Krókódílar (Crocodylidea) greinast í þrjár undirættir eins og lesa má um í svari sama höfundar við spurningunni: Hver er munurinn á alligatorum og krókódílum? Meginættin er Crocodylinaea en innan hennar eru 14 tegundir krókódíla í tveimur ættkvíslum. Önnur þessara ættkvísla, Crocodylus, er tegundaríkasta ættkvísl krókódíla með 12 tegundir. Sumir kalla þessa ættkvísl hina eiginlegu krókódíla. Hinar undirættirnar tvær eru breiðtrýningar (Alligatoridae), sem inniheldur átta tegundir í fjórum ættkvíslum, og Gavialidae sem aðeins telur eina tegund. Alls eru tegundir krókódíla því 23 talsins.
Langtrýnungur (Gavialis gangeticus)
Nílarkrókódíllinn (Crocodylus niloticus)
Nílarkrókódíllinn er sennilega kunnasta krókódílategund heims en hún er sú tegund sem hefur hvað mest verið kvikmynduð, þökk sé áhuga kvikmyndagerðamanna á náttúru Afríku síðastliðna áratugi. Þótt Nílarkrókódíllinn sé kenndur við hið fræga fljót í Egyptalandi finnst hann víðar í Afríku, eða alls í 41 ríki, og nær útbreiðsla hans allt suður til Suður-Afríku. Útbreiðsla hans nær því yfir afar fjölbreytt svæði og greinist Nílarkrókódíllinn í nokkrar deilitegundir. Flestar deilitegundirnar eru mjög stórar, en algengt er að fullvaxin dýr séu um fimm metrar á lengd og fundist hafa allt að sex metra langir einstaklingar. Á syðsta hluta útbreiðslusvæðisins eru fullorðin dýr þó heldur minni. Á heildina litið er stofnstærð Nílarkrókódílsins afar sterk eða á bilinu 250 til 500 þúsund dýr. Í þjóðgörðum og á ýmsum verndarsvæðum er fjöldinn stöðugur, en líklegt er að þeim fari fækkandi á svæðum þar sem aðgengi náttúrufræðinga hefur ekki verið sem skyldi. Þar sem Nílarkrókódílnum hefur verið útrýmt hefur leirgeddu (Clarias spp.) sem er ránfiskur, fjölgað óhóflega og hefur það leitt til rénunar á stofnstærð nytjafisks. Þetta hefur átt sér stað víða í Mið-Afríku og sýnir glögglega mikilvægi Nílarkrókódílsins fyrir vatnasvæða álfunnar.
Sækrókódíll (Crocodylus porosus)
Sækrókódíllinn er annar vel þekktur fulltrúi hinna Crocodylus ættkvíslarinnar. Hann er stærstur allra núlifandi krókódíla og þar með stærsta skriðdýr í heimi. Fullvaxin karldýr geta orðið allt að sjö metrar á lengd og vega um eitt tonn. Til eru óstaðfestar frásagnir af enn stærri dýrum. Kvendýrin eru heldur minni og verða vart meira en þriggja metra löng. Tegundinni farnast nokkuð vel, sérstaklega undan ströndum Ástralíu og Papúa Nýju-Gíneu, en heldur hefur fækkað í stofninum nyrst á útbreiðslusvæði hennar. Heildarstofnstærðin er talin vera á bilinu 200 til 300 þúsund dýr, þar af eru allt að 150 þúsund dýr við strendur Ástralíu. Sækrókódílar eru ekki sérlega vinsælir meðal almennings en þeir valda nokkru manntjóni ár hvert. Talið er að þetta gæti haft talsverð áhrif á verndun tegundarinnar til langframa. Á Srí Lanka og í Víetnam hefur sækrókódílum fækkað mjög vegna röskunar búsvæða og er nú talið að þar séu vart fleiri en 100 einstaklingar eftir. Fyrir nokkrum árum var gert mikið átak í að koma á stöðugleika tegundarinnar til framtíðar á Indlandi og hefur það gengið vel á ákveðnum verndarsvæðum. Sækrókódílar eru þó víða veiddir ólöglega, sérstaklega í Indónesíu þar sem veiðiþjófnaður er mikið vandamál og ein helsta ógnin við villt dýralíf eyjanna. Flatmunni (Alligator mississippiensis)
Flatmunni tilheyrir undirætt breiðtrýninga (Alligatoridae) og finnst villtur í suðausturhluta Bandaríkjanna. Nafnið alligator er komið af spænska orðinu El lagarto og þýðir einfaldlega eðla. Flatmunnar finnst aðallega á fenjasvæðum svo sem í Everglades í Flórída og við Mississippi fljótið og þverár þess. Ólíkt mörgum öðrum krókódílategundum þola þeir aðeins að vera í saltvatni í skamma hríð. Ástæðan er sú að þá vantar ákveðinn kirtil sem er í munnholi annarra saltþolnari tegunda og hefur það hlutverk að viðhalda réttu saltjafnvægi í líkama þeirra Karldýr flatmunna geta orðið um 4,5 metrar á lengd. Fréttir hafa þó borist af enn stærri dýrum eða allt að 6 metra löngum, en slíkt hefur ekki fengist staðfest. Kvendýrin eru mun minni og verða vart lengri en 3 metrar. Tegundin stendur nú mjög vel og er krókódíllinn algengur um allt útbreiðslusvæði sitt. Áætlað er að heildarstofnstærð flatmunna sé í kringum ein miljón dýra. Langtrýnungur (Gavialis gangeticus)
Langtrýnungur er eina tegundin innan undirættarinnar Gavialidae. Hún finnst nú helst í Indlandi við norðurhluta Ganges fljótsins, en henni hefur verið útrýmt af stærstum hluta útbreiðslusvæði síns svo sem í Bangladess, Bútan og Mjanmar (Búrma). Helsta einkenni langtrýnungs er, eins og nafnið gefur til kynna, ílangt og mjótt trýni. Hann er meðal stærstu krókódíla heimsins, getur orðið rúmir 6 metrar á lengd og nálgast því sækrókódílinn að stærð. Langtrýnungur er afar vel aðlagaður að lífi í vatni og lifir nær einungis á fiski og öðrum vatnadýrum. Langtrýnungum hefur fækkað verulega á undanförnum áratugum líkt og öðrum stórum dýrum á Indlandi, en heildarstofnstærðin telur nú aðeins í kringum 3.000 dýr. Talið er að bæði veiðiþjófnaður og minnkandi fiskgengd í helstu ám og vötnum á búsvæði hans skýri að mestu hvernig komið er fyrir tegundinni. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Ef krókódílar voru uppi á sama tíma og risaeðlur af hverju dóu þeir þá ekki út? eftir Leif A. Símonarson
- Hvað voru risaeðlutegundir margar þegar þær voru uppi? Eru einhverjar núlifandi dýrategundir náskyldar þeim? eftir Leif A. Símonarson
- Hvað geta krókódílar hlaupið hratt? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað geta krókódílar orðið stórir og hvernig æxlast þeir? eftir Jón Má Halldórsson
- Hversu margar tegundir eru til af skriðdýrum? eftir Jón Má Halldórsson
- Hutton, JM (1989). Movement, home range, dispersal and separation of size classes in Nile crocodiles. Amer. Zoologist, 29(3): 1033-1050.
- Levy, C. 1991. Crocodiles and Alligators.. London: The Apple Press.
- Crocodilian Species List (skoðað 12. apríl 2006)
- Wikimedia Commons