Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er lýsi? Hvernig er það nýtt og hver er aðal uppspretta orkunnar í því?

Jón Ögmundsson

Lýsi er samheiti á fitu sem unnin er úr sjávardýrum. Til eru margar gerðir af lýsi og má til dæmis nefna þorskalýsi, loðnulýsi, síldarlýsi, túnfisklýsi, háfalýsi og sardínulýsi. Þessar tegundir eru allar unnar úr fiskum, ýmist heilum (t.d. loðnulýsi) eða úr einstökum líffærum (t.d. þorskalýsi úr þorskalifur). Meðan enn voru stundaðar hvalveiðar við Ísland var einnig framleitt lýsi úr hval. Sumar þjóðir framleiða lýsi úr selspiki.

Á Íslandi er langmest framleitt af loðnu- og síldarlýsi. Þessar tegundir eru aðallega notaðar til fóðurgerðar, en hinar tegundirnar að mestu til manneldis. Reyndar hefur lýsi verið notað til ýmissa hluta. Fyrr á öldum var það ljósmeti á Íslandi og af því er orðið lýsi dregið. Þá hefur lýsi verið notað við sútun á skinnum, hægt er að nota það sem eldsneyti fyrir vélar eða hráefni í málningu, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Lýsi er afar mismunandi að gerð. Lýsi úr fiskum er að mestu hrein fita, það er þríglýseríð. Það sem greinir milli lýsistegunda eru ólík hlutföll einstakra fitusýra, sem mynda þríglýseríðin. Þær fitusýrur sem virðast vera langmerkilegastar eru kallaðar DHA og EPA og eru í flokki omega-3 fitusýra. Þorskalýsi inniheldur um 12% af DHA og 9% af EPA. Sardínulýsi inniheldur 12% DHA og 18% EPA og túnfisklýsi inniheldur um 25% DHA og 6% EPA. Aðrar tegundir af fiskilýsi innihalda lægri hlutföll. Það sem gerir þessar fitusýrur eftirsóknarverðar er að þær eru okkur lífsnauðsynlegar. Líkaminn nær þó ekki að framleiða allt það magn sem hann þarfnast af þeim og þess vegna er nauðsynlegt að fá þær úr fæðunni.

Fitusýrurnar DHA og EPA hafa verið settar í orsakasamhengi við ýmsa sjúkdóma. Nú þykir nánast fullsannað að omega-3 fitusýrur draga úr líkum á hjartasjúkdómum. Rannsóknir eru í gangi víða um heim þar sem skoðuð eru áhrif DHA og/eða EPA á jafn ólíka sjúkdóma og liðagigt, þunglyndi, eyrnabólgu í börnum og elliglöp, og eru miklar vonir bundnar við þessar rannsóknir.

Nokkrar tegundir af lýsi eru verulega frábrugðnar því sem er lýst að framan. Þannig er lýsi úr háfi eða hákarli mjög auðugt af tvenns konar efnum, skvaleni og alkylglýserólum. Vísbendingar eru um að þessi efni geti haft þýðingu fyrir fólk, og er verið að rannsaka það. Skvalen hefur verið einangrað úr lýsinu og því umbreytt í efni sem er eftirsótt í ýmsar snyrtivörur.

Þorskalýsi var eftirsótt sem einhver besta uppspretta A- og D-vítamína, sem þekkt var á öndverðri síðustu öld. Það var um árabil einkum notað til þess að tryggja að almenningur fengi nægilegt magn af þessum vítamínum, og þó einkum D-vítamíni. Nú hefur þekking manna á vítamínbúskap leitt í ljós að nauðsynlegt er að draga úr A-vítamínneyslu og þess vegna er ekki æskilegt að taka mikið af lýsi sem er mjög ríkt af A-vítamíni.

Flestar lýsistegundir eru nánast hrein fita eins og nefnt hefur verið og eru þær þess vegna orkuríkar. Hins vegar er afar hæpið að dagleg neysla lýsis sé það mikil að hún hafi áhrif á orkubúskapinn. Ráðlagðir dagskammtar eru frá 10 grömmum (þorskalýsi) niður í nokkur grömm (omega-3 perlur) og þeir hafa því hverfandi áhrif á orkuna.

[Viðbót ritstjóra:] Að lokum má geta þess að lýsi er að miklu leyti úr fjölómettuðum fitusýrum sem svo eru kallaðar. Það er fljótandi við stofuhita svipað og til dæmis jurtaolía. Hins vegar er fita í landdýrum eins og sauðkindum og mönnum úr mettuðum fitusýrum og hún er sem kunnugt er storkin við venjulegan hita, hvað þá ef hitinn fer til dæmis niður undir frostmark eins og í sjónum á Íslandsmiðum. Ef fitan í þorskinum okkar væri mettuð gæti hann sennilega ekki hreyft sig í sjónum!

Mynd af Lýsi: IcelandHealth.com

Mynd af lýsisperlu: Life Extension

Höfundur

gæðastjóri hjá Lýsi

Útgáfudagur

19.9.2002

Spyrjandi

Birkir Kúld, f. 1984

Tilvísun

Jón Ögmundsson. „Hvað er lýsi? Hvernig er það nýtt og hver er aðal uppspretta orkunnar í því?“ Vísindavefurinn, 19. september 2002, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2725.

