Hvert er fjölmennasta dýr jarðar eða hvaða tegund?Stutta svarið er að það er ekki vitað hvaða einstaka tegund telur flesta einstaklinga en það er væntanlega einhver smár hryggleysingi. Tölur um stofnstærðir eru alltaf mat vísindamanna því ógerlegt er að telja alla einstaklinga. Almenna reglan í vistfræði er sú að dýrum í hverri tegund fjölgar þeim mun neðar sem farið er í fæðukeðjuna. Að sama skapi eykst lífmassinn einnig neðar í keðjunni. Þegar kemur að fjölda einstaklinga af sömu tegund skipar maðurinn nokkra sérstöðu, sér í lagi þegar litið er til stórra lífvera. Mannkynið telur nú rúmlega 7 milljarða einstaklinga. Fáar spendýrategundir telja fleiri einstaklinga og engin spendýrategund af svipaðri líkamsstærð og maðurinn fyllir þennan fjölda. Maðurinn er einhvers konar topprándýr þótt hann sé alæta líkt og svín og frændur okkar af Pan-ættkvíslinni (bónóbóar og simpansar). Kjötneysla mannsins hefur skapað mjög mikið álag á fæðukeðjur og reyndar vistkerfi jarðar í heild sinni því til þess að fæða þennan mikla mannfjölda þarf að rækta dýr til matar. Vegna þessarar miklu ræktunar er nautgripastofn heimsins mjög stór og telur sennilega um 1-2 milljarða dýra. Sama má segja um svín, heimsstofninn er mjög stór vegna ræktunar. Raunar gildir það sama um önnur klaufdýr sem menn rækta, stofnar þeirra eru mun stærri en stofnar flestra villtra dýra. Fyrir landbúnaðarbyltingu fyrir um 10 þúsund árum má ætla að villtir stofnar klaufdýra hafi talið marga tugi milljóna einstaklinga. Í dag eru þau klaufdýr sem teljast til búfénaðar eða eru ræktuð af manninum um 99% allra klaufdýra jarðar. Af villtum klaufdýrum eru stærstu stofnarnir ýmsar tegundir antilópa, til dæmis blá-dúki (e. blue duiker, Philantomba monticola) en stofnstærð hans er talin um 7 milljónir einstaklinga og impalahirtir (Aepyceros melampus), en þeir eru taldir um 2 milljónir. Þótt stóru spendýrategundirnar nálgist manninn ekki í fjölda er ekki hægt að segja það sama um sum minni spendýr. Rottur (Rattus spp.) eru æðifjölskipaðar og telja sumir fjölda þeirra vera um ein rotta á móti hverjum manni og jafnvel fleiri. Út frá því má lauslega áætla að heimsstofn brúnrottunnar (Rattus norvegicus) sé um 7-9 milljarðar einstaklinga og telst stofninn sennilega vera einstaklingsríkasta tegund spendýra. Maðurinn á líka sinn þátt í því að hænsnfuglar (Gallus gallus) munu vera langstærsti stofn fugla enda ræktaðir í gríðarlegum mæli um allan heim. Lauslega er áætlað að hænsnfuglar heimsins séu um 24 milljarðar einstaklinga. Ef við snúum okkur næst að hafinu þá hafa sjávarlíffræðingar áætlað að fiskar í sjónum séu um 5 trilljón einstaklingar (5.000.000.000.000.000.000). Smáum fiskum hefur fjölgað samfara hnignun stærri ránfiska svo sem hákarla og túnfiska. Smávaxnar tegundir eins og síld og sardínur telja sjálfsagt hundruð milljarða einstaklinga. En það eru þó tegundir af ættkvíslinni Cyclothone innan ættar smárra fiska sem nefnast stirnir (e. bristlemouth) sem líklega slá allar aðrar tegundir hryggdýra út þegar kemur að stofnstærð. Talið er stirnir telji hundruð billjóna einstaklinga eða jafnvel trilljónir. Stirnir eru ekki mjög þekktir á Íslandi en þetta eru miðsævisfiskar sem finnast á 500 til 1500 metra dýpi. Fyrir ekki svo löngu var talið að miðsævið eða hið svokallaða mesopelagi-lag í hafinu væri afar fátækt af lífmassa og fjölda einstaklinga en rannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt að allt að 95% allra fiska í heimshöfunum halda til á þessu svæði, meðal annars áðurnefndir stirnir. Þetta þýðir að heildarlífmassi fisks í heimshöfunum var vanmetin um allt að 90%

Talið er að maurar skiptist í 10-15 þúsund tegundir og hver tegund telur gríðarlega marga einstaklinga.
- Lists of organisms by population - Wikipedia. (Skoðað 6. 6. 2017).
- Encyclopedia Smithsonian: Numbers of Insects. (Skoðað 6.6.2017).
- Along With Humans, Who Else Is In The 7 Billion Club?: The Two-Way : NPR. (Skoðað 6.6.2017).
- Large mesopelagic fishes biomass and trophic efficiency in the open ocean: Nature Communications. (Skoðað 6.6.2017).
- How Many Fish are in the Ocean? Many More Than Was Thought. (Skoðað 6.6.2017).
- Counting the World's Insects - How many insects are there on Earth? | HowStuffWorks. (Skoðað 6.6.2017).
- Ask a Scientist - American Museum of Natural History. (Skoðað 6.6.2017).
- Mynd af mannfjölda: Crowd | A large crowd, taken just after a Muse concert in Pa… | Flickr. Höfundur myndar: James Cridland. (Sótt 7. 6. 2017).
- Mynd af störum: Sort sol pdfnet.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Tommy Hansen. (Sótt 7. 6. 2017).
- Mynd af maurum: Free photo: Ants, Wood Ants, Hand, Risk - Free Image on Pixabay - 4239. Höfundur myndar: Hans Braxmeier. (Sótt 7.6.2017).