Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um sardínur?

Jón Már Halldórsson

Í bókinni Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson er sardínu lýst svona:
Þunnvaxinn fiskur og dálítið sívalur. Haus er í meðallagi, augu eru stór en kjaftur lítill og endastæður. Neðri skoltur teygist þó fram fyrir þann efri, þegar kjafturinn er opinn. Tálknalok eru geislagárótt. Bakuggi er á miðum bol, þó nær trjónu en sporði, en raufaruggi er aftar. Öftustu geislar raufarugga eru lengri en hinir. Sporður er stór og djúpsýldur. Kviðuggar eru undir bakugga. Eyruggar eru vel þroskaðir. Hreistur er mjög stórt og laust. Rák sést ekki. Oftast um 23-35 cm á lengd.
Sardínan er uppsjávarfiskur og lifir á innan við 50 metra dýpi. Sardínur sýna greinilega dægursveiflu, þær eru venjulega nálægt yfirborði sjávar á daginn en fara niður á 30-45 metra dýpi þegar skyggja tekur.

Líkt og gildir um flesta aðra fiska fer fæðuval sardínunnar mjög eftir aldri hennar. Ungar sardínur éta smásæjar sjávarlífverur svo sem plöntusvif, egg og lirfur sjávarhryggleysingja en fullorðnar sardínur lifa á ýmsum tegundum dýrasvifs sem halda til í efstu lögum sjávar.

Sardínan lifir að jafnaði ekki á íslensku hafsvæði þó hefur hún slæðst að minnsta kosti einu sinni í veiðarfæri íslenskra fiskiskipa. Það gerðist árið 1966 í Hraunsvík sunnan Reykjaness.

Heimkynni sardínunnar eru helst í Miðjarðarhafi, Svartahafi og í Atlantshafi meðfram ströndum norðvestur Afríku og allt austur í Norðursjó auk þess sem hún veiðist umhverfis Bretlandseyjar og Azoreyjar.

Kort sem sýnir útbreiðslusvæði sardínunnar.

Sardínan hefur lengi verið mikill nytjafiskur fyrir þjóðirnar við Miðjarðarhaf og mætti jafnvel kalla hana “síld Miðjarðarhafsins”. Sardínan er einmitt sömu ættar og okkar “silfur hafsins”, en hún tilheyrir síldaætt (Clupeidae). Nokkrar tegundir sardína eru þekktar í heimshöfunum og það er alls ekki víst að þær sardínur sem eru á boðstólnum fyrir íslenska neytendur séu hin “evrópska” eða eiginlega sardína (Sardina pilchardus). Margar tegundir sardína eru nýttar til manneldis svo sem Kyrrahafs-sardínan (Sardinops sagax), en heimsaflinn af henni hefur á undanförnum árum verið mun meiri en af hinni eiginlegu sardínu.

Sardína er aðallega veidd til manneldis og þá niðursoðin, reykt eða flutt fersk á fiskmarkaði víða um lönd. Hún er einnig notuð í beitu og olía úr henni er unnin frekar til iðnaðar svo sem við framleiðslu á málningu og á lími

Heimildir og mynd:
  • Gunnar Jónsson, Íslenskir fiskar, Fjölvaútgáfan, Reykjavík 1983.
  • Fishbase
  • Fao.org

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

31.7.2007

Spyrjandi

Guðrún Brjánsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um sardínur?“ Vísindavefurinn, 31. júlí 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6733.

Jón Már Halldórsson. (2007, 31. júlí). Hvað getið þið sagt mér um sardínur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6733

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um sardínur?“ Vísindavefurinn. 31. júl. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6733>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um sardínur?
Í bókinni Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson er sardínu lýst svona:

Þunnvaxinn fiskur og dálítið sívalur. Haus er í meðallagi, augu eru stór en kjaftur lítill og endastæður. Neðri skoltur teygist þó fram fyrir þann efri, þegar kjafturinn er opinn. Tálknalok eru geislagárótt. Bakuggi er á miðum bol, þó nær trjónu en sporði, en raufaruggi er aftar. Öftustu geislar raufarugga eru lengri en hinir. Sporður er stór og djúpsýldur. Kviðuggar eru undir bakugga. Eyruggar eru vel þroskaðir. Hreistur er mjög stórt og laust. Rák sést ekki. Oftast um 23-35 cm á lengd.
Sardínan er uppsjávarfiskur og lifir á innan við 50 metra dýpi. Sardínur sýna greinilega dægursveiflu, þær eru venjulega nálægt yfirborði sjávar á daginn en fara niður á 30-45 metra dýpi þegar skyggja tekur.

Líkt og gildir um flesta aðra fiska fer fæðuval sardínunnar mjög eftir aldri hennar. Ungar sardínur éta smásæjar sjávarlífverur svo sem plöntusvif, egg og lirfur sjávarhryggleysingja en fullorðnar sardínur lifa á ýmsum tegundum dýrasvifs sem halda til í efstu lögum sjávar.

Sardínan lifir að jafnaði ekki á íslensku hafsvæði þó hefur hún slæðst að minnsta kosti einu sinni í veiðarfæri íslenskra fiskiskipa. Það gerðist árið 1966 í Hraunsvík sunnan Reykjaness.

Heimkynni sardínunnar eru helst í Miðjarðarhafi, Svartahafi og í Atlantshafi meðfram ströndum norðvestur Afríku og allt austur í Norðursjó auk þess sem hún veiðist umhverfis Bretlandseyjar og Azoreyjar.

Kort sem sýnir útbreiðslusvæði sardínunnar.

Sardínan hefur lengi verið mikill nytjafiskur fyrir þjóðirnar við Miðjarðarhaf og mætti jafnvel kalla hana “síld Miðjarðarhafsins”. Sardínan er einmitt sömu ættar og okkar “silfur hafsins”, en hún tilheyrir síldaætt (Clupeidae). Nokkrar tegundir sardína eru þekktar í heimshöfunum og það er alls ekki víst að þær sardínur sem eru á boðstólnum fyrir íslenska neytendur séu hin “evrópska” eða eiginlega sardína (Sardina pilchardus). Margar tegundir sardína eru nýttar til manneldis svo sem Kyrrahafs-sardínan (Sardinops sagax), en heimsaflinn af henni hefur á undanförnum árum verið mun meiri en af hinni eiginlegu sardínu.

Sardína er aðallega veidd til manneldis og þá niðursoðin, reykt eða flutt fersk á fiskmarkaði víða um lönd. Hún er einnig notuð í beitu og olía úr henni er unnin frekar til iðnaðar svo sem við framleiðslu á málningu og á lími

Heimildir og mynd:
  • Gunnar Jónsson, Íslenskir fiskar, Fjölvaútgáfan, Reykjavík 1983.
  • Fishbase
  • Fao.org

...