Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vísindamenn telja að aðskilnaður á milli legkökuspendýra og pokadýra hafi orðið á meðan risaeðlur ríktu enn á jörðinni. Ennfremur sýna nýlegar rannsóknir að þriðji hópur spendýra, nefdýr (Monotremata), en til hans heyra breiðnefur og mjónefur, hafi skilist frá fyrrnefndu tveimur flokkunum nokkuð fyrr. Hvenær þetta á að hafa gerst er ekki ljóst en menn hallast að tímabili fyrir meira en 80 milljónum ára.
Merkur steingervingafundur átti sér stað í Góbíeyðimörkinni í Mongólíu fyrir fáeinum árum en þar er að finna ríkuleg jarðlög frá seinni hluta Krítartímabilsins (fyrir 98-66 milljón árum). Staðurinn heitir Ukhaa Tolgod og er þekktur fundarstaður steingervinga, meðal annars risaeðlubeina. Í þessu tilfelli var um að ræða fyrirrennara pokadýra, dýr af svokallaðri Deltatheridium ættkvísl og dýrmætan fund í steingervingasögunni. Þessi ættkvísl gæti verið hinn týndi hlekkur milli pokadýra og legkökuspendýra og tilvist hennar styrkir stoðir þeirrar kenningar að pokadýr hafi komið fram í Asíu og dreifst þaðan suður á bóginn.
Fljótlega eftir að pokadýrin komu fram, tóku þau að dreifast suður á bóginn meðan á aðskilnaði Lárasíu (Norður-Ameríku, Asíu og Evrópu) og þess landsvæðis sem síðar varð að Suður-Ameríku stóð. Nokkrum milljónum ára síðar rofnaði landtengingin alveg og þróun dýralífs varð með mismunandi hætti í Lárasíu og Suður-Ameríku sem þá var hluti hins svonefnda Gondvanalands en það tengdi saman Suður-Ameríku, Suðurskautslandið, Afríku, Indland og Ástralíu. Í tímans rás numu pokadýrin land á Suðurskautslandi og þaðan breiddust þau út til Ástralíu, Indlands og Afríku. Gondvanaland brotnaði síðar upp í suðlægu heimsálfurnar sem við þekkjum í dag vegna flekahreyfinga líkt og Lárasía greindist í norðlægar álfur.
Í þá daga var Suðurskautslandið, ásamt öðrum meginlöndum sem tilheyrðu Gondvanalandi, þakið víðáttumiklum skógum sem samanstóðu aðallega af barrtrjám, burknum og köngulpálmum. Fræðimenn telja að fyrir um 45 milljónum ára hafi aðskilnaði Ástralíu frá Suðurskautslandinu verið lokið og þá hafist hin sérstæða þróun spendýra sem einkennir Ástralíu enn þann dag í dag.
Á norðurhveli jarðar (Lárasíu) ríktu legkökuspendýrin og við það að landbrú myndaðist að nýju milli Norður- og Suður-Ameríku, dreifðust dýrategundir á milli álfanna tveggja. Mat vísindamanna er að meginstraumurinn hafi legið frá norðri suður á bóginn og legkökuspendýrin aðlagast aðstæðum í suðri. Fornlíffræðingar telja að í kjölfarið hafi mikil útrýmingaralda riðið yfir fánu Suður-Ameríku og pokadýrin orðið undir í samkeppninni. Á Suðurskautslandinu hvarf mest allt dýralíf vegna kólnunnar þegar meginlandið færðist sunnar, Afríka og Indland tengdust svo Asíu með svipaðri útrýmingu pokadýra og varð í Suður-Ameríku. Ríki pokadýra hélt hinsvegar velli í Ástralíu og á Nýju-Gíneu sökum landfræðilegrar einangrunar og hefur spendýralíf þróast þar á allt annan hátt en annars staðar á jörðinni.
