Nútíma eldvirkni á Íslandi er einkum bundin við tvö gosbelti. Annað liggur frá Reykjanesi til Langjökuls en hitt liggur frá Vestmannaeyjum þvert yfir landið til Melrakkasléttu. Á Suðurlandi færist gosbeltið suður á bóginn vegna samspils möttulsstróksins undir landinu og flekaskilanna. Eldgosið í Surtsey sem hófst árið 1963 markar framrás Suðurlandsgosbeltisins, en í framtíðinni kann vel að gjósa enn sunnar. Samtímis, eða stuttu fyrir Surtseyjargosið, er líklegt að kvika hafi risið inn undir Heimaey, sem er miðja eldstöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Sennilegast er að basaltkvika, lík þeirri er kom upp í Surtsey, hafi stöðvast á um það bil 20 km dýpi og kólnað úr 1150 °C niður í 1050 °C. Við kólnunina byrjuðu þær steindir kvikunnar sem hafa hæsta bræðslumarkið að kristallast. Kristallarnir sem féllu úr kvikunni innihéldu lítið af vatni eða öðrum rokgjörnum efnum og því söfnuðust þau efni saman í afgangsbráðinni. Þegar bráð yfirmettast af þessum rokgjörnu efnum, leysast þau úr kvikunni og mynda gas. Gasið er léttara og rúmmálsfrekara en kvikubráðin og safnast því saman efst í kvikuhólfinu, þar sem þrýstingur eykst. Þegar þrýstingur kvikunnar nær að brjóta grannbergið fyrir ofan hólfið, skýst hún upp og getur valdið gosi. Undir Heimaey virðist það hafa tekið kvikuna nálægt 10 ár að byggja upp nægilegan þrýsting til að koma af stað gosinu sem hófst þann 23. janúar 1973. Draga má þann lærdóm af síðustu Vestmannaeyjagosum, að ef gos verður einhversstaðar í nálægð Heimaeyjar þá er allt eins líklegt að gjósi einnig á Heimaey. Jafnframt má reikna með gosi hvenær sem er í Vestmannaeyjaeldstöðinni. Það sama á reyndar við um Reykjanesskagann og þá gæti Hafnarfjörður legið í því. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Er eldvirkni á Íslandi sveiflukennd? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hversu langan tíma tekur það nýtt hraun að verða að hörðum steini? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvað er megineldstöð? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvað eru Vestmannaeyjar gamlar? eftir Sigurð Steinþórsson
- Af hverju gaus Hekla á þessu ári? eftir Sigurð Steinþórsson
- Af hverju eru eldgos svona heit? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hver var Þorbjörn Sigurgeirsson og fyrir hvað er hann þekktastur? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hver var Þorleifur Einarsson og hvert var hans framlag til jarðfræðinnar? eftir Pál Imsland
- Vefsetur Vestmannaeyjakaupstaðar, síða um Heimaeyjargosið. Sótt 28.4.2002.