Skriðdýr komu fram á fornlífsöld en miðlífsöldin var blómaskeið þeirra og réðu þau ríkjum á landi, í sjó og í lofti. Það má segja að með tilkomu skriðdýra hafi hið fullkomna "landnám" hryggdýra átti sér stað. Ólíkt froskdýrum sem áður voru komin fram voru landskriðdýrin ekki háð vatni til að klekja egg sín eða lifa þar sitt fyrsta æviskeið. Ólík örlög biðu hinna fjölmörgu ætta skriðdýra. Sumar ættir þróuðust hægt, náðu öruggri fótfestu í ákveðnum vistum vistkerfisins og hafa haldið velli allt fram á þennan dag. Þetta eru meðal annars skjaldbökur og krókódílar. Aðrar ættir þróuðust hratt en eru löngu horfnar af sjónarsviðinu. Tegundaútgeislun skriðdýra miðlífsaldar var geysileg og má taka eðlur sem dæmi, en ásamt smokkfiskum eru þær taldar einkennisdýr miðlífsaldar. Nokkrar eðlutegundir sneru til sjávar og lifðu eins og ránhvalir nútímans. Sumar þeirra náðu allt að 15 metra lengd og báru kvik afkvæmi líkt og hvalir. Dæmi um slíkar eðlur eru Plesiosaurus, Ichthyosaurus (fiskeðlur) og Mosasaurus.
Aðrar eðlur hófu sig til flugs og náðu tilkomumikilli stærð. Sumar voru með allt að 8 metra vænghaf og því talsvert stærri en stærstu fleygu fuglar nútímans. Í kalklögum við Solnhofen í suðurhluta Þýskalands frá því seint á júratímabilinu, fyrir um 150 miljón árum, fundust árið 1861 steingerðar leifar þriggja eðlufugla (Archaeopteryx). Þessir eðlufuglar eru taldir vera hlekkurinn milli risaeðla og fugla þó nýrri uppgötvanir benda til eldri forma eðlufugla. Eðlufuglinn eða öglir var fiðraður líkt og fuglar, en með klær eins og skriðdýr og tenntur. Hann var með fjaðursetta rófu en ekki stél líkt og fuglar. Hægt er að lesa meira um ögli í svari Leifs A. Símonarsonar við spurningunni Hvort þróuðust fuglar frá forsögulegum eðlungum eða fleglum? Frá lokum júratímans til loka krítartímans er eyða í röð steingerðra fugla en eiginlegir fuglar koma fram í jarðlögum frá lokum krítartímans. Landeðlurnar voru fjölbreytilegastar. Þær voru ýmist rándýr eða jurtaætur. Sumar eðlutegundirnar urðu mjög stórar og eru stærstu landdýr sem nokkurn tímann hafa verið uppi. Sú stærsta kann að vera tegund af ættkvíslinni Bruhathkayosaurus. Aðeins hafa fundist örfá steingerð bein þessa risa en út frá þeim hafa vísindamenn reynt að meta stærð og telja að þessi eðla hafi verið töluvert stærri en tegundir af ættkvíslinni Argentinosaurus, sem þó eru með stærstu risaeðlunum. Argentinosaurus var talin hafa verið rúmir 30 metrar á lengd og vegið rúmlega 80 tonn en af samanburði á beinum hennar og Bruhathkayosaurus er talið að sú síðarnefnda hafi verið rúmlega 30% lengri eða allt að 40 metrar á lengd og vegið allt að 180 tonn. Rétt er að taka fram að stærð þessa risa er metin út frá fáeinum beinum og þó ljóst sé að eðlan var með þeim allra stærstu sem vitað er um eru vísindamenn ekki á einu máli um hversu stór hún var í raun.
- Hvort voru fleiri risaeðlur rándýr eða jurtaætur? eftir Snorra Sigurðsson
- Hvaða risaeðlur fyrir utan grameðlur, ef einhverjar, átu nashyrningseðlur? eftir Jón Má Halldórsson
- Sváfu risaeðlur liggjandi eða standandi? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvernig varð fyrsta risaeðlan til? Leif A. Símonarson
- Hvernig vita vísindamenn hvernig risaeðlur litu út, hvernig þær voru á litinn og hver líkamsbygging þeirra var? eftir Leif A. Símonarson
- Hver var stærsta risaeðlan? eftir Leif A. Símonarson
- Ef krókódílar voru uppi á sama tíma og risaeðlur af hverju dóu þeir þá ekki út? eftir Leif A. Símonarson
- Jóhann Ísak Pétursson og Jón Gauti Jónsson. 2001. Jarðfræði. Reykjavík, Iðnú.
- Þorleifur Einarsson. 1991. Myndun og mótun lands. Reykjavík, Mál og menning. Mynd af ammonítum: Jurupa Mountains Cultural Center. Sótt 5. 11. 2008
- Mynd af fiskeðlu: University of California Museum of Paleontology
- Mynd af risaeðlum: Dinosaur Types . Sótt 6. 11. 2008.