Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þessari spurningu er hægt að svara á marga vegu. Líkaminn þarf á vatni, kolvetnum, fitu og próteinum, vítamínum og steinefnum að halda til vaxtar og viðhalds.
Án vatns lifir maðurinn ekki nema nokkra daga, en hann getur lifað margfalt lengur án matar (40-60 daga). Þá nýtir hann sér fitu og vöðvavefi líkamans sem orku og þann aukaforða sem hann hefur af vítamínum og steinefnum. Vatn er ein meginforsenda lífs á jörðinni.
Líkaminn þarf á orku úr kolvetnum, fitu og próteinum að halda í dagsins önn. Fái líkaminn þau ekki úr mat notar hann það forðabúr sem er að finna af kolvetnum í lifur og vöðvum, prótein í vöðvum og öðrum vefjum og fitu úr fituvef. Kolvetni eru líkamanum nauðsynleg þar sem heilinn þarf stöðugt á kolvetnum að halda en hann getur lítið nýtt aðrar orkubirgðir, til að byrja með að minnsta kosti. Líkaminn er hins vegar fljótur að eyða kolvetnabirgðum sínum við svelti (innan við 24 klst) og áður en þær eru uppurnar fer hann að mynda kolvetni úr amínósýrum sem eru byggingareiningar próteina og glýseróli sem er ein byggingareining í fitum. Próteinniðurbrot (niðurbrot vöðva) á sér því stað mjög fljótt ef líkaminn lendir í svelti.
Séu hlutföll orkuefna í fæðu almennt mjög ójöfn, til dæmis ef lítið er af fitu, getur það leitt til skorts á lífsnauðsynlegum fitusýrum auk þess sem maturinn verður mikill af magni og erfitt getur reynst fyrir suma að fullnægja orkuþörf. Skortur á próteinum leiðir til skorts á lífsnauðsynlegum amínósýrum og vöðvaniðurbrots. Skortur á kolvetnum neyðir líkamann til að nýta sér prótein og fitu til orku og hann fer í einskonar streituástand.
Vanti einhver vítamín eða steinefni í fæðuna koma fyrr eða síðar fram ýmis einkenni skorts sem geta sum hver leitt til dauða. Þörf einstaklinga fyrir hin ýmsu vítamín og steinefni getur verið mjög mismunandi. Ráðlagður dagskammtur (RDS) af vítamínum og steinefnum er skilgreindur sem það magn næringarefna sem fullnægir þörf nánast allra heilbrigðra einstaklinga. Hann er þess vegna hærri en raunveruleg þörf flestra einstaklinga er fyrir viðkomandi næringarefni.
Lágmörk um neyslu á vítamínum og steinefnum hafa þó einnig verið sett fram (norrænar ráðleggingar um næringarefni) þar sem hætta er á skortseinkennum ef neysla fer undir lágmark í langan tíma. Ráðleggingarnar er þó einungis ráðlegt að nota þegar lagt er mat á neyslu hópa, ekki einstaklinga. Sem dæmi má nefna að ráðlagður dagskammtur af þíamíni (B1-vítamíni) fyrir karlmenn er 1,4 mg en lágmark er sett sem 0,6 mg. Ráðleggingarnar ná þó ekki yfir öll þekkt lífsnauðsynleg næringarefni. Sum næringarefni hafa ekki RDS, sem getur verið vegna þess að skortur á þeim er óþekktur eða traustar heimildir til að ákvarða RDS liggja ekki fyrir.
Auk þeirra vítamína og steinefna sem við þekkjum í dag er ekki ómögulegt að með tíð og tíma verði fleiri efni talin til þeirra eða að minnsta kosti talin manninum mikilvæg og fái jafnvel RDS. Sem dæmi má nefna að þau vítamín og steinefni sem við þekkjum í dag eru yfirleitt efni þar sem skortur leiðir til dauða eða að minnsta kosti alvarlegra áhrifa á líkamsstarfsemi. Á síðustu tveimur áratugum hefur komið fram að neysla ávaxta og grænmetis virðast draga úr líkum á krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum og hafa ýmis efni sem þar er að finna, önnur en viðurkennd næringarefni, verið tengd þessum áhrifum. Fleiri rannsókna er þörf en svo gæti farið í framtíðinni að sum þessara efna yrðu talin mikilvægur hluti af næringarþörf mannsins og einnig verði sett um þau einhvers konar ráðlagðir dagskammtar. Á meðan rannsóknir eru ekki lengra á veg komnar er hins vegar best að njóta ávaxta og grænmetis vitandi af heilnæmum áhrifum þeirra án þess að virkni eða samspil sé nákvæmlega þekkt.
Almennt má segja að lágmarksnæringarþörf sé mismunandi frá manni til manns eftir kyni, aldri, líkamsbyggingu og öðrum þáttum og erfitt að meta hana mjög nákvæmlega fyrir hvern og einn.
Bryndís Eva Birgisdóttir. „Hver er lágmarksnæringarþörf mannsins?“ Vísindavefurinn, 3. desember 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2930.
Bryndís Eva Birgisdóttir. (2002, 3. desember). Hver er lágmarksnæringarþörf mannsins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2930
Bryndís Eva Birgisdóttir. „Hver er lágmarksnæringarþörf mannsins?“ Vísindavefurinn. 3. des. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2930>.