Hvers konar gos var gosið í Eyjafjallajökli árið 2010? Ísúrt sprengigos?Eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010, sem stóð yfir frá mars fram í maí, er stærsta þekkta gos í jöklinum. Það hófst með litlu flæðigosi í hlíðum fjallsins, nánar tiltekið á Fimmvörðuhálsi þann 20. mars. Flæðigosið stóð yfir í 23 daga og var basískt. Að því loknu varð stutt hlé en 14. apríl hófst sprengigos í toppgíg fjallsins með tveimur sprengifösum með tveggja vikna millibili. Það stóð yfir í 39 daga og lauk 22. maí. Gosið úr toppgígnum var kísilríkt og ísúrt sprengigos. Hægt er að skipta framvindu gossins frá 14. apríl til gosloka í fjögur tímabil. Frá 14. til 18. apríl var sprengivirkni ríkjandi. Síðan tók við blandað flæði- og spengigos fram til 4. maí þar sem sprengivirkni var mun minni en í fyrsta hlutanum. Frá 5. til 17. maí var sprengivirkni og ekkert hraunrennsli. Lokaskeiðið var svo frá 18. til 22. maí og einkenndist það af minnkandi uppstreymi kviku og lækkandi gosmekki.

Gosið í Eyjafjallajökli 2010 hófst með litlu basísku flæðigosi sem stóð yfir í 23 daga. Síðan tók við kísilríkt og ísúrt sprengigos sem stóð yfir í 39 daga. Myndin hér fyrir ofan var tekin í apríl 2010 og sýnir fyrsta sprengifasann úr toppgígnum.
- Íslensk eldfjallavefsjá. (Sótt 10.09.2024). Myndirnar sem fylgja með svarinu eru einnig fengnar þaðan.
- Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson og Bjarni Bessason. (2013). Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands.