Snæfellsjökull er hluti eldstöðvaþyrpingar sem nær frá Mælifelli í Staðarsveit út á Öndverðarnes. Eldvirkni í þessari þyrpingu má rekja rúmlega 700.000 ár aftur í tímann en hér skal ekki fullyrt um hvort eldkeilan Snæfellsjökull hafi byrjað að myndast nákvæmlega þá. Vitað er að Snæfellsjökull hefur gosið alloft á nútíma (síðustu 10.000 ár) en ekki alveg víst hversu oft. Að minnst kosti 20 hraun sem runnu úr fjallinu sjálfu eða rótum þess hafa verið aðgreind. Auk þess hafa þrjú meiriháttar þeytigos orðið á nútíma, fyrir 8-10.000 árum, fyrir um 3900 árum og hið síðasta fyrir um 1750 árum. Þó Snæfellsjökull hafi ekki gosið eftir að menn settust að á Íslandi eru allar líkur taldar á því að þar eigi eftir að gjósa aftur. Hvenær það verður veit þó enginn. Nánar er fjallað um þetta í svari Páls Einarssonar við spurningunni Hvað eru miklar líkur á því að Snæfellsjökull gjósi? Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvaða bæir eru í hættu ef Snæfellsjökull gýs? eftir Ármann Höskuldsson
- Af hverju var Snæfellsjökull gerður að þjóðgarði? eftir Guðbjörgu Gunnarsdóttur
- Af hverju eru sum eldfjöll á Íslandi virk en önnur ekki? eftir Ármann Höskuldsson
- Hverjar eru helstu gerðir eldstöðva? eftir EDS
- Haukur Jóhannesson. 1982. Yfirlit um jarðfræði Snæfellsness. Árbók 1982. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.
- Þorleifur Einarsson. 1991. Myndun og mótun lands. Reykjavík: Mál og menning.
- Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. Sótt 5. 3. 2008.
Hér er einnig svarað spurningunni:
- Hvenær gaus síðast í eldstöðvum yst á Snæfellsnesi? (Torfi Hjartarson)
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.