Skriðdýr eru æði mismunandi að stærð, frá smáum eðlum eins og jaragua-dverggekkóanum (Jaragua Sphaero) sem vegur aðeins fáein grömm upp í stærsta skriðdýr jarðar saltvatnskrókódíllinn (Crocodylus porosus) sem vegur rúmt tonn. Langflest skriðdýr éta önnur dýr, hvort sem það eru spendýr, önnur hryggdýr eða smáir hryggleysingjar eins og skordýr. Sum skriðdýr eru þó jurtaætur eins og risalandskjaldbökur og eyjafrýnur Galapagoseyja. Erfitt er að fjalla um litarfar skriðdýra í fáeinum orðum en þó er eftirtektarvert að grænleitt litarfar er mjög ríkjandi meðal dýra þessa hóps. Skriðdýr finnast á alls kyns búsvæðum, í eyðimörkum, regnskógum, votlendi, stórborgum og meira að segja í sjó. Fjölmargar smáeðlur finnast í borgum víða í hitabeltinu og á heittempruðum svæðum. Saltvatnskrókódíllinn finnst í strandsjó í norðurhluta Ástralíu og í sundunum við eyjar Indónesíu og víðar. Aðrar tegundir krókódíla eru skriðdýr stórfljótanna. Eyjafrýnan étur sjóþörunga við strendur Galapagoseyja og sæskjaldbökur synda um úthöfin. Skriðdýr eru engu að síður mest áberandi á þurrum svæðum svo sem gresjum og eyðimörkum og öðrum hlýjum svæðum þar sem lítil úrkoma er, enda eru þær tegundir afar vel aðlagaðar að slíkum svæðum. Frekara lesefni á Vísindavefnum: Mynd:
Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hver eru helstu einkenni skriðdýra, til dæmis líkamsgerð, litur, fæða, búsvæði, afkvæmi og stærð?