Ég var að koma úr heimsókn þar sem upp kom umræðan um muninn á snákum og slöngum... Mér leið eins og fávita þegar ég hélt að þetta væri sami flokkur dýra og munurinn enginn, einungis orðið "slanga" óformlegara heiti á því sem er réttnefnt "snákur". Er ég fáfróður að þekkja ekki muninn eða eru hinir sem voru viðstaddir fáfróðir að halda því fram að munurinn felist í stærð dýranna? Getur verið að fólk sé að ruglast þar sem að snákar eins og "pythons" eru kallaðar kyrkiSLÖNGUR á íslensku? Sama með eiturSLÖNGUR...Í raun eru orðin snákur og slanga ekki flokkunarfræðileg hugtök heldur tvö mismunandi orð bæði notuð yfir fótalaus skriðdýr sem á ensku kallast snake og eru af undirættbálknum serpentes. Íslensk heiti á tegundum innan þessa undirættbálks taka gjarnan endinguna -snákur eða -slanga en í einhverjum tilfellum endinguna -ormur (til dæmis skröltormur eða höggormur (Vipera berus)) eða enga slíka endingu svo sem mömbur, nöðrur og hin risavaxna anakonda.
snákur nafnorð karlkyn, (lítil) slanga, stundum með eitrað bit slanga nafnorð kvenkyn, langt og mjótt skriðdýr, stundum eitraðMerking orðanna tveggja er því sú sama og annað er ekkert réttara en hitt. Skýringarnar gefa þó til kynna að kannski sé algengara að nota orðið snákur um tegundir sem eru minni vexti en það er ekki algilt. Dæmi um tegundir sem hafa snáka-endingu eru grassnákur (Natrix natrix) sem er önnur tveggja snáka/slöngu-tegunda sem lifir í Danmörku, Svíþjóð og víða í Evrópu og heslisnákur (Coronella austriaca) sem meðal annars lifir í Svíþjóð. Báðar þessar tegundir eru fremur litlar, yfirleitt vel undir einn metri á lengd. Raunar eru flestar þeirra um 2.900 tegunda sem tilheyra undirættbálknum serpentes um eða innan við metri og afar sjaldgæft að tegundir verði meira en fjórir metrar á lengd. Stærstu tegundir undirættbálksins eru svokallaðar kyrkislöngur. Í dýrafræðinni er reyndar ekki til sérstakur flokkunarhópur fyrir kyrkislöngur heldur vísar heitið til slangna sem kremja og kreista bráð sína til dauða frekar en að bíta hana og lama með eitri. Þessi dýr hafa gjarnan endinguna -slanga á íslensku, til dæmis bóa-slöngur og kóbraslöngur. Þær eru aldrei kallaðar kóbrasnákar en hin síðari ár hafa þær einnig verið kallaðar aðeins kóbrur. Heimildir og myndir:
- Óskar Ingimarsson. (1989). Ensk-latnesk-íslensk og latnesk-íslensk-ensk dýra og plöntuorðabók. Reykjavík, Örn og Örlygur.
- Íslensk nútímamálsorðabók. (Skoðað 04.03.2020).
- Mynd: Natrix natrix.png