum, sjávarföllum og sólarsellum sem gleypa í sig sólarljós og breyta því í rafstraum. Fólk þarf að breyta lífsvenjum sínum, draga úr notkun orku með því að nota minni og sparneytnari bíla, hjóla og ganga milli staða. Forðast ætti að flytja vörur langar leiðir með bílum og flugvélum. Einnig ættum við að borða meira grænmeti vegna þess að það þarf minni orku til að framleiða það en kjöt.

Endurvinna þarf pappír, minnka umbúðir um vörur, flokka sorp og draga úr notkun einnota umbúða úr plasti.
Þetta svar er úr bókinni Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni? Spurningar af Vísindavefnum um jökla og loftslagsmál. Myndin er úr sömu bók og er eftir Þórarin Má Baldursson. Hvort tveggja er birt með góðfúslegu leyfi höfunda og útgefanda.