Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var minnsta risaeðlan og hvernig var andrúmsloftið þegar hún var uppi?

Leifur A. Símonarson

Líklega var stökkfeti (Saltopus) léttasta risaeðlan, en leifar hans fundust í norðausturhluta Skotlands þar sem honum var gefið nafnið árið 1910. Eðlan var tvífætla, um 60 cm löng, hæðin rétt um 30 cm (frá jörðu upp á efsta hluta höfuðs) og þyngdin er talin hafa verið 900 g. Hins vegar var þverhaus (Micropachycephalosaurus), sem fannst í Kína árið 1978, ögn styttri þar sem hann var 51 cm á lengd, en hann er talinn hafa verið mun þyngri, ekki síst vegna þess að beinin í honum voru öll þykkari. Þannig var stökkfeti talsvert léttari en til dæmis fagurkjálki (Compsognathus) eða þvengeðla eins og hún er oftast nefnd í íslenskum ritum. Þar sem 60-70 cm langur fagurkjálki er talinn hafa verið 3-3,5 kg á þyngd er nokkuð ljóst að stökkfeti hefur verið mun þvengmjórri en fagurkjálki og því verið enn meiri „þvengeðla“.

Stökkfeti var smávaxið rándýr með litla hauskúpu, beittar tennur í kjálkum og hala sem var um það bil helmingur af lengd dýrsins. Fjórði og fimmti fingur voru grannir og frekar litlir. Framlimir voru um það bil helmingi styttri en afturlimir. Stökkfeti fannst í jarðlögum frá efsta hluta tríastímabils, en þau eru talin um 215 milljóna ára gömul. Þverhaus er aftur miklu yngri, en leifar hans fundust í setlögum frá efsta hluta krítartímabils og eru þau álitin um 70 milljóna ára gömul. Dýrið var tvífætla, jurtaæta með litla en allþykka og flata hauskúpu og blaðlaga sljóyddar tennur í kjálkum. Halinn var tæplega helmingur af lengd dýrsins.

Þegar stökkfeti lifði var loftslag mun mildara en nú. Enginn ís var á pólsvæðunum og flest bendir til þess að veðurfar hafi verið staðvindasamt (monsoonal). Lofthiti var mun hærri en nú, en þurrviðrasamir árstímar og mjög úrkomusamir skiptust á. Stökkfeti virðist hafa haldið sig á miðhluta hins stóra meginlands Pangea sem síðar átti eftir að brotna upp. Þetta gríðarstóra meginland var þá vaxið köngulpálmum, musteristrjám (ginkgótrjám), fræburknum og burknum, þar sem grunnvatn stóð hátt, til dæmis við ár í daladrögum. Á þurrari landsvæðum voru barrtré áberandi og fjærst sjó voru eyðimerkur hér og þar.

Sjá einnig fleiri svör um risaeðlur:

Svör sama höfundar við spurningunum Hver var stærsta risaeðlan? og Hvernig vita vísindamenn hvernig risaeðlur litu út, hvernig þær voru á litinn og hver líkamsbygging þeirra var?

Svar Guðmundar Eggertssonar við Er einhvers staðar til erfðaefni úr risaeðlum og væri hægt að láta þær koma aftur?

Svar Sigurðar Steinþórssonar við Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út?

Höfundur

prófessor í steingervingafræði við HÍ

Útgáfudagur

27.11.2000

Spyrjandi

Dan Kjartansson

Tilvísun

Leifur A. Símonarson. „Hver var minnsta risaeðlan og hvernig var andrúmsloftið þegar hún var uppi?“ Vísindavefurinn, 27. nóvember 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1184.

Leifur A. Símonarson. (2000, 27. nóvember). Hver var minnsta risaeðlan og hvernig var andrúmsloftið þegar hún var uppi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1184

Leifur A. Símonarson. „Hver var minnsta risaeðlan og hvernig var andrúmsloftið þegar hún var uppi?“ Vísindavefurinn. 27. nóv. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1184>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var minnsta risaeðlan og hvernig var andrúmsloftið þegar hún var uppi?
Líklega var stökkfeti (Saltopus) léttasta risaeðlan, en leifar hans fundust í norðausturhluta Skotlands þar sem honum var gefið nafnið árið 1910. Eðlan var tvífætla, um 60 cm löng, hæðin rétt um 30 cm (frá jörðu upp á efsta hluta höfuðs) og þyngdin er talin hafa verið 900 g. Hins vegar var þverhaus (Micropachycephalosaurus), sem fannst í Kína árið 1978, ögn styttri þar sem hann var 51 cm á lengd, en hann er talinn hafa verið mun þyngri, ekki síst vegna þess að beinin í honum voru öll þykkari. Þannig var stökkfeti talsvert léttari en til dæmis fagurkjálki (Compsognathus) eða þvengeðla eins og hún er oftast nefnd í íslenskum ritum. Þar sem 60-70 cm langur fagurkjálki er talinn hafa verið 3-3,5 kg á þyngd er nokkuð ljóst að stökkfeti hefur verið mun þvengmjórri en fagurkjálki og því verið enn meiri „þvengeðla“.

Stökkfeti var smávaxið rándýr með litla hauskúpu, beittar tennur í kjálkum og hala sem var um það bil helmingur af lengd dýrsins. Fjórði og fimmti fingur voru grannir og frekar litlir. Framlimir voru um það bil helmingi styttri en afturlimir. Stökkfeti fannst í jarðlögum frá efsta hluta tríastímabils, en þau eru talin um 215 milljóna ára gömul. Þverhaus er aftur miklu yngri, en leifar hans fundust í setlögum frá efsta hluta krítartímabils og eru þau álitin um 70 milljóna ára gömul. Dýrið var tvífætla, jurtaæta með litla en allþykka og flata hauskúpu og blaðlaga sljóyddar tennur í kjálkum. Halinn var tæplega helmingur af lengd dýrsins.

Þegar stökkfeti lifði var loftslag mun mildara en nú. Enginn ís var á pólsvæðunum og flest bendir til þess að veðurfar hafi verið staðvindasamt (monsoonal). Lofthiti var mun hærri en nú, en þurrviðrasamir árstímar og mjög úrkomusamir skiptust á. Stökkfeti virðist hafa haldið sig á miðhluta hins stóra meginlands Pangea sem síðar átti eftir að brotna upp. Þetta gríðarstóra meginland var þá vaxið köngulpálmum, musteristrjám (ginkgótrjám), fræburknum og burknum, þar sem grunnvatn stóð hátt, til dæmis við ár í daladrögum. Á þurrari landsvæðum voru barrtré áberandi og fjærst sjó voru eyðimerkur hér og þar.

Sjá einnig fleiri svör um risaeðlur:

Svör sama höfundar við spurningunum Hver var stærsta risaeðlan? og Hvernig vita vísindamenn hvernig risaeðlur litu út, hvernig þær voru á litinn og hver líkamsbygging þeirra var?

Svar Guðmundar Eggertssonar við Er einhvers staðar til erfðaefni úr risaeðlum og væri hægt að láta þær koma aftur?

Svar Sigurðar Steinþórssonar við Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út?

...