Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Spurningar eins og þessi bera í sér skemmtilega þversögn. Ef spyrjandi er að leita eftir svari þá virðist viðkomandi ekki telja að fáfræði sé sæla. Og ef svarið er jákvætt ætti sá sem svarið ritar varla að hafa það lengra. Útskýringar og rökstuðningur eru andstæðan við hvers konar fáfræði. Í raun og veru er freistandi að svara spurningunni í stíl sem Vísindavefurinn kennir við föstudagssvör. Er illu best aflokið? er til dæmis spurning sem ekki var hægt að svara á sínum tíma nema með nokkrum útúrsnúningum og birta á föstudegi.
Hugmyndin sem liggur að baki spurningunni hvort fáfræði sé sæla er forn og hefur fylgt mannkyninu lengi. Hún var þekkt í Rómarveldi og kom aftur fram hjá ólíkum höfundum bæði í endurreisninni og á upplýsingartímanum. En hún er þó sögulega ekki þekkt sem spurning heldur fremur sem staðhæfing – ýmist sett fram í kaldhæðni eða sem bláköld trú. Og sem staðhæfing ber hún ekki með sér þennan þversagnakennda blæ sem spurningin gerir. En spurnarformið býður reyndar upp á áhugaverðar vangaveltur um jákvæða og neikvæða svarmöguleika.
Svo virðist sem jákvæð svör við spurningunni skipti sér í að minnsta kosti þrjá flokka. Í þeim fyrsta má finna svarendur sem telja að andlegur friður náist ekki nema hugurinn sé tæmdur eins og kostur er. Margs konar hugleiðsla og aðrar hugaræfingar stefna að því að tæma hugann af hugsunum og sækja þannig innri frið og sælu. Þó er mögulega ósanngjarnt að kenna slíkar æfingar við fáfræði þar sem slíkt krefst reynslu og þjálfunar sem er ekki það sem átt er við þegar vísað er til fáfræði. En í grunninn byggist þetta þó allt á þeirri hugmynd að hefðbundin viska sem byggir á upplýsingum, þekkingu og röklegum ályktunum sé ekki leið til sælu.
Margs konar hugleiðsla og aðrar hugaræfingar stefna að því að tæma hugann af hugsunum og sækja þannig innri frið og sælu. Þó er mögulega ósanngjarnt að kenna slíkar æfingar við fáfræði þar sem slíkt krefst reynslu og þjálfunar sem er ekki það sem átt er við þegar vísað er til fáfræði.
Í öðrum flokki má finna þau sem upplifa mesta sælu við að fylgja straumnum, eins og stundum er sagt. Fáviska, eða fáfræði, er oft skilgreind sem andstæðan fyrir upplýsta afstöðu þegar kemur að skoðanamyndun. Í gegnum söguna hafa sumir talið – og mögulega haft rétt fyrir sér – að besta leiðin til að vera sáttur með hlutskipti sitt sé að falla inn í fjöldann og sækja þangað leiðsögn. Fólk finnur þá hjá sér þörf til að sýna af sér hjarð- og trygglyndi innan samfélagsins. Best sé að þurfa sem sjaldnast að hugsa á sjálfstæðan máta. Fjölmargir mannlegir eiginleikar sem ganga gegn sjálfstæðri og gagnrýninni hugsun virðast þróunarlega hafa orðið ofan á sem bendir til þess að þeir séu jákvæðir í einhverju tilliti og mögulega sæluvekjandi. Auk hjarð- og trygglyndis má þar nefna afdalahátt og nesjamennsku, sókn í hjátrú og fordóma.
Síðast en ekki síst verður að nefna mikinn straum í sögu vestrænna hugmynda sem á sér mögulega sína frægustu birtingarmynd í hinu merka verki Voltaires, Birtíngi. Eins og lesendur þeirrar merku sögu vita, lenda söguhetjurnar í margvíslegum raunum en komast að lokum að þeirri niðurstöðu að krampakennd þekkingarleit sé varla leið til sælu. Fremur eigi maður að leita eftir einfaldara lífi og „rækta garðinn sinn“. Samkvæmt þessu svari er sókn í fávisku auðvitað ekki markmið mannlegs lífs. Þeir sem sækja að lokum í einfaldara líf byggja niðurstöðu sína á reynslu sem oft er bitur. En kjarninn í hugmynd og gagnrýni Voltaires er hins vegar sá að oftrú á þekkingu geti leitt okkur í margs konar furður sem erfitt og sársaukafullt getur verið að vinda ofan af. Hamingjan felist ekki í visku viskunnar vegna.
