Getið þið sagt mér allt um kóalabirni, svo sem æxlun, mökun og allt þar á milli?Kóalabirnir (Phascolarctos cinereus) eru áströlsk pokadýr og fyrirfinnast villtir á takmörkuðum skógarsvæðum við austurströnd Ástralíu. Flestir eru þeir í Queensland-ríki eða um 50 þúsund, en í Nýju-Suður-Wales eru um 15 þúsund birnir, og svipaðan fjölda er að finna innst í Viktoríuríki. Kóalabirnir hafa mjög fallegan fölgráan feld. Þeir eru oftast hvítgulir að framan og minna í útliti mjög á leikfangabangsa enda kallaðir birnir. Kóalabirnir eru jurtaætur og hafa sérhæft sig í fæðuvali, þeir éta lauf trjátegunda af ættkvíslinni Eucalyptus. Þeir eyða langmestum hluta ævi sinnar í trjám enda mjög berskjaldaðir fyrir árásum rándýra á jafnsléttu. Kóalabirnir eyða mestum hluta sólahringsins sofandi eða allt að 16 klst og hreyfa sig hægt og silalega, enda er efnaskiptahraði þeirra ákaflega hægur. Þeir eru virkastir rétt eftir sólsetur og sitja þá á trjágreinum og tyggja laufblöð í rólegheitum. Kóalabirnir eru 70-90 cm á lengd, vega frá 4 og upp í 9 kg og eru karldýrin yfirleitt stærri en kvendýrin. Vísindamenn hafa greint kóalabirni í tvær hugsanlegar deilitegundir, suður- og norður-kóalabirni, og eru þeir syðri um þriðjungi stærri að meðaltali. Sunnanbirnirnir hafa hvítan kraga um hausinn (einhvers konar makka) og eru brúnleitir en norðanbirnirnir eru gráleitir. Við upphaf landnáms Evrópumanna í Ástralíu taldi tegundin um nokkrar milljónir einstaklinga. Fljótlega voru kóalabirnir veiddir í miklu magni vegna feldsins auk þess sem sjúkdómar, sem húsdýr og rottur báru með sér, hjuggu stór skörð. Nú er fjöldinn talinn vera í kringum 100 þúsund dýr og telst tegundin ekki enn vera í útrýmingarhættu en fer þó mjög fækkandi. Upp á síðkastið hafa kóalabirnir orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna árlegra skógarelda í suðausturhluta Ástralíu og hefur það vakið miklar áhyggjur meðal náttúruverndarsinna. Nafnið „kóala“ merkir á tungu frumbyggja Ástralíu „ekkert vatn“ en sú nafngift er sprottin útfrá því að þessi dýr drekka aldrei vatn heldur fá þann vökva sem þau þurfa frá safaríkum blöðum eucalyptus-trjáa. Kvendýrin verða kynþroska við 3-4 ára aldur. Æxlun fer fram á tímabilinu mars-september. Meðgöngutíminn er um 35 dagar og gýtur kvendýrið einum unga. Tvíburar eru afar sjaldgæfir. Unginn er afar vanþroska þegar hann kemur í heiminn, eins og hjá öðrum pokadýrategundum, og dvelur í allt að 6 mánuði í poka móðurinnar - sem mætti hugsa sér sem einhvers konar framlengingu á meðgöngunni. Kóalaunginn eru blindur, hárlaus og vegur aðeins um 1 gramm við got! Hann skríður þó hjálparlaust í poka móður sinnar og kemur sér fyrir til að sjúga spena móðurinnar. Við um 7 mánaða aldur yfirgefur unginn pokann og hættir þá að drekka móðurmjólkina en borðar þess í stað seigfljótandi blöndu af laufblöðum eucalyptus-trjánna og móðurmjólkur, sem móðir hans færir honum. Með þessari fæðu berast ýmsar örverur í meltingarveg ungans sem er að finna í fullorðnum dýrum, en þær eru nauðsynlegar til að brjóta niður beðmi trjálaufanna sem hann á eftir að éta alla sína ævi. Á þessu æviskeiði hangir ungviðið oft á baki móður sinnar. Kvendýrið getur vænst þess að ala önn fyrir 5-7 ungum á ævi sinni. Myndir:
Getið þið sagt mér allt um kóalabirni?
Útgáfudagur
20.2.2003
Spyrjandi
Fanney Sumarliðadóttir, f. 1991
Tilvísun
Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt um kóalabirni?“ Vísindavefurinn, 20. febrúar 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3157.
Jón Már Halldórsson. (2003, 20. febrúar). Getið þið sagt mér allt um kóalabirni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3157
Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt um kóalabirni?“ Vísindavefurinn. 20. feb. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3157>.