Jón Ögmundsson. (2002, 19. september). Hvað er lýsi? Hvernig er það nýtt og hver er aðal uppspretta orkunnar í því? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2725

Jón Ögmundsson. „Hvað er lýsi? Hvernig er það nýtt og hver er aðal uppspretta orkunnar í því?“ Vísindavefurinn. 19. sep. 2002. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2725>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er lýsi? Hvernig er það nýtt og hver er aðal uppspretta orkunnar í því?
Lýsi er samheiti á fitu sem unnin er úr sjávardýrum. Til eru margar gerðir af lýsi og má til dæmis nefna þorskalýsi, loðnulýsi, síldarlýsi, túnfisklýsi, háfalýsi og sardínulýsi. Þessar tegundir eru allar unnar úr fiskum, ýmist heilum (t.d. loðnulýsi) eða úr einstökum líffærum (t.d. þorskalýsi úr þorskalifur). Meðan enn voru stundaðar hvalveiðar við Ísland var einnig framleitt lýsi úr hval. Sumar þjóðir framleiða lýsi úr selspiki.

Á Íslandi er langmest framleitt af loðnu- og síldarlýsi. Þessar tegundir eru aðallega notaðar til fóðurgerðar, en hinar tegundirnar að mestu til manneldis. Reyndar hefur lýsi verið notað til ýmissa hluta. Fyrr á öldum var það ljósmeti á Íslandi og af því er orðið lýsi dregið. Þá hefur lýsi verið notað við sútun á skinnum, hægt er að nota það sem eldsneyti fyrir vélar eða hráefni í málningu, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Lýsi er afar mismunandi að gerð. Lýsi úr fiskum er að mestu hrein fita, það er þríglýseríð. Það sem greinir milli lýsistegunda eru ólík hlutföll einstakra fitusýra, sem mynda þríglýseríðin. Þær fitusýrur sem virðast vera langmerkilegastar eru kallaðar DHA og EPA og eru í flokki omega-3 fitusýra. Þorskalýsi inniheldur um 12% af DHA og 9% af EPA. Sardínulýsi inniheldur 12% DHA og 18% EPA og túnfisklýsi inniheldur um 25% DHA og 6% EPA. Aðrar tegundir af fiskilýsi innihalda lægri hlutföll. Það sem gerir þessar fitusýrur eftirsóknarverðar er að þær eru okkur lífsnauðsynlegar. Líkaminn nær þó ekki að framleiða allt það magn sem hann þarfnast af þeim og þess vegna er nauðsynlegt að fá þær úr fæðunni.

Fitusýrurnar DHA og EPA hafa verið settar í orsakasamhengi við ýmsa sjúkdóma. Nú þykir nánast fullsannað að omega-3 fitusýrur draga úr líkum á hjartasjúkdómum. Rannsóknir eru í gangi víða um heim þar sem skoðuð eru áhrif DHA og/eða EPA á jafn ólíka sjúkdóma og liðagigt, þunglyndi, eyrnabólgu í börnum og elliglöp, og eru miklar vonir bundnar við þessar rannsóknir.

Nokkrar tegundir af lýsi eru verulega frábrugðnar því sem er lýst að framan. Þannig er lýsi úr háfi eða hákarli mjög auðugt af tvenns konar efnum, skvaleni og alkylglýserólum. Vísbendingar eru um að þessi efni geti haft þýðingu fyrir fólk, og er verið að rannsaka það. Skvalen hefur verið einangrað úr lýsinu og því umbreytt í efni sem er eftirsótt í ýmsar snyrtivörur.

Þorskalýsi var eftirsótt sem einhver besta uppspretta A- og D-vítamína, sem þekkt var á öndverðri síðustu öld. Það var um árabil einkum notað til þess að tryggja að almenningur fengi nægilegt magn af þessum vítamínum, og þó einkum D-vítamíni. Nú hefur þekking manna á vítamínbúskap leitt í ljós að nauðsynlegt er að draga úr A-vítamínneyslu og þess vegna er ekki æskilegt að taka mikið af lýsi sem er mjög ríkt af A-vítamíni.

Flestar lýsistegundir eru nánast hrein fita eins og nefnt hefur verið og eru þær þess vegna orkuríkar. Hins vegar er afar hæpið að dagleg neysla lýsis sé það mikil að hún hafi áhrif á orkubúskapinn. Ráðlagðir dagskammtar eru frá 10 grömmum (þorskalýsi) niður í nokkur grömm (omega-3 perlur) og þeir hafa því hverfandi áhrif á orkuna.

[Viðbót ritstjóra:] Að lokum má geta þess að lýsi er að miklu leyti úr fjölómettuðum fitusýrum sem svo eru kallaðar. Það er fljótandi við stofuhita svipað og til dæmis jurtaolía. Hins vegar er fita í landdýrum eins og sauðkindum og mönnum úr mettuðum fitusýrum og hún er sem kunnugt er storkin við venjulegan hita, hvað þá ef hitinn fer til dæmis niður undir frostmark eins og í sjónum á Íslandsmiðum. Ef fitan í þorskinum okkar væri mettuð gæti hann sennilega ekki hreyft sig í sjónum!

Mynd af Lýsi: IcelandHealth.com

Mynd af lýsisperlu: Life Extension...