Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hraunfossar er heiti fallegra smáfossa sem renna undan Hallmundarhrauni út í Hvítá. Vatnið í fossunum er tært lindarvatn en jökulvatn er í Hvítá svo andstæður fossanna og Hvítár eru þarna miklar. Ofan við Hraunfossa eru litlir fossar eða flúðir í Hvítá, og kallast þær einu nafni Barnafoss. Þar fellur Hvítá fram af hrauninu og hefur hún hægt og rólega grafið sig inn í mjúka hraunbrúnina og myndað örlítið gljúfur. Við Barnafoss hafa löngum verið steinbogar yfir ána, en steinbogarnir myndast við gröft árinnar í gljúpu hrauninu. Gröfturinn er mestur í miklum flóðum en þá flæðir Hvítá yfir bakka sína og sjást þess greinileg merki umhverfis Barnafoss.
Á fyrri hluta 10. aldar varð mikið eldgos í gígum sem liggja við og undir jaðri Langjökuls. Úr þessum gígum rann Hallmundarhraun, stærsta nútímahraun Borgarfjarðar. Eldgosið hefur að öllum líkindum verið langvinnt, ef til vill staðið samfellt í nokkur ár og rann hraunstraumurinn um 50 km í vestur frá gígunum, norðan við Eiríksjökul og Strút, og allt að núverandi farvegi Hvítár við Hraunfossa. Ómögulegt er að segja til um farveg Hvítár áður en hraunið rann, en áin hefur að öllum líkindum leitað mjög fljótt í krikann utan við jaðar hraunsins eftir að það rann. Ofan við Hraunfossa er Hallmundarhraun úfið og illgreitt yfirferðar en að sama skapi gropið og mjúkt. Hvítá hefur því átt tiltölulega auðvelt með að grafa sig inn í hraunið við Barnafoss.
Hraunfossar er heiti fallegra smáfossa sem renna undan Hallmundarhrauni út í Hvítá. Vatnið í fossunum er tært lindarvatn en jökulvatn er í Hvítá svo andstæður fossanna og Hvítár eru þarna miklar.
Gröftur stórra vatnsfalla eins og Hvítár er mestur þegar stór flóð koma í ána. Í slíkum flóðum eykst framburður árinnar auk þess sem hún rennur hraðar heldur en alla jafna. Með auknum hraða vatnsins getur áin borið með sér stærri steina, sem rúlla þá eða skoppa eftir botni árinnar og grafa hana niður. Þar sem áin lendir á fyrirstöðu myndast viðvarandi iðuköst og grefur áin oft hringlaga holur í farveginum, svokallaða skessukatla. Ef áin nær þannig að grafa sig niður og undir bergið myndast steinbogar.
Fjölmargir steinbogar hafa án efa verið við Barnafoss í gegnum tíðina, en vegna rofs árinnar þá hrynja þeir flestir að lokum. Í þjóðsögum er þannig sagt frá því að manngengur steinbogi hafi verið á Hvítá fyrr á öldum en hann hafi verið felldur eftir að tvö börn féllu fram af honum ofan í ána og drukknuðu. Fram á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar mátti sjá tvo myndarlega steinboga á ánni fyrir neðan Barnafoss en þeir eru nú horfnir. Nú sést einn steinbogi rétt neðan við Barnafoss en hann er hins vegar algjörlega ófær.
Hraunfossarnir sjálfir myndast við það að grunnvatn streymir undan hrauninu. Vegna þess að Hallmundarhraun er nýtt og ferskt hraun, þá seytlar allt vatn sem fellur á það niður í gegnum hraunið og eru þar af leiðandi engar ár á yfirborði hraunsins. Undir gropnu hrauninu liggja hins vegar eldri og þéttari jarðlög og eru þau ekki jafnlek og hraunið sjálft. Úrkoma sem fellur á Hallmundarhraun rennur því tiltölulega grunnt undir hrauninu á þéttum jarðlögum. Þar sem Hvítá rennur utan í Hallmundarhrauninu neðan við Barnafoss hefur hún grafið sig langt niður fyrir hraunið og hin þéttu jarðlög undir því. Af þessum ástæðum streymir grunnvatnið fram undan hrauninu á löngum kafla og fellur í Hvítá í Hraunfossunum.
Þótt Hraunfossar séu einstakir má alveg gera ráð fyrir því að grunnvatnsstreymið undan hrauninu sé jafnmikið annars staðar. Vegna fyrrnefndra aðstæðna kemur það hins vegar aðeins fram við Hraunfossa. Víða annars staðar á landinu má þó sjá sambærileg fyrirbæri, þar sem grunnvatn streymir undan gljúpum hraunflákum. Má þar nefna ýmis lindasvæði á hálendinu svo sem Herðubreiðarlindir, en einnig lindasvæði við sjó og vötn eins og Straumsvík á Reykjanesi eða Vellankötlu við Þingvallavatn.
Ofan við Hraunfossa eru litlir fossar eða flúðir í Hvítá, og kallast þær einu nafni Barnafoss. Þar fellur Hvítá fram af hrauninu og hefur hún hægt og rólega grafið sig inn í mjúka hraunbrúnina og myndað örlítið gljúfur.
