Æxlun hjá tasmaníudjöflinum fer venjulega fram í mars. Ungarnir fæðast í apríl eftir 21 dags meðgöngu, en meðganga pokadýra er afar stutt og fæðast ungarnir mjög vanþroska. Ungar tasmaníudjöfulsins halda sig við spena móður sinnar í nær fjóra mánuði. Að þeim tíma liðnum hætta þeir sér smám saman úr pokanum og fara að kanna sitt nánasta umhverfi, en halda þess á milli til í greninu sem oftast er í holum trjábol. Fimm til sex mánaða hætta þeir á spena og yfirgefa síðan móður sína skömmu seinna. Kynþroski er við tveggja ára aldur en rannsóknir hafa sýnt að tasmaníudjöflar geti vart vænst þess að ná meira en átta ára aldri. Fullorðin dýr eru um 50-80 cm á lengd og vega á bilinu 4-12 kg, karldýrin eru nokkuð þyngri, 5,5-12 kg, en kvendýrin á bilinu 4-8 kg. Tasmaníudjöfullinn er kjötæta og þá aðallega hrææta. Hann drepur sér þó einnig til matar dýr eins og vallabíur, fuglsunga, froskdýr og skriðdýr. Tasmaníudjöfullinn er nytsemdardýr á landbúnaðarsvæðum þar sem hann er duglegur við að hreinsa upp hræ og kemur þar með í veg fyrir maðkaflugufaraldur. Tasmaníudjöfullinn er fyrst og fremst næturdýr og flakkar víða um í fæðuleit. Hann virðist vera klunnalegur og hægfara en getur tekið sprettinn ef hann þarf að ná bráð eða ef hætta steðjar að honum. Yngri dýr eru mun léttari á sér og geta klifrað fimlega upp í tré ef því er að skipta. Á daginn heldur tasmaníudjöfullinn sig hins vegar til í fylgsninu og lætur fara hægt um sig, hvílist og safnar orku fyrir átök næturinnar. Það er ekki árennilegt að reyna að handsama tasmaníudjöful. Hann hvæsir hátt og berar tennurnar, auk þess sem hann gefur frá sér óskemmtilega lykt undir álagi. Sennilega er nafngift hans dregin af þessu háttalagi, en hegðun hans stafar þó líklega frekar af hræðslu en grimmd, því ef hann er handsamaður getur hann verið sauðmeinlaus auk þess sem hann er tiltölulega þægilegur viðureignar í dýragörðum.
Þegar nokkrir djöflar koma saman og rífast um hræ gefa þeir frá sér margvísleg undarleg reiðihljóð og hnerra jafnvel hver að öðrum. Þetta er þeirra leið til að leysa úr ágreiningsmálum sínum. Dugi það ekki til berjast dýrin, en slíkt reyna rándýr þó oft að forðast. Tasmaníudjöflar eiga sér ekki marga óvini í dag en sennilega drápu tasmaníutígrar þá og átu meðan þeir voru enn á ferli. Stórir ernir og uglur eru taldar veiða þá að einhverju leyti ásamt risapokamerðinum (Dasyurus maculatus) sem étur unga djöfla. Áður fyrr var tasmaníudjöfullinn talinn vera meindýr og ógnun við kvikfénað rétt eins og tasmaníutígurinn. Því var gengið nokkuð hart fram við eyðingu hans fram eftir 20. öldinni og verðlaun greidd fyrir felld dýr. Honum fækkaði verulega og var orðin sjaldgæf sjón á 4. áratug síðustu aldar. Árið 1941 var hann hins vegar alfriðaður og hefur tegundin rétt verulega úr kútnum síðan. Tasmaníudjöfullinn er nú orðinn algengur að nýju en því miður varð tasmaníutígrinum ekki bjargað. Á hverju ári heyrast þær raddir að tasmaníudjöflinum hafi fjölgað of mikið og hann sé plága á haustin. Það er þó aðeins um 40% þeirra unga sem fæðast á hverju ári sem lifa fyrsta veturinn af þar sem samkeppnin um fæðuna er hörð. Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
- Getur þú sagt mér allt um tasmaníutígurinn og sýnt mér mynd af honum og afkvæmi?
- Hvert er sjaldgæfasta spendýr í heimi?
- Hvort eru nefdýr spendýr eða skriðdýr?
- Hvað getið þið sagt mér um kengúrur?
- Hver er skyldleiki kengúra við aðrar tegundir og hvernig þróuðust þær?
- Af hverju heitir Nýja-Sjáland þessu nafni? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Nowak, R. 1991. Walker's Mammals of the World. Baltimore: The Johns Hopkins University Press.
- Parks & Wildlife Service Tasmania
- Modesto Junior College Geology Department
- Tasmania - land of the Devils á PBS (Public Broadcasting Service)