

Árið 1646, þegar Pascal var 23 ára, hafði hann frétt af tilraun ítalska eðlis- og stærðfræðingsins Evangelistas Torricellis (1608-1647) og framkvæmdi hana sjálfur. Hún er fólgin í því að setja tilraunaglas fyllt kvikasilfri á hvolf í skál með kvikasilfri. Ef botni glassins er lyft upp úr skálinni helst kvikasilfrið allt í glasinu til að byrja með en þegar botninn er kominn í vissa hæð hættir kvikasilfrið að fylgja með og rými myndast fyrir ofan það. Pascal setti fram þá skýringu á þessu að loftþrýstingur haldi kvikasilfrinu uppi, en þegar kvikasilfursúlan væri orðin nógu há dygði loftþrýstingurinn ekki til og því myndaðist tómarúm fyrir ofan súluna. Hann framkvæmdi tilraunir sem sýndu að kvikasilfurssúlan lækkar eftir því sem hærra er farið með svona loftvog. Í tengslum við þessar rannsóknir setti hann fram það meginviðhorf tilraunavísinda sem vísindaheimspekingurinn Karl Popper (1902-1994) hóf til vegs á tuttugustu öld, að til að kanna gildi kenningar dugi ekki að reyna að staðfesta hana heldur þurfi líka að reyna að sýna fram á að hún sé ekki rétt. Ef kenningin standist ekki eina slíka prófraun sé hún röng. Pascal setti einnig fram lögmál um þrýsting í vökvum sem kennt er við hann og liggur meðal annars til grundvallar vökvadælum eins og nú eru notaðar til dæmis í hemla- og stýribúnaði bíla. Árið 1653 skrifaði Pascal grein um eftirfarandi töflu:
Taflan er búin til þannig að talan 1 er sett í öll sætin í efstu línu og öll sætin í dálknum lengst til vinstri. Síðan er hver skálínan á fætur annarri fyllt með því að setja í hvert sæti þá tölu sem fæst með því að leggja saman næstu tölu fyrir ofan og næstu tölu til vinstri. Til dæmis fæst 15 hér að ofan með því að leggja saman 5 og 10. Pascal sannaði að tala númer k + 1 í skálínu númer n + 1 er: $$\frac{n!}{k!(n-k)!}$$ Þótt taflan sé töluvert eldri en hann þá er hún nú kölluð Pascalþríhyrningurinn. Mikilvægi þessa þríhyrnings stafar af því að fjöldi möguleika á að velja k stök úr mengi með n stökum er tala númer k + 1 í skálínu númer n + 1. Til dæmis er hægt að velja tvö stök á 15 vegu úr mengi með sex stökum. Þetta kemur sér í lagi að gagni í líkindareikningi. Ef til dæmis tveir menn eru valdir af handahófi úr sex manna hópi þá eru líkurnar 1/15 á að tveir tilteknir vinir í hópnum séu báðir valdir. Uppruni líkindafræðinnar er yfirleitt rakinn til ársins 1654 þegar Pascal hóf bréfaskipti við landa sinn Pierre de Fermat (1601-1665). Girolamo Cardano (1501-1576) fjallaði reyndar um jafnar líkur um miðja 16. öld, en komst ekki að neinum markverðum niðurstöðum. Galíleó Galíleí (1564-1642) notaði einnig jafnar líkur til að skoða teningaköst, og rétt reiknaðar líkur fyrir þrjú köst mun vera að finna í þrettándualdar ljóðinu De vetula. Bréfaskipti þeirra Pascals og Fermats hófust vegna spurninga um fjárhættuspil sem menn að nafni Antoine Gombaud, Chevalier de Méré og Damien Mitton lögðu fyrir Pascal. Krónuköst, teningaköst og einföld fjárhættuspil hafa sömu þýðingu í líkindafræði og þríhyrningar, hringir og keilusnið hafa í rúmfræði: skilningur á þeim auðveldar rannsókn á flóknari fyrirbærum.
1 1 1 1 1 1 1 … 1 2 3 4 5 6 1 3 6 10 15 1 4 10 20 1 5 15 1 6 1 …

Hér er dæmi um verkefni sem Pascal og Fermat leystu, en það hafði þá velkst fyrir mönnum um aldir. Tveir menn leika eftirfarandi leik. Krónu er kastað og fær annar eitt stig ef framhliðin kemur upp og hinn eitt stig ef bakhliðin kemur upp. Vinnur sá sem fyrr fær n stig þar sem n er einhver fyrirfram tiltekinn fjöldi. Mennirnir urðu að hætta leiknum þegar annan vantaði eitt stig til að vinna og hinn vantaði tvö stig. Hvernig á að skipta vinningsupphæðinni? Pascal og Fermat komust báðir að þeirri niðurstöðu að sá sem vantar eitt stig ætti að fá 3/4 af vinningsupphæðinni. Útleiðsla Fermats var á þessa leið: Fjórar jafn líklegar útkomur koma til greina við svona aðstæður ef leikurinn væri leikinn til enda,
- framhlið í næsta kasti og framhlið í þarnæsta,
- framhlið í næsta kasti og bakhlið í þarnæsta,
- bakhlið í næsta kasti og framhlið í þarnæsta,
- bakhlið í næsta kasti og bakhlið í þarnæsta.
- Hvernig er sönnun Pascals á því að betra sé að trúa á Guð? eftir Atla Harðarson
- Hver var Andrei Kolmogorov og hvert var framlag hans til stærðfræðinnar? eftir Hermann Þórisson
- Fyrir hvað stendur upphrópunarmerkið, '!', í líkindareikningi? eftir Einar Örn Þorvaldsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Lítil mynd af Blaise Pascal: Biografías y Vidas. Sótt 21.3.2011.
- Mynd af Pascaline: Wikipedia.org. Sótt 21.3.2011.
- Málverk af Blaise Pascal: Wikipedia.org. Sótt 21.3.2011.