Evrópsku landnemarnir fluttu með sér dýr sem minntu á heimahagana, þar á meðal kanínur og refi. Talið var að þessi dýr myndu ekki lifa af hitann og þurrkinn ef þau slyppu út í villta náttúru Ástralíu en því fór fjarri. Nú ógna þessar innfluttu tegundir viðkvæmu lífríki álfunnar og miklum fjármunum hefur verið veitt til að reyna að fjarlægja þær. Kanínur (Oryctolagus cuniculus) voru fyrst fluttar til Ástralíu árið 1788. Þeim fjölgaði þó ekki verulega fyrr en upp úr 1858 þegar kanínum var viljandi sleppt lausum í Viktoríufylki. Það tók kanínurnar einungis 60 ár að breiðast út um alla sunnanverða álfuna (4 milljón km2) og hún hélt áfram að breiðast út þrátt fyrir að þúsundir kílómetra af girðingum væru reistar á árunum 1901–1907 til að hindra dreifingu þeirra um fylkið Vestur-Ástralíu. Ógnin sem af kanínum stafar er aðallega sú að þær keppa við áströlsku dýrin um fæðu og skjól og eru auk þess fæðuauðlind fyrir innflutta refi og ketti. Rauðrefir (Vulpes vulpes) og kettir (Felis catus) bárust til Ástralíu með Evrópumönnum. Þessar ágengu tegundir eru eitt stærsta vandamál ástralskrar náttúru því þær hafa breiðst út um nær alla álfuna og einstaklega erfitt er að losna við þær. Refir og kettir eru aðalóvinir lítilla pokadýra, sem þeir éta með bestu lyst, og veita einnig áströlskum ránpokadýrum mikla samkeppni í fæðuöflun. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Búa pokadýr aðeins í Ástralíu?
- Hvaðan komu pokadýrin?
- Hvað éta pokadýr?
- Til hvers nota pokadýr pokann sinn?
- Gætir þú sagt mér eitthvað um tasmaníudjöfulinn?
- Getur þú sagt mér allt um tasmaníutígurinn og sýnt mér mynd af honum og afkvæmi?
- Hvað getið þið sagt mér um kengúrur?
- Getið þið sagt mér allt um kóalabirni?
- Strahan, R. (ritstj.). 2002. The Mammals of Australia. Reed Books.
- Rannveig Magnúsdóttir. 2009. Ránpokadýr í Ástralíu - uppruni og örlög. Náttúrufræðingurinn 78 (3-4): 139-146.
- Mynd af kengúru: National Geographic. Höfundur myndar: Nicole Duplaix.