1 = 12Í unglingaskóla hannaði hann eilífðarvélar og faldi svo vel hvernig þær voru í rauninni drifnar að kennararnir áttuðu sig ekki á því. Faðir Kolmogorovs, Nikolai Matveevich Kataev, lærði búfræði. Hann var sendur í útlegð en varð svo deildarstjóri í búnaðarráðuneytinu eftir byltingu. Hann féll á suðurvígstöðvunum árið 1919. Kolmogorov hóf nám í stærðfræði við Moskvuháskóla árið 1920. Hann kynnti sér líka málmfræði og sögu og fyrstu rannsóknir hans fjölluðu um landeignir í Novgorod á 15. og 16. öld. Sögukennarinn er sagður hafa gert þá (réttmætu) athugasemd að Kolmogorov hafi aðeins lagt fram eina sönnun á niðurstöðu sinni og slíkt dugi kannski í stærðfræði en sagnfræðingar vilji helst tíu sannanir.
1 + 3 = 22
1 + 3 + 5 = 32
1 + 3 + 5 + 7 = 42 og svo framvegis.

Stórveldi Sovétríkjanna í stærðfræði var arfur frá keisaratímanum. Rætur þess má rekja til Pétursborgarakademíunnar sem þau Pétur og Katrín miklu stofnuðu á 18. öld. Sovétríkin ræktuðu þennan arf vel. Samtíða Kolmogorov í Moskvu voru meðal annars Egorov, Suslin, Urysohn, Khinchin, Stephanov sem var helsti kennari Kolmogorovs í byrjun, Luzin sem varð leiðbeinandi hans í doktorsnámi, og Aleksandrov sem hann bast ævilöngum vináttuböndum og sem dró hann inn í pólitískar ofsóknir gegn Luzin árið 1936. Fyrstu stærðfræðiuppgötvanir Kolmogorovs voru í Fourier-greiningu. Vakti ein niðurstaða hans strax alþjóðlega athygli: Hann setti fram fyrsta dæmið um tegranlegt fall með Fourier-röð sem er ósamleitin næstum alls staðar (næstum alls staðar skerpti hann síðar í alls staðar). Þetta var árið 1922 þegar hann var aðeins 19 ára og enn í grunnnámi. Þremur árum síðar skrifaði hann, ásamt Khinchin, fyrstu grein sína um líkindi. Þar var þriggja raða setningin um sterka samleitni slembistærðarunu og Kolmogorov-ójafnan. Þessar niðurstöður leiddu síðar af sér martingalaójöfnurnar og slembigreiningu. Þegar hér var komið sögu, árið 1925, hóf Kolmogorov doktorsnám. Því lauk árið 1929 og þá hafði hann skrifað 18 greinar. Þær fjölluðu meðal annars um hið sterka lögmál mikils fjölda, um lögmál ítrekaða lograns, um útvíkkun á diffrun og tegrun og um lögmálið um annað tveggja í innsæisrökfræði. Að loknu doktorsnámi lagðist Kolmogorov í ferðir með Aleksandrov, bæði niður Volgu og áfram um Kákasus til Armeníu til að endurnærast eftir áratugarlöng átök, og svo um Þýskaland og Frakkland þar sem hann átti langar samræður við þá Lévy og Fréchet sem voru í fararbroddi líkindarannsókna í Vestur-Evrópu. Árið 1931 varð Kolmogorov prófessor við Moskvuháskóla. Sama ár birti hann grein um Markovferli í samfelldu rúmi og tíma. Hún lagði grunninn að nútíma flöktferlum og þar var sett fram sambandið milli Markovferla og hlutafleiðujafna. Þótt þessi grein hafi fjallað um slembiferli (fyrirbæri sem þróast í tíma háð tilviljun) var það gert með aðferðum stærðfræðigreiningar en ekki líkindafræði. Enn var eftir að leggja nægilega traustan grunn að líkindafræðinni. Það gerði Kolmogorov svo í hnitmiðaðri grein, Grundbegriffe der Wahrscheinlichkeitsrechnung, sem kom út árið 1933. Skilgreining Kolmogorovs á líkindum er furðanlega sjálfsögð: minnstu líkindi eru 0, mestu líkindi eru 1, og ef atburður (takið eftir því að hugtakið atburður hefur hér ekki verið skilgreint formlega, þar liggur hundur grafinn, leiðum hann hjá okkur) er samsettur af runu ósamrýmanlegra atburða þá eru líkindin á honum summan af líkindum þeirra hvers fyrir sig. Haft er eftir Bertrand Russell að allir tali um líkindi en enginn viti hvað þau eru. Ýmsir (von Mises, Keines, de Finetti) reyndu að skilgreina líkindi á grundvelli einhverrar veruleikatúlkunar en Kolmogorov horfði einfaldlega fram hjá því hvað líkindi „eru“. Hann lagði aðeins stærðfræðilega eiginleika þeirra til grundvallar. Þetta leysti líkindafræðina úr læðingi með því að losa hana við veruleikatúlkun og gera hana að hreinni stærðfræði. Næsta áratuginn helltust yfir nýjar niðurstöður og mörg ný sérsvið tóku að mótast.

- A. N. Shiryaev, Kolmogorov: Life and Creative Activities, The Annals of Probability. 17:3, bls. 866-944.
- David G. Kendall, Kolmogorov as I Remember Him, Statistical Science. 25:3, bls. 303-312.
- Andrei Nikolaevich Kolmogorov: A Concise Biography.
- World of Mathematics on Andrei Nikolaevich Kolmogorov.
- Fyrri myndin er úr safni höfundar.
- Kolmogorov.com. Sótt 14.1.2011.