Til flegla teljast þrír undirættbálkar auk nokkurra frumstæðari ættkvísla. Undirættbálkarnir eru Thyreophora, Ornithopoda og Marginocephalia. Innan Thyreophora eru tvær yfirættir, kambeðlur (Stegosauria) og bryneðlur (Ankylosauria). Tegundir innan þessa undirættbálks voru flestar fremur stórvaxnar, ferfættar jurtaætur með einkennandi beinskildi á bakinu og jafnvel beinhnúða víðar á líkamanum, án efa sér til varnar. Innan Ornithopoda eru nokkrar ættir sem innihalda tegundir sem eru að mörgu leyti svipaðar í útliti. Um er að ræða sérhæfðar jurtaætur sem flestar eru tvífættar þó sumar hafi vafalaust gengið á fjórum fótum. Smæstu tegundirnar voru einungis um 1m á lengd á meðan þær stærstu voru allt að 15 m langar og gátu vegið nokkur tonn. Þær voru fæstar með beinútvexti sér til varnar en lifðu mjög sennilega í hjörðum og hafa fundist steingervingar því til sönnunar. Meðal þekktra risaeðla í þessum undirættbálki er grænskeglan (Iguanodon), sem var fyrsta risaeðlan sem var greind sem slík, og andareðlur (Hadrosauridae) sem var tegundaauðug ætt stórvaxinna jurtaæta með mjög sérhæfðar tennur sem unnu vel á grófri jurtafæðu.
Beinagrind af grænskeglu (Iguanodon)
Til eðlunga teljast tveir meginundirættbálkar auk frumstæðari ættkvísla; graseðlungar (Sauropodomorpha) og ráneðlur (Theropoda). Graseðlungar voru fyrst og fremst stórvaxnar jurtaætur með langan háls og hala en fremur lítið og einfalt höfuð. Fyrstu tegundirnar sem komu fram gengu ýmist á tveimur eða fjórum fótum og voru léttbyggðar í samanburði við hinar eiginlegu graseðlur (Sauropoda) sem voru einkar áberandi á júratíma, en þær voru allra stærstu landdýr sem til hafa verið. Þær stærstu voru allt að 40 m langar og vógu hátt í 100 tonn. Ráneðlurnar (Theropoda) voru, eins og nafnið ber til kynna, einkum kjötætur og rándýr. Flokkunarfræði þeirra er nokkuð flókin enda um margar ólíkar gerðir að ræða, allt frá afar smávöxnum, léttbyggðum ráneðlum til stærstu rándýra sem lifað hafa á landi, svo sem grameðlan (Tyrannosaurus) og s-ameríska tegundin Giganotosaurus sem var um 14 m löng og yfir 2 tonn að þyngd. Ýmsar sérkennilegar risaeðlur tilheyra ráneðlum svo sem strúteðlurnar (Ornithomimosauria) sem voru léttbyggðar eðlur með sterka hlaupafætur, voðaeðlurnar (Therizonosauria) sem voru reyndar jurtaætur en höfðu gríðarstórar klær á framfótunum sér til varnar, og svo klóeðlurnar (Deinonychosauria) sem voru fremur smávaxnar ráneðlur en veiddu í hópum og eru taldar hafa verið með gáfuðustu risaeðlum (miðað við líklega heilastærð og vísbendingar um hegðun). Klóeðlurnar voru jafnframt þær risaeðlur sem voru skyldastar forfeðrum fugla enda eru mörg útlitseinkenni sem sameina klóeðlur og fugla þar á meðal fjaðrir.
Tölvuteikning af Suður-Amerísku risaeðlunni Giganotosaurus
Líkan af Archaeopteryx sem talinn er vera fyrsta fuglategundin sem fram kom
- Hvað voru risaeðlutegundir margar þegar þær voru uppi? Eru einhverjar núlifandi dýrategundir náskyldar þeim? eftir Leif A. Símonarson
- Hvernig varð fyrsta risaeðlan til? eftir Leif A. Símonarson
- Hvort þróuðust fuglar frá forsögulegum eðlungum eða fleglum? eftir Leif A. Símonarson
- Hvernig vita vísindamenn hvernig risaeðlur litu út, hvernig þær voru á litinn og hver líkamsbygging þeirra var? eftir Leif A. Símonarson
- Hvernig leit snareðla út og hvernig lifði hún? eftir Leif A. Símonarson
- Hver var stærsta risaeðlan? eftir Leif A. Símonarson
- Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út? eftir Sigurð Steinþórsson