Auk þess að sjá okkur fyrir ýmiskonar næringarefnum sem við þurfum til daglegra starfa þá benda rannsóknir til þess að neysla á grænmeti og ávöxtum geti dregið úr líkum á ýmsum sjúkdómum. Til dæmis er mikið af andoxunarefnum í grænmeti og ávöxtum en andoxunarefni búa yfir þeim eiginleikum að hindra myndun skaðlegra sindurefna í frumum líkamans sem talin eru tengjast framgangi ýmissa sjúkdóma. Rannsóknir benda meðal annars til þess að mikil neysla grænmetis og ávaxta geti dregið úr líkum á krabbameinum. Fyrir flestar tegundir krabbameina er áhættan um það bil helmingi minni í þeim hópi sem borðar mest af grænmeti og ávöxtum borið saman við hópinn sem borðar minnst. Rannsóknir gefa einnig vísibendingu um að neysla grænmetis og ávaxta geti lækkað dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Eins er rífleg neysla grænmetis og ávaxta liður í baráttunni gegn offitu, en offitu geta fylgt ýmis heilsufarsvandamál. En er ekki bara hægt að taka vítamín, steinefni og öll þessi hollustuefni sem eru í grænmeti og ávöxtum í töfluformi og sleppa því að borða þetta? Líklega gerir það ekki alveg sama gagn því svo virðist sem góð áhrif þeirra efna sem eru í grænmeti og ávöxtum stafi af samsetningu og samspili þeirra frekar en einstökum efnum. Þannig virðast verndandi áhrif af neyslu grænmetis og ávaxta meiri eftir því sem borðað er af meira af mismunandi tegundum. Áhugasamir ættu að kynna sér nánar heimildirnar sem tilteknar eru hér fyrir neðan, auk þess sem meira efni um grænmeti og ávexti er að finna á vef á vef Lýðheilsustöðvar. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Er hættulegt að taka of mikið af vítamínum?
- Er mikið C-vítamín í papriku?
- Er óæskilegt að neyta samtímis ávaxta og grænmetis og þá hvers vegna?
- Hver er lágmarks næringarþörf mannsins?
- Fá grænmetisætur öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast?
- Er lífrænt ræktað grænmeti hollara en annað og hvers vegna er það svona dýrt?
- Hvert er öflugasta andoxunarefnið?
- Laufey Steingrímsdóttir. 2002. Heilsufarslegur ávinningur af aukinni neyslu grænmetis og ávaxta á Íslandi. Grein á vef Lýðheilsustöðvar. Sótt 29. 02. 2008
- Hólmfríður Þorgeirsdóttir. 2006. Hvað er svona merkilegt við grænmeti og ávexti? Grein á vef Lýðheilsustöðvar. Sótt 29. 02. 2008
- Hollusta grænmetis og ávaxta. 2004. Frétt á vef Lýðheilsustöðvar. Sótt 29. 02. 2008.
- Ráðleggingar um mataræði og næringarefni. Á vef Lýðheilsustöðvar. Sótt 29. 02. 2008.
- Mynd: Vegetable Beef Soup Recipe á vefnum Paul and Bernice Noll's Window on the World. Sótt 3. 3. 2008.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.