Pokar pokadýra geta verið af öllum stærðum og gerðum og opið getur verið uppi eða niðri. Hjá kengúrum er op pokans að ofan en hjá kóalabjörnum og vömbum er opið að neðan. Ástæðan fyrir því að sumir pokar snúa niður er að þau dýr hreyfa sig og athafna á annan hátt en kengúrur. Vambar eyða miklum tíma í að grafa holur og það væri afar óhentugt ef op pokans sneri upp því þá myndi pokinn fljótt fyllast af mold og steinum. Forsögulegir kóalabirnir grófu einnig mikið og þótt þeir hafi fært sig upp í trén þá snýr poki þeirra enn niður. Kvendýr flestra kengúrutegunda eru þunguð mest allt sitt líf. Um leið og hún fæðir eitt afkvæmi þá makast hún og verður þunguð aftur. Nýja fóstrið fer þó strax í dvala eftir nokkrar frumuskiptingar og heldur ekki áfram að þroskast fyrr en eldri unginn fer að éta meiri fasta fæðu. Móðirin getur því framleitt mismunandi mjólkursamsetningu fyrir misgamla unga sína. Lítil pokadýr eignast yfirleitt marga unga einu sinni á ári, þetta er afar orkufrekt og því lifa þau ekki lengi. Sumar pokamýs (ættkvíslirnar Antechinus, Phascogale og Kaluta) og pokakötturinn Dasyurus hallucatus eiga það sameiginlegt að vera einu spendýrin í heiminum þar sem öll karldýrin í stofninum deyja að loknum fengitíma; þeir ná yfirleitt ekki eins árs aldri. Enn eru margar pokadýrategundir sem lítið hafa verið rannsakaðar, sérstaklega í Suður-Ameríku og Nýju-Gíneu, æxlunarkerfi þeirra eru illa þekkt. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Búa pokadýr aðeins í Ástralíu?
- Hvaðan komu pokadýrin?
- Hvað getið þið sagt mér um kengúrur?
- Getið þið sagt mér allt um kóalabirni?
- Frith, H.J. & J.H. Calby. 1969. Kangaroos. Cheshire F.W. (ritstj.). Melbourne.
- Luo, Z.X., Ji, Q., Wible, J.R. & Yuan, C.X. 2003. An early Cretaceous tribosphenic mammal and metatherian evolution. Science 302. 1934–1940.
- Macdonald, D. (ritstj.). 2001. The Encyclopedia of Mammals. Oxford, Oxford University Press.
- Rannveig Magnúsdóttir. 2009. Ránpokadýr í Ástralíu - uppruni og örlög. Náttúrufræðingurinn 78 (3-4): 139-146.
- Mynd af fenjapokamús á spena: Rannveig Magnúsdóttir.