Margt er þar annarra stórra fjalla, þar sem einnig gjörast ýmis sérstök og undarleg fyrirbrigði. Eitt þeirra er sextán mílur frá Skálholti; þar bar svo til veturinn 1613 að á því dundu látlaust reiðarþrumur og hræðileg högg þrjá daga, líkt og skotið væri úr einhverjum óskaplega stórum og mörgum fallstykkjum. Svo logaði allt fjallið, og eldurinn stóð upp af tindinum eins og kyndill, og féll það og rann með feiknalegum dunum og dynkjum ofan í mikið vatn, sem þar var hjá, þrjátíu faðma á dýpt, og brenndi það og þurrkaði upp. Svo fyllti fjallið djúpið af gjalli og brenndu grjóti.Þessa lýsingu Daniels Vetters á gosi í fjalli 16 mílur frá Skálholti má túlka á ýmsa vegu. Á kortum kenndum við Guðbrand Skálholtsbiskup er Eyjafjallajökull sýndur í um 16 mílna (þýsk míla) fjarlægð frá Skálholti, Mýrdalsjökull í 18-20 mílna fjarlægð og Sólheimajökull mun fjær. Daniel dvaldi meðal annars í Skálholti í boði Odds biskups og gæti hafa tölur um fjarlægðir frá heimamönnum. Fjallið „rennur“ ofan í „mikið vatn,“ en ekki í sjó fram. Þetta tvennt styður fremur að lýsingin eigi við gos í Eyjafjallajökli en Kötlu, en rökin eru þó veik. Þetta er tíundað hér vegna þess að ekki er hægt að líta fram hjá þeim möguleika að þar sé verið að lýsa hlaupi sem kom niður hlíðar Eyjafjallajökuls og bar með sér töluvert af föstu efni. Vera má að „vatnið“ eigi við lón framan við Gígjökul eða Steinholtsjökul. Einnig er mögulegt að átt sé við vötn sem voru einhvers staðar í nágrenni Eyjafjallajökuls, en hurfu, „fjallið fyllti djúpið af gjalli og brenndu grjóti.“ Ólíklegt er, en ekki ómögulegt, að átt sé við Holtsós, það vatn er enn til. Lýsingar í heimildum á gosum og hlaupum í Eyjafjallajökli og Kötlu á árunum 1612-1613 eru fremur ruglingslegar og blandnar. Öruggt má telja að hlaup hafi fylgt Kötlugosinu 1612 sem rann meðal annars ofan í Álftaver, en ákveðin atriði í frásögn Daniels Vetter má túlka svo að hlaup, hugsanlega frá Eyjafjallajökli, hafi runnið út í stöðuvatn og fyllt það. Varlegast er að gera ráð fyrir að gosi í Eyjafjallajökli á árunum 1612-1613 hafi fylgt hlaup eða vatnsflóð, þótt ekkert verði sagt með vissu um stærð eða hlaupleiðir. Eldgos og hlaup um 920 Engar heimildir eru um eldgos við Kerin í norðvestanverðum Eyjafjallajökli. Þau eru hryggur upp í norðvestanverðan jökulinn, um fjögurra kílómetra langur og að hluta úr gjall- og hraunkarga.[20] Ummerki um hlaup sem flæddi niður norðurhlíðarnar hafa verið tímasett með gjóskutímatali og eru frá því um 920. Aðeins eldgos í eða að hluta undir jökli getur valdið jökulhlaupi frá þessu svæði, og líkleg upptök eru við Skerin. Hlaupið á tíundu öld kom niður norðurhlíð Eyjafjallajökuls neðan við Skerin og risti farvegi sem enn sjást í aurkeilur vatnsfalla á tveggja kílómetra löngum kafla við Langanes. Líklegt er að hlaupvatn hafi komið niður norðurhlíðina á mun breiðara svæði, á um sex kílómetra kafla frá Akstaðaá austur að Smjörgili. Vatnsmagn var líklega ekki mikið, en fallhæð frá núverandi jökulrönd niður á jafnsléttu er 700-800 metrar á þriggja kílómetra vegalend (loftlína). Tilvísanir:
- ^ Sveinn P. Jakobsson, 1979. Petrology of Recent Basalt of the Eastern Volcanic Zone, Iceland. Acta Naturalia Islandica, 26, 1-103.
- ^ Helgi Torfason og Höskuldur B. Jónsson, 2005. Jarðfræði við norðvestanverðan Mýrdalsjökul. Hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. (Magnús Tumi Guðmundsson og Ágúst Gunnar Gylfason ritstjórar). Ríkislögreglustjórinn og Háskólaútgáfan, Reykjavík, 45-74.
- ^ Sveinn P. Jakobsson, 1979.
- ^ Haukur Jóhannesson og fleiri, 1990. Jarðfræðikort af Íslandi, blað 6. Miðsuðurland. 3. Útgáfa. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
- ^ Klausturpósturinn, 1822 og 1823.
- ^ Guðrún Larsen, 1999. Gosið í Eyjafjallajökli 1821-1823. Rannsóknarskýrsla RH-28-99, 1-13. Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Reykjavík.
- ^ Annálar 1400-1800, bls. 28-277. Hannes Þorsteinsson, Jón Jóhannesson, Þórhallur Vilmundarson og Guðrún Ása Grímsdóttir önnuðust útgáfu. Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.
- ^ Vetter, Daniel [1592-1669]. 1983. Ísland. Ferðasaga frá 17. öld. Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir þýddu. Helgi Þorláksson sá um útgáfuna. Reykjavík, Sögufélag. 150 bls.
- ^ Dugmore, óbirt gögn
- ^ Birgir V. Óskarsson, 2009. The Skerin ridge on Eyjafjallajökull, south Iceland: Morphology and magma-ice interaction in an ice-confined silicic fissure eruption. Meistaraprófsritgerð vð Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, 111 bls.
- ^ Klausturpósturinn, 1822 og 1823.
- ^ Guðrún Larsen og fleiri, 1999. Geochemistry of historicalage silicic tephras in Iceland. The Holocene, 9, 463-471.
- ^ Klausturpósturinn, 1822, bls. 3.
- ^ Klausturpósturinn, 1822, bls. 134 og 201-202.
- ^ Safn til sögu Íslands II, 1856-1939. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík og Kaupmannahöfn, bls. 555-556.
- ^ Gunnar O. Gröndal og Sverrir Elefsen, 2005. Farvegir Markarfljóts í Landeyjum og rennsli jökulhlaupsins 1822. Hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. (Magnús Tumi Guðmundsson og Ágúst Gunnar Gylfason ritstjórar). Ríkislögreglustjórinn og Háskólaútgáfan, Reykjavík, 105-111.
- ^ Klausturpósturinn, 1822.
- ^ Sveinbjörn Rafnsson, bréflegar upplýsingar 2008.
- ^ Vetter, Daniel [1592-1669]. 1983.
- ^ Birgir V. Óskarsson og fleiri, 2010. The 10th century Skerin ridge on northwest Eyjafjallajökull, south Iceland – Volcanic architecture and bimodal magma composition. American Geophysical Union, Fall Meeting 2010, abstract V4 1E-2330.
- Eyjafjallajökull | Frá Hvolsvelli | Bjarki Sigursveinsson | Flickr. Birt undir CC BY-SA 2.0 leyfi. (Sótt 26.03.2020).
- Vatnslitamynd: Náttúruvá á Íslandi, bls. 292.
Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Eyjafjallajökul í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.