Hringur eða hringferill er mengi þeirra punkta í sléttu eða plani sem eru í tiltekinni fjarlægð frá gefnum punkti. Sá punktur nefnist miðja eða miðpunktur hringsins.
Gefni punkturinn sem skilgreiningin miðast við nefnist miðja eða miðpunktur hringsins (e. centre, center). Fjarlægð hringferilsins frá honum nefnist geisli eða radíus. Lengd striks gegnum miðjuna þvert yfir hringinn nefnist þvermál (e. diameter) hringsins en lengd hringferilsins sjálfs kallast ummál hringsins (e. circumference). Dæmi um hluti í umhverfi okkar sem nálgast hring í þessari merkingu eru giftingarhringar og gjarðir hvers konar.
Orðið hringur er einnig stundum notað um flötinn eða skífuna sem afmarkast af hringferlinum, en til aðgreiningar er þá hægt að tala um hringskífu eða hringflöt. Dæmi um slíkt gæti verið yfirborðið á geisladiski. Enska orðið um hring er circle, en í síðartöldu merkingunni má tala um circular disk eða einfaldlega disk.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Af hverju er hringnum skipt í 360 gráður? eftir Kristínu Bjarnadóttur.
- Hvernig er jafnan um flatarmál hrings sönnuð? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Hverjir ,,fundu upp" π (pí)? eftir Eggert Briem.
- Hvað er sniðill? eftir ÞV.
- Hvernig er hægt að draga ferningsrót af línustriki með hringfara einum? eftir Stefán Inga Valdimarsson.
- Hvað er keilusnið? eftir Rögnvald G. Möller.
- Safn skilgreininga á ensku á Veraldarvefnum: Answers.com.
- Reynir Axelsson (ritstjóri), 1997. Ensk-íslensk stærðfræðiorðaskrá. Reykjavík: Íslenska stærðfræðafélagið og Háskólaútgáfan.
- Geisladiskur.