Framlimirnir voru mun styttri en afturlimirnir, en þó frekar langir og hlutfallslega miklu lengri en til dæmis hjá grameðlu (Tyrannosaurus). Á framlimum voru þrír alllangir fingur með klær. Beinin í úlnlið voru sigðlaga og líklega hefur dýrið getað lagt framlimina upp að síðunum eins og fuglsvængi. Afturlimirnir voru langir og sterklegir, en þó lipurlega byggðir. Hnén sneru fram og ökklaliðir aftur, þannig að hreyfing í limnum hefur verið fram og aftur líkt og hjá spendýrum, en ekki út frá dýrinu og inn undir það eins og hjá núlifandi skriðdýrum og nefdýrum. Dýrið hafði fjórar tær með klóm á afturlimum, en virðist fyrst og fremst hafa gengið á tveim þeirra (3. og 4. tá). Fyrsta táin var lítil og náði varla til jarðar, en önnur táin var stór með sigðlaga beitta kló sem dýrið gat hreyft út og inn. Líklega hefur snareðlan notað þessa kló til varnar en einnig til að særa og jafnvel drepa með önnur dýr. Snareðla var greinilega kjötæta og líklega ein af þeim ráneðlum sem fóru hvað hraðast um, en talið er að hún hafi getað náð allt að því 60 km hraða á klukkustund á stuttum sprettum. Talið er að dýrin hafi veitt í hópum og umkringt bráðina á svipaðan hátt og ljón gera. Fótspor snareðla hafa fundist þar sem þau mynda allstóran hring utan um fótspor frumhyrnu (Protoceratops) sem var þá inni í hringum og greinilega umkringd. Af setlögum sem leifar snareðla hafa fundist í má draga þá ályktun að dýrin hafi lifað í þurru umhverfi, jafnvel í nágrenni við eyðimerkur. Húðin virðist hafa verið mislit og talið er að hún hafi að mestu leyti verið brúngrá, en líklega með gulgrænum röndum þvert yfir dýrið sem hefur auðveldað því að felast í skugga undir trjám og runnum. Annað slagið hafa komið fram vísbendingar um að dýrið hafi ef til vill verið fiðrað, en það hefur ekki verið endanlega staðfest. Myndir:
- Bellarmine University Department of Biology
- Beinagrindin er af Flickr síðu elestedeloeste, birt undir Creative Commons skírteini.