Hvernig virkar lífeyrissjóður? Eins og staðan er í dag þá borga ég og atvinnurekandi 15,5% af launum í lífeyrissjóð. Miðað við það tekur 6,5 ár að safna fyrir einu ári af launum. (15,5%*6,5ár=100.75%). Starfsævin miðað við að viðkomandi fari í skóla er kannski 45 ár. Þannig þessi 15,5% sem eru borguð í sjóð duga bara til að greiða mér laun í um 7 ár?Almenna lífeyrissjóðakerfið byggir á sjóðsöfnun og samtryggingu. Með því er átt við að sjóðfélagar greiða iðgjald alla starfsævina í sameiginlegan sjóð og safna þannig réttindum til að fá greiddan lífeyri eftir að starfsævinni lýkur. Þar skiptir ellilífeyrir mestu en sjóðirnir greiða einnig annars konar lífeyri, sérstaklega vegna örorku. Geta sjóðanna til að greiða lífeyri fer vitaskuld eftir því hve mikil iðgjöld þeir innheimta en einnig hve vel sjóðirnir ná að ávaxta þau. Langur tími líður alla jafna frá því sjóðfélagi greiðir fyrst iðgjald og þangað til hann fer að fá greiddan lífeyri þannig að uppsöfnuð ávöxtun getur orðið umtalsverð. Samtryggingin felur í sér að sumir fá mjög miklar lífeyrisgreiðslur samanlagt en aðrir litlar eða jafnvel engar. Það fer sérstaklega eftir langlífi. Lífeyrissjóður þarf hverju sinni að eiga nægt fé í sjóði og eiga von á nægum iðgjöldum til viðbótar í framtíð til að standa undir öllum væntum framtíðarlífeyrisgreiðslum. Nægi eignir og framtíðariðgjöld ekki til þess þarf að lækka lífeyrisgreiðslurnar fyrr eða síðar. Séu eignir og framtíðariðgjöld meiri en væntar framtíðarlífeyrisgreiðslur er á sama hátt hægt og raunar skylt að auka lífeyrisgreiðslurnar. Í slíkum útreikningum er miðað við 3,5% raunávöxtun bæði eigna og skuldbindinga.

Samtryggingin felur í sér að sumir fá mjög miklar lífeyrisgreiðslur samanlagt en aðrir litlar eða jafnvel engar. Það fer sérstaklega eftir langlífi.
- File:Big crowd in little city (5745197325).jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 9.08.2023).