Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stórgos, sem gengur undir heitinu Vatnaöldugos, varð á Veiðivatna- og Torfajökulssvæðinu 870 (eða þar um bil).[1] Það var aðallega gjóskugos með mikilli gjóskuframleiðslu og gjóskufalli um mestallt land, aðallega í nágrenni gosstöðvanna inni á hálendinu. Því fylgdi einnig smávægilegt hraunrennsli.
Ef til vill var þetta fyrsta eldgos sem landnámsmenn sáu. Að minnsta kosti varð þetta stórgos alveg um sama leyti og norrænir menn hófu hér landnám, og því líklegt að aðeins fáir landnámsmanna, ef einhverjir, hafi orðið varir við það. Þetta gæti því hafa verið merkilegur atburður í samfélagslegu tilliti. Hvernig brást landnámsþjóðin við þegar hún upplifði í fyrsta sinn slíkan náttúruviðburð, sem ekki var til í heimalöndunum? Um það er harla lítið vitað, enda hvergi frá því greint. Margt bendir þó til þess að landnámsmenn hafi ekki endilega skellt skuldinni af náttúruhamförum á guði sína, eins og tíðkaðist sunnar í álfunni. Í öðrum evrópskum fjölgyðissið, svo sem meðal Grikkja og Rómverja, voru ákveðnir guðir ábyrgir fyrir jarðeldum og jarðskjálftum og öðrum slíkum náttúruviðburðum. Og vissulega segir sagan að einhverjir hafi kennt goðunum um, er Kristnitökuhraunið rann. Engu að síður virðast landnámsmenn hafa tekið þessum náttúruviðburðum og þessu nýja sívirka landi af allmiklu raunsæi og æðruleysi.
Landnámslagið féll um svipað leyti og landnám hófst á Íslandi. Hér er þetta gjóskulag auðþekkt af neðri hluta úr ljósri, súrri gjósku (við fingurgóminn) og efri hluta úr basískri, ólífugrárri/grænni gjósku með kristöllum.
Meðal eldgosa var þetta gos ekki aðeins venjulegt stórgos, heldur einnig mjög flókið. Kvikan breytti um samsetningu meðan á gosinu stóð, og við það hefur hegðun gossins einnig breyst. Í hluta af gosinu kom upp basísk kvika sem ekki rann sem hraun á yfirborði eins og henni er annars eiginlegt, heldur varð sprengigos. Sprengivirknin stafaði af því að gosrásin skar afar vatnsgæfan grunnvatnsstraum, og olli það tætingu kvikunnar og miklu uppdrifi. Í öðrum hluta gossins kom upp súr kvika sem einnig myndaði gjósku, eins og henni er eðlilegt. Gjóskan barst hátt í loft upp og dreifðist víða, næstum því um allt land. Vestfjarðarkjálkinn varð þó útundan. Smá hraun af basískri og súrri samsetningu urðu einnig til í gosinu.
Áhrifa gossins hefur gætt um nær allt land, og gjóskufall varð í nálega öllum byggðum þess, en mismikið. Það hefur valdið umtalsverðum skemmdum á grónu landi. Þessi áhrif hafa líklega varað víða í nokkur ár. Þetta gjóskulag gengur undir nafninu landnámslagið vegna þess hvenær það féll og er nútímafólki mikilvægt viðmiðunarlag í íslenskum jarðvegi.
Tilvísun:
^ Guðrún Larsen, 1984. Recent volcanic history of the Veidivötn fissure swarm, Southern Iceland. An approach to volcanic risk assessment. Journal of Volcanology and Geothermal Research, 22, 33-58).
Páll Imsland og Páll Einarsson. „Hvað er þetta landnámslag sem jarðfræðingar og fornleifafræðingar tala stundum um?“ Vísindavefurinn, 14. desember 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76807.
Páll Imsland og Páll Einarsson. (2018, 14. desember). Hvað er þetta landnámslag sem jarðfræðingar og fornleifafræðingar tala stundum um? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76807
Páll Imsland og Páll Einarsson. „Hvað er þetta landnámslag sem jarðfræðingar og fornleifafræðingar tala stundum um?“ Vísindavefurinn. 14. des. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76807>.