Svarið við þessari spurningu er einfalt ef miðað er við orðanna hljóðan: Það eru næstum 100% líkur á því að Snæfellsjökull gjósi. Megineldstöðin Snæfellsjökull ber öll merki þess að vera virk. Hún hefur gosið nokkrum sinnum á síðustu 10.000 árum og er ein af um það bil 30 virkum megineldstöðvum á Íslandi. Æviskeið hverrar þeirra er um milljón ár. Tímabil á milli gosa í virkri eldstöð geta hins vegar verið mjög mislöng. Stundum líða vikur eða mánuðir milli gosa en stundum geta slík tímabil verið mörg þúsund ár. Það er fremur sjaldgæft að eldstöðvar gjósi með reglulegu millibili eins og við höfum orðið vitni að með Heklu á síðustu áratugum. Í svarinu hér á undan er ekki fólgin mikil spá. Spádómsgildi svarsins er álíka og ef veðurfræðingur segði að það verði veður á morgun. Það þætti ekki merkileg veðurspá. Til þess að teljast vísindaleg spá um framtíðina þurfa að felast í henni upplýsing um eðli atburðarins sem spáð er, til dæmis hversu stórt eldgosið verður, og umsögn um tímasetningu hans. Til þess að unnt sé að gera eldvirknispá um tiltekna eldstöð þurfa að liggja fyrir viðamiklar rannsóknir á sögu eldstöðvarinnar og núverandi ástandi hennar. Hvorugt er vel þekkt fyrir Snæfellsjökul. Það er því örugglega nokkuð langt í land með að hægt verði að gefa svör við áhugaverðum spurningum, eins og „hve miklar líkur er á að á næstu hundrað árum verði svo stórt gos í Snæfellsjökli að nærliggjandi byggðum stafi hætta af?“ Miðað við reynslu af öðrum eldstöðvum á Íslandi má telja næstum víst að gosvirkni í Snæfellsjökli muni gera boð á undan sér sem hægt verði að mæla. Líklegur undanfari gosvirkni er vaