Í náttúruhamförum á Reykjanesi í nóvember 2023 eru gefnar yfirlýsingar um möguleg áhrif á stýrivexti, vexti, verðbólgu, skatta o.s.frv. vegna tjóna á innviðum í 3700 manna bæjarfélaginu Grindavík. 1973 er gaus á Heimaey eyðilögðust um 40% bygginga í 5000 manna bæjarfélagi í einni mestu verstöð landsins. Hvaða áhrif höfðu þær náttúruhamfarir á stýrivexti, vexti, verðbólgu, skatta o.s.frv? Var þá til Viðlagasjóður sem tók fjárhagshöggið, rétt eins og sjóður sá sem nú hefði átt að vera til?Það er erfitt að bera saman hugsanlegar efnahagsaðgerðir nú og á tíma Vestmannaeyjagossins fyrir 50 árum vegna þess hve mikið hagkerfið hefur breyst. Sérstaklega er umgjörð peningamála nú allt önnur. Fyrir 50 árum réðust vextir og gengi krónunnar ekki á markaði heldur voru teknar ákvarðanir um slíkar hagstærðir á vettvangi stjórnmálanna. Það er þó áhugavert að rifja upp söguna frá 1973 og gera stuttan samanburð. Gripið var til margvíslegra efnahagsráðstafana vegna gossins í Heimaey, meðal annars að koma upp Viðlagasjóði til að greiða bætur til þeirra sem áttu eignir sem skemmdust í hamförunum. Fé var aflað til þessa með skattheimtu. Nú starfar hins vegar arftaki Viðlagasjóðs, Náttúruhamfaratrygging Íslands, sem tryggingafélag og á bæði bótasjóð og er með endurtryggingar hjá erlendum aðilum. Það er því ekki sama þörf og fyrir 50 árum á bótum úr ríkissjóði, þótt það geti reynt á hann sem bakhjarl þessa tryggingafélags.

Erfitt er að bera saman hugsanlegar efnahagsaðgerðir nú og á tíma Vestmannaeyjagossins fyrir 50 árum vegna þess hve mikið hagkerfið hefur breyst. Gosið í Heimaey hafði hins vegar veruleg áhrif á fjárhag hins opinbera til hins verra sem hjálpaði ekki í baráttunni við verðbólguna.
- Myndin er fengin úr svari við spurningunni Hvað eru strombólsk eldgos?