Steingerðar leifar pokadýra sem fundist hafa á meginlöndunum sem heyrðu til Gondvanalandi, meðal annars á Suðurskautslandinu, virðast staðfesta þessa kenningu um útbreiðslu- og útrýmingarsögu pokadýra. Nú á dögum lifir aðeins eitt pokadýr í Norður-Ameríku, pokarotta (Didelphis marsupialis, e. opossum). Sex tegundir er að finna í Suður-Ameríku (e. rat opossum) en engar í Afríku eða á Indlandi. Í Ástralíu má hinsvegar finna yfir eitt hundrað tegundir pokadýra. Tiltölulega fá legkökuspendýr lifa í Ástralíu en meðal þeirra má nefna leðurblökur sem talið er að hafi borist þangað fyrir um 15 milljónum ára. Á síðustu öldum hefur legkökuspendýrum fjölgað með landnámi Evrópumanna. Einnig ber að nefna að Ástralíu rekur smátt og smátt norður í átt að Asíu sem gerir sífellt fleiri legkökuspendýrum kleift að nema þar land, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir pokadýrafánuna.
En hvenær komu kengúrur fram á sjónarsviðið? Steingervingasaga ástralskra pokadýra er frekar illa þekkt fyrr en frá ísaldartímabilinu (e. Pleistocene, fyrir 1,8 milljónum ára), lítið af steingervingum hafa fundist þar í jarðlögum. Þó hafa fundist steingerðar leifar helstu ætta pokadýra í 26 milljón ára gömlum jarðlögum og vísindamenn telja að þær hafi komið fram á sjónarsviðið snemma á nýlífsöld (e. Cenozoic era) sem hófst fyrir 67 milljónum ára. Sennilegur forfaðir kengúra nútímans er dýr af fornri ætt, Phalangeroidea. Náttúruval leiddi til þess að þessi ái kengúra fór að standa uppréttur líkt og kengúrur gera. En nákvæmlega hvenær fyrstu dýrin sem við köllum kengúrur eða tilheyra hinni eiginlegu ætt kengúra, Macropodidae, er ekki vitað. Sumir fræðimenn telja það hafa verið fyrir rúmum 20 milljón ára, aðrir eru á því að það hafi verið mun fyrr.
Steingervingafræðingar hafa fundið margar útdauðar tegundir kengúra, sumar harla undarlegar. Kunnasta útdauða kengúran sem dó út fyrir um 45 þúsund árum, er tegundin Procoptodon goliah. Hún gat náð allt að 260 cm á hæð, var grasbítur líkt og kengúrur nútímans (til voru kengúrur sem lifðu á kjöti!) og lifði í skóglendi Austur-Ástralíu.
Menn hafa lengi velt vöngum yfir breytingum sem urðu skyndilega á stórdýrafánu Ástralíu fyrir um 50 þúsund árum. Á því tímabili er talið að menn hafi fyrst komið til álfunnar. Lengi vel var álitið að stórvaxin pokadýr og ófleygir risafuglar hafi einfaldlega verið ofveidd af mönnum en nýjustu kenningarnar eru þær að frekar hafi verið um að ræða miklar breytingar á gróðurfari af mannavöldum. Þær hafi lent hart á mörgum jurtategundum og þar með þrengt mjög að sérhæfðum jurtaætum eins og risaemúanum og yfir 60 tegundum spendýra. Frumbyggjar brenndu stór svæði, líkt og þeir gera enn þann dag í dag, og urðu þannig beint og óbeint valdir að hnignun og útrýmingu sérhæfðu jurtaætanna, þeirra á meðal Procoptodon goliah. Með fækkun þeirra dóu út stórvöxnu kjötæturnar, pokaljón (Thylacoleo carnifex) og kjötætukengúrur.
Heimildir og myndir:
Monastersky, R. 1999. „Ancient people sparked die-offs down under.“ Science News
Pough E.H., ofl. 1998. Vertebrate life. Macmillan, New York
Rougier G.W, Wible J.R, Novacek M.J. 1998. „Implications of Deltatheridium specimens for early marsupial history.“ Nature 1998, Dec 3
Íslenska alfræðiorðabókin. 1990. Örn og Örlygur, Reykjavík
Jón Már Halldórsson. „Hver er skyldleiki kengúra við aðrar tegundir og hvernig þróuðust þær?“ Vísindavefurinn, 1. júlí 2003, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3542.
Jón Már Halldórsson. (2003, 1. júlí). Hver er skyldleiki kengúra við aðrar tegundir og hvernig þróuðust þær? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3542
Jón Már Halldórsson. „Hver er skyldleiki kengúra við aðrar tegundir og hvernig þróuðust þær?“ Vísindavefurinn. 1. júl. 2003. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3542>.