Af útsýnispalli við Hvítá sést vel yfir Hraunfossana og er hægt að greina bæði hvernig vatnið kemur undan hrauninu og hið þétta leirlag sem fossarnir renna fram af. Hvítá er þarna hátt í tuttugu sinnum vatnsmeiri en Hraunfossarnir en megnið af vatni árinnar rennur í djúpum ál meðfram fjærbakkanum og virðist áin því stundum vatnsminni en hún í raun er. Litlu ofar í ánni er komið að Barnafossi þar sem sjá má steinboga niðri við vatnsborðið. Sérstök athygli skal þó vakin á því að boginn er með öllu ófær og raunar hafa banaslys orðið þarna við ána, svo fara skal að öllu með mikilli gát. Ef gljúfrið er skoðað betur sést að hraunið hefur runnið þarna í nokkrum mismunandi lögum og myndað þykkan bunka af hraunum, sem þó eru öll komin úr sama gosinu.
Tilvalið er að ganga yfir Hvítá á göngubrúnni neðan við Barnafoss. Af brúnni sést vel hvernig Hvítá rennur í einum djúpum meginál en einnig sést hvernig áin rennur í jaðri Hallmundarhrauns þar sem ekkert hraun er þeim megin árinnar sem útsýnispallurinn er. Handan árinnar má svo sjá sérkennilegt fyrirbæri á árbakkanum rétt neðan við Barnafoss. Þar liðast fagurljósbrúnn berggangur eftir miðju hrauninu og kallast hann sérkennilega á við dökkt umhverfið. Þrátt fyrir fegurð fossanna í kring þá er gangurinn ekki síður merkilegur en þeir. Berggangar eins og þessi myndast ofan í jörðu sem aðfærsluæðar kviku í eldstöðvum. Með öðrum orðum, þá segir gangurinn okkur forna jarðsögu svæðisins.
Efst í Borgarfirði, nokkuð fyrir ofan Hraunfossa og Barnafoss var áður stór megineldstöð. Megineldstöðin er jafnan kennd við Húsafell og var hún virk fyrir um 2-3 milljónum ára. Ummerki Húsafellseldstöðvarinnar má enn sjá víða á svæðinu, svo sem í hinu ægifagra Selgili rétt austan við gamla Húsafellsbæinn. Ljósi gangurinn við Barnafoss er einnig hluti eldstöðvarinnar en ljósi liturinn bendir til þess að gangurinn sé úr líparíti.
Það má því segja að nútíminn og fortíðin mætist við Hraunfossa, þar sem leifar hinnar fornu Húsafellseldstöðvar liggja undir „glænýju“ Hallmundarhrauninu. Á milli myndunartíma þessara tveggja fyrirbæra liðu rúmar tvær milljónir ára, sem er þó nokkuð langur tími í íslenskri jarðsögu. Svona aðstæður eru þó alls ekki einsdæmi í jarðfræðinni heldur er þetta frekar algengt víðast hvar hérlendis sem og erlendis. Þar sem svona háttar til tala jarðfræðingar um mislægi. Mislægi vísar til þess þegar jarðlög leggjast ekki óslitið ofan á hvert annað heldur vantar eitt eða fleiri jarðlög inn í heildarstaflann. Jarðlögin sem vantar hafa þá á einhvern hátt horfið, til að mynda við jökulrof, og er það oft höfuðverkur fyrir jarðfræðinga að átta sig á því hvað gerðist. Víðast hvar er þó ekki auðvelt fyrir óvana að sjá mislægi í jarðlögum og er svæðið neðan við Barnafoss einstaklega hentugt til þess.
Heimildir:
Haukur Jóhannesson. 1980. Jarðlagaskipan og þróun rekbelta á Vesturlandi. Náttúrufræðingurinn 50 (1), 13-31.
Haukur Jóhannesson. 1989. Aldur Hallmundarhrauns í Borgarfirði. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 9.
Kristján Sæmundsson og Noll, H. 1974. K/Ar ages of rocks from Húsafell, Western Iceland, and the development of the Húsafell central volcano. Jökull 24, 40-58.
Sinton, J. Karl Grönvold og Kristján Sæmundsson. 2005. Postglacial eruptive history of the Western Volcanic Zone, Iceland. Geochemistry, Geophysics, Geosystems 6 (12).
Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.
Upphaflega spurningin hljóðaði svo og er henni hér svarað að hluta:
Hvaða efni eru í og kringum Barnafoss? Úr hvers konar hrauni er hraunið í kringum Barnafoss? Hversu mikið vatn rennur daglega um Barnafoss? Er hægt að drekka vatnið úr Barnafossi?
Snæbjörn Guðmundsson. „Hvað getið þið sagt mér um Hraunfossa og Barnafoss?“ Vísindavefurinn, 18. apríl 2017, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73809.
Snæbjörn Guðmundsson. (2017, 18. apríl). Hvað getið þið sagt mér um Hraunfossa og Barnafoss? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73809
Snæbjörn Guðmundsson. „Hvað getið þið sagt mér um Hraunfossa og Barnafoss?“ Vísindavefurinn. 18. apr. 2017. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73809>.