Margt er og annarra stórra fjalla, þar sem einnig gjörast ýmis sérstök og undarleg fyrirbrigði. Eitt þeirra er sextán mílur frá Skálholti; þar bar svo til veturinn 1613, að á því dundu látlaust reiðarþrumur og hræðileg högg þrjá daga, líkt og skotið væri úr einhverjum óskaplega stórum og mörgum fallstykkjum. Svo logaði allt fjallið, og eldurinn stóð upp af tindinum eins og kyndill, og féll það og rann með feiknarlegum dunum og dynkjum ofan í mikið vatn, sem þar var hjá, þrjátíu faðma á dýpt, og brenndi það og þurrkaði upp. Svo fyllti gjallið djúpið af gjalli og brenndu grjóti. (Vetter, 1983, s.100).
Frásögn í annál Björns á Skarðsá
1612: Sprakk fram Eyjafjallajökull austur allt í sjó; kom þar upp eldur; hann sást nær alstaðar fyrir norðan land.Álitið er að hér sé verið að lýsa Kötluhlaupi. Í ritgerð Helga Þorlákssonar sagnfræðings sem birt er í útgáfu Sögufélags á bók Vetters má finna eftirfarandi:
Guðrún Larsen jarðfræðingur hefur kannað gjóskulög umhverfis Mýrdalsjökul og fundið lag gjósku sem hún telur úr Kötlu frá árinu 1612 og annað rétt undir sem talið er geta verið úr Eyjafjallajökli sama ár, 1612. Um lýsinguna í Skarðsárannál ritar hún að sú „virðist raunar blönduð lýsingu á Kötluhlaupi“. Niðurstaða Guðrúnar er þá: „að gosið hafi á þessum tveim stöðum með stuttu millibili eða jafnvel samtímis og að gosin hafi byrjað í síðasta lagi 12. október 1612. Annað hvort gosið hefði getað varað fram yfir áramótin 1612/1613. Það er ekki einsdæmi að þessar eldstöðvar séu virkar samtímis, sbr. gosin 1821-1823 í Eyjafjallajökli og 1823 í Kötlu.“Nafnið Eyjafjallajökull var oft notað um báða jöklana, Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul. Hlaups úr Kötlu er getið í framhjáhlaupi í frásögn af Kötlugosinu 1625. Þar segir Þorsteinn Magnússon klausturhaldari í Þykkvabæ um hlaup úr Kötlu:
Það fyrsta af þeim síðust iij meina ég að verið hafi Anno 1581 eðu þar um...það annað því næst var ár 1612 og það var það fyrsta ár, er ég meðtók þetta klaustur, og skeði 12.Octobris. (Safn til sögu Íslands, s. 214-215).Hvað gerðist? Eyjafjallajökull gaus. Úr honum stóð mikil gosstrókur þar sem gengu miklar eldingar í þrjá daga (svipað og nú). Hugsanlega sást síðan til kvikustróka, betur en nú. Mikið jökulhlaup fyllti 50 metra djúpt Gígjökulslón þannig að það þornaði alveg (eins og nú). Í textanum stendur ekkert um að gosið hafi staðið í þrjá daga heldur aðeins að eldingakaflinn hafi gert það. Við sem sáum að lónið fylltist á einum degi trúum nú þessari frásögn. Velta má vöngum yfir því hvort þetta segir eitthvað um stöðu Gígjökuls fyrir gosið. Ef til vill hefur staða hans verið svipuð og nú var. Lónið var til um 1600 og Gígjökull hefur því áður staðið fram á jökulgarðana. Það þýðir að eldri kuldaköst hafa grafið það „upphaflega“. Einnig er athyglisvert hversu fljótur jökullinn hefur verið að grafa lónstæði að nýju en slíks höfum við dæmi frá Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi sem grófst eftir að Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson komu þar 1756. Atburðir 1821-1823 eru öðru vísi að því leyti að þá hefur jökullinn sennilega náð alveg fram á garða. Þegar svo háttar til bregst lónið öðru vísi við hlaupi, jafnvel hefur hlaupið getað dýpkað það. Ekki er ástæða til að efast um frásögn Þorsteins Magnússonar af Kötluhlaupi 1612. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað er langt síðan Eyjafjallajökull gaus síðast og varð mikið jökulhlaup þá?
- Hvað gæti Kötlugos mögulega staðið lengi yfir?
- Kemur Kötlugos í kjölfarið á þessu gosi á Fimmvörðuhálsi?
- Skarðsárannáll, Íslenskir annálar I, s.28-272. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 1922.
- Vetter, Daniel, 1592-1669. Ísland: ferðasaga frá 17. öld. Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir þýddu, Helgi Þorláksson sá um útgáfuna. Reykjavík, Sögufélag, 1983, 150, [1] s., myndir, kort. Ritröð: Safn Sögufélags;1
- Þorsteinn Magnússon, Relatio, í Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju, iv, s.214-215. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafjelag, 1856-1939.
- Mynd: Veðurstofa Íslands. Ljósmyndari: Oddur Sigurðsson.
Þetta svar birtist áður á vef Veðurstofu Íslands og er birt hér með góðfúslegu leyfi.