Þrátt fyrir ofangreinda flokka af svörum sem telja að fáfræði sé sæla þá er neikvætt svar líklega algengara meðal helstu hugsuða í sögu mannsandans. Í neikvæðu svari má einnig greina að minnsta kosti þrjá flokka. Í þeim fyrsta falla svör sem eiga sér rætur í hugmyndum um að raunveruleg sæla komi frá farsælu lífi. Samkvæmt þessu viðhorfi er þekking nátengd möguleikum okkar til hamingjuríkrar tilveru. Þekking er dygð og tilgangur mannlegs lífs felst í dygðugu lífi. Sá sem trúir slíkum hugmyndum myndi aldrei sættast á að raunveruleg sæla fælist í fáfræðinni. Sælan sem einhver gæti fundið til væri ekkert annað en stundargaman sem segði ekkert til um hversu farsælt líf viðkomandi sé.
Neikvætt svar við spurningunni er líklega algengara meðal helstu hugsuða í sögu mannsandans. Hugmyndin um að raunveruleg sæla komi frá farsælu lífi fellur í þann flokk. Þar er þekking dygð og tilgangur mannlegs lífs felst í dygðugu lífi. Málverkið er frá fyrri hluta 17. aldar og á að vera táknmynd um dygðugt líf.
Næsta neikvæða svar byggir á síður háfleygum hugmyndum um þekkingu og visku sem dygð. Til eru þeir hugsuðir sem telja að hugmyndir um að fáfræði sé sæla standist ekki því þekking og skilningur haldi okkur frá afglöpum og mistökum sem hafa skaðleg áhrif á tilveru okkar. Slík viðhorf byggja á reynslurökum sem aftur vísa til afdrifa fólks sem rak sofandi að feigðarósi. Líklega hafa þeir sem halda þessu fram sitthvað til síns máls. Afglöp verða ekki síst vegna skorts á upplýsingum og þekkingu á aðstæðum. Dæmi um þetta er þegar fólk þekkir ekki til sögunnar og leyfir slæmum hlutum að eiga sér stað að nýju. Ef sæluríkt líf felst í að rata í sem fæstar ógöngur virðist margt til í þessu viðhorfi.
Þriðja tegund neikvæðra viðbragða við spurningunni byggist á að hafna forsendunni um að sæla sé yfirleitt mikilvægt markmið. Mögulega geti fávísar persónur upplifað sælutilfinningu en slík sæla sé ekki siðferðilega réttlætanleg. Það er skylda okkar að beita hyggjuvitinu eins og okkur er frekast unnt hvort sem það leiðir til hamingju eða ekki. Ef það leiðir til þess að við missum af þægilegum geðshræringum þá verði einfaldlega svo að vera. Það er blekking að fáfræði sé raunverulegur möguleiki fyrir okkur nema þá fyrir einhvers konar mistök eða skort á myndugleika. Manneskja geti aldrei, af frjálsum vilja, valið fáfræði. Fáfræði sé í raun afleiðing einhvers konar hlekkja sem áhrifafólk samfélagsins hefur komið á þessa einstaklinga, annað hvort með því að neita þeim um aðgang að þekkingu eða með hreinum blekkingum.
Hér að ofan hafa verið raktar ólíkar tegundir svara við spurningunni, bæði jákvæð og neikvæð. Það er mikilvægt að hafa í huga að jafnvel þótt margir flíki slíkum pælingum í kaldhæðni þá hlýtur einhvers konar sannleikskorn að liggja í svona hugmynd sem hefur flögrað um sögu mannsandans allt frá fornöld. Er mögulega eitthvað sem við getum lært af þessum ólíku svörum (einnig þeim jákvæðu)? Þau kunna að vera ólík og andstæð hvert öðru en mögulega má draga úr þeim stef sem saman svara spurningunni hvort fáfræði sé sæla.
Jákvæðu svörin öll segja okkur að ekki megi einfaldlega gera lítið úr fáfræði. Hún hefur einhvern tilgang sem felst meðal annars í því að ná almennilega tökum á upplýsingaflóðinu og koma þannig ró á hugann. Einnig má ekki gera lítið úr því að við þurfum ekki að vita allt og geta svarað öllu um hæl. Að vera alvitur má ekki vera markmið í sjálfu sér. Og það er allt í lagi að hafa val um hvenær og í hvaða aðstæðum við ætlum að mynda okkur skoðanir á upplýstan og gagnrýninn hátt. En um leið er eitthvað bogið að stefna að því að fáfræði sé viðvarandi hugarástand. Sælan sem kann að leiða af því er ekki líkleg til að endast og líklegra að í flestum aðstæðum leiði hún að lokum til afglapa og óhamingju. Verst er þó að festast vegna fáfræði í viðjum hugarfars sem aðrir hafa skapað fyrir þig – væntanlega til hagsbóta fyrir sjálfan sig.
Myndir: