Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ekkert hefur komið fram sem rökstyður vísindalega að óæskilegt sé að neyta ávaxta og grænmetis samtímis. Reyndar er það svo að meltingarfæri mannsins eru hönnuð til að melta margvíslega fæðu samtímis og ættu því að geta melt grænmeti og ávexti samtímis, rétt eins og kjöt og kartöflur. Enn fremur eru grænmeti og ávextir hvor um sig fjölbreyttur flokkur matvæla og ekki er alltaf ljóst hvort matvæli heyrir til ávaxta eða grænmetis og því gæti verið vandasamt að skilgreina nákvæmlega hvaða fæðutegundir ekki mætti borða saman, ætti kenningin við rök að styðjast.
Eins og önnur matvæli, samanstanda grænmeti og ávextir af fjölmörgum efnasamböndum, þar á meðal næringarefnunum sem okkur eru lífsnauðsynleg. Næringarefni þessi eru flest hin sömu í þessum afurðum, eins og í öðrum matvælum, en í mismunandi hlutföllum þó, eftir því hvaða matvæli á í hlut. Næringarefnin og önnur efnasambönd í matvælum geta haft áhrif hvert á annað á ýmsa vegu, til dæmis geta þau haft áhrif á frásog hvers annars úr þörmum. Út frá þessu mætti kannski rökstyðja að ekki sé heppilegt að neyta afurðar sem inniheldur efni A, sem hefur áhrif á frásog efnis B úr annarri afurð, það er að ekki ætti að neyta þessara matvæla saman. Hins vegar getur alveg eins verið að bæði efnin komi fyrir í sömu fæðutegundinni og því gagnslaust að reyna að koma í veg fyrir þessi neikvæðu áhrif.
Annars er samspil næringarefna og annarra efnasambanda í fæðunni flókið, og líklega myndi æra óstöðugan að reyna að gera sér grein fyrir og taka tillit til áhrifa þeirra hvert á annað í hverri máltíð. Enda hafa nýlegar rannsóknir sýnt að innbyrðis áhrif næringarefna hvert á annað skipta ekki svo miklu máli í heildarmataræði, heldur er mikilvægast að mataræði sé sem fjölbreyttast og innihaldi matvæli úr öllum fæðuflokkum í hæfilegum hlutföllum.
Björn Sigurður Gunnarsson. „Er óæskilegt að neyta samtímis ávaxta og grænmetis og þá hvers vegna?“ Vísindavefurinn, 30. september 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2746.
Björn Sigurður Gunnarsson. (2002, 30. september). Er óæskilegt að neyta samtímis ávaxta og grænmetis og þá hvers vegna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2746
Björn Sigurður Gunnarsson. „Er óæskilegt að neyta samtímis ávaxta og grænmetis og þá hvers vegna?“ Vísindavefurinn. 30. sep. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2746>.