Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Krókódílar virðast vera silalegar skepnur og það er óþekkt að þeir hafi hlaupið uppi bráð. Hins vegar búa krókódílar yfir óvenju mikilli snerpu og geta komið væntanlegri bráð sinni á óvart með árás úr launsátri. Þessi veiðiaðferð er nánast algild meðal landskriðdýra enda eru þau afar úthaldslitlar skepnur.
Krókódílar hreyfa sig á fjóra vegu á þurru landi. Í fyrsta lagi mjaka þeir sér rólega, allt að því letilega, áfram þannig að kviðurinn er í snertingu við jörðina. Á ensku nefnist þessi hreyfing 'belly crawl' og er hún algengasti ferðamáti þeirra á þurrlendi. Önnur aðferð er að ganga með útréttar lappir líkt þannig að kviðurinn lyftist frá jörðu. Yfirleitt fara þeir stuttar vegalengdir á slíku göngulagi sem á ensku nefnist 'high walk'.
Ástralskur ferskvatnskrókódíll (Crocodylus johnstoni) í göngutúr með high walk – gönguaðferðinni.
Krókódílar hafa tvenns konar göngu- eða hlaupalag þegar þeir vilja komast hratt yfir, oftast til að forðast hættu. Annars vegar er það svokallað magahlaup eða 'belly run' á ensku, en þá hreyfa þeir sig hratt án þess að lyfta skrokknum frá jörðu en beita honum með s-laga hreyfingum líkt og þeir væru í vatni. Yfirleitt fara þeir afar stutta vegalengd með þessari aðferð, til dæmis fáeina metra út í á eða vatn ef ljón eða fíll ógnar þeim.
Hins vegar er einhvers konar hopp þar sem þeir beita framlöppunum samsíða og afturlöppunum samsíða (ekki ólíkt hoppi kanína þó þær séu mun liprari dýr). Þessi hlaupagerð, ef svo mætti kalla, er mun sjaldséðari en magahlaupið en með henni nær krókódíllinn mestum hraða eða um 12- 14 km/klst. Það er því nokkuð ljóst að fullfrískur maður ætti ekki í miklum erfiðleikum með að hlaupa af sér krókódíl.
Þó skal tekið fram að krókódílar búa yfir meiri snerpu en menn auk þess að vera óútreiknanlegir í hegðun. Þeir sem ferðast um krókódílaslóðir ættu því að hafa í huga að krókódílar fara afar hljótt um, gera árás úr launsátri og búa yfir mikilli snerpu. Þeir eru því á meðal hættulegustu dýra jarðar.
Mynd: Adam Britton - mynd sótt á heimasíðu The Reptiles of Australia 9. júní 2005.
Jón Már Halldórsson. „Hvað geta krókódílar hlaupið hratt?“ Vísindavefurinn, 15. júní 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5063.
Jón Már Halldórsson. (2005, 15. júní). Hvað geta krókódílar hlaupið hratt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5063
Jón Már Halldórsson. „Hvað geta krókódílar hlaupið hratt?“ Vísindavefurinn. 15. jún. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5063>.