Nýja-Gínea og nálægar eyjar Fyrir um 15 milljónum ára, á miðju míósen-tímabilinu, hófust miklar loftslagsbreytingar í Ástralíu. Gróðursælir hitabeltisskógar hörfuðu til strandsvæða og grassléttur með strjálum trjágróðri náðu yfirhöndinni inn til landsins. Þessar breytingar urðu til þess að það varð tegundasprenging hjá grasbítum eins og kengúrum. Á sama tíma byrjuðu flekar Ástralíu og suðaustur Asíu að rekast saman og mynduðu fjallgarða sem seinna urðu að hálendi Nýju-Gíneu. Þessir fjallgarðar sköpuðu heppilegt hitabeltisloftslag fyrir trjábýlar tegundir sem annars hefðu líklega ekki lifað loftslagsbreytingarnar af. Ástralía og Nýja-Gínea byrjuðu að aðskiljast fyrir um 8-10 þúsund árum. Á Nýju-Gíneu er því að finna tegundir sem eru mjög skyldar áströlskum pokadýrum. Pokakettir (Quoll – Dasyurus), trjákengúrur (Tree kangaroo - Dendrolagus) og kuskus (Cuscus – Phalangerid) finnast meðal annars á báðum stöðum. Öfugt við Ástralíu þar sem einungis 20% pokadýra lifa í trjám, þá lifa 60% pokadýra Nýju-Gíneu í trjám. Nýja-Sjáland Tólf ástralskar pokadýrategundir voru fluttar til Nýja-Sjálands milli 1850 og 1870 en um helmingur þeirra náði ekki fótfestu. Sex vallabíutegundir hafa fundist villtar á Nýja-Sjálandi en engin þeirra er mjög ágeng. Ein þeirra (Macropus parma) var talin útdauð í Ástralíu þegar lítill hópur uppgötvaðist á Nýja-Sjálandi. Ein posutegund (Brushtail Possum, Trichosurus vulpecula) var flutt til Nýja-Sjálands vegna loðdýraræktunar en dýrin sluppu út, fjölgaði óheft og eru nú um 70 milljón talsins. Þessar jurtaætur bókstaflega éta sig í gegnum skóginn og valda gífurlegu tjóni. Þetta er eina dæmið um pokadýr í heiminum sem verður ágeng innflutt tegund fjarri heimkynnum sínum.
Hægt er að lesa meira um heimkynni pokadýra, hvernig þau dreifðust um meginlöndin og hvar þau náðu fótfestu í svari við spurningunni: Hver er skyldleiki kengúra við aðrar tegundir og hvernig þróuðust þær? Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Gætir þú sagt mér eitthvað um tasmaníudjöfulinn?
- Getur þú sagt mér allt um tasmaníutígurinn og sýnt mér mynd af honum og afkvæmi?
- Hvað getið þið sagt mér um kengúrur?
- Getið þið sagt mér allt um kóalabirni?
- Macdonald, D. (ritstj.). 2001. The Encyclopedia of Mammals. Oxford, Oxford University Press
- Rannveig Magnúsdóttir. 2009. Ránpokadýr í Ástralíu - uppruni og örlög. Náttúrufræðingurinn 78 (3-4): 139-146.
- Wodzicki K. og Flux J. E. C. 1967. Guide to Introduced Wallabies in New Zealand. Tuatara 15 (2).
- Brushtail Possum (Trichosurus vulpecula) á Feral.org.au.
- Mynd af virginíuposu: Virginia Opossum á Wikipedia. Höfundur myndar: Cody Pope. Birt undir Creative Commons Attribution-Share Alike 2.5 Generic leyfi.
- Mynd af Trichosurus vulpecula: Brushtail possum á Wikimedia Commons. Birt undir Creative Commons Attribution 2.0 Generic leyfi.