Er hægt að mjólka hval? Eru einhverjir sem selja hvalamjólk?Áður en þessari spurningu er svarað er rétt að útskýra fyrst hvalaspenann. Eins og aðrar spendýramæður hafa hvalamæður spena. Speninn er að vísu ekki sýnilegur nema þegar hann er örvaður. Spenarnir eru tveir og staðsettir aftarlega á kviði, rétt framan við stirtlu og sporð. Hvor speni um sig er geymdur inni í rauf á kviðnum. Þegar kálfurinn gerir sig tilbúinn til að sjúga er líklegt að hann örvi spenann með því að ýta trjónunni á spenaraufina. Við þetta ýtist speninn væntanlega út um raufina. Ekki er vitað með vissu hvernig kálfurinn sýgur mjólkina en líklega rúllar kálfurinn tungunni umhverfis spenann og sýgur hann svo. Jafnframt er móðirin fær um að sprauta úr spenanum upp í kálfinn. Þetta er aðlögun að lífinu neðansjávar og minnkar líkur á að kálfurinn sjúgi upp í sig sjó og flýtir brjóstagjöfinni því kálfurinn verður að halda niðri í sér andanum á meðan. Það er því nokkuð ljóst að það væri afar krefjandi verkefni að mjólka hval en þó kannski mögulegt gegn því að hvalurinn væri mjög samstarfsfús. Afar ólíklegt að hægt sé að mjólka villt dýr í náttúrunni. Aftur á móti hafa höfrungar í haldi, til dæmis stökklar (Tursiops truncates), verið mjólkaðir í þágu vísinda. Þau kvendýr hafa vissulega verið vel þjálfuð og því samstarfsfús ólíkt því sem gerist í náttúrunni.

Hnúfubakur. Ekki er vitað með vissu hvernig kálfurinn sýgur mjólkina en líklega rúllar kálfurinn tungunni umhverfis spenann og sýgur hann svo. Jafnframt er móðirin fær um að sprauta úr spenanum og upp í kálfinn.

Þykkt hvalamjólkur er slík að hún minnir helst á tannkrem. Vísindafólk um miðbik 20. aldar sem bragðaði á mjólkinni lýsti henni sem afar feitri og með miklum lýsiskeim.
- Akers, R.M., 2016. Lactation and the mammary gland. John Wiley & Sons.
- Johnson, G., Frantzis, A., Johnson, C., Alexiadou, V., Ridgway, S. and Madsen, P.T., 2010. Evidence that sperm whale (Physeter macrocephalus) calves suckle through their mouth. Marine mammal science, 26(4), pp. 990-996.
- Lauer, B.H. and Baker, B.E., 1969. Whale milk. I. Fin whale (Balaenoptera physalus) and beluga whale (Delphinapterus leucas) milk: gross composition and fatty acid constitution. Canadian journal of zoology, 47(1), pp. 95-97.
- Oftedal, O.T., 1997. Lactation in whales and dolphins: evidence of divergence between baleen- and toothed-species. Journal of mammary gland biology and neoplasia, 2(3), pp. 205-230.
- Oftedal, O.T., 2000. Use of maternal reserves as a lactation strategy in large mammals. Proceedings of the Nutrition Society, 59(01), pp. 99-106.
- Ridgway, S., Kamolnick, T., Reddy, M., Curry, C. and Tarpley, R.J., 1995. Orphan-induced lactation in Tursiops and analysis of collected milk. Marine Mammal Science, 11(2), pp. 172-182.
- Humpback whale - Wikipedia. Myndrétthafi er U.S. National Oceanic and Atmospheric Administration. (Sótt 04.06.2017).
- Toothpaste - Simple English Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 31.05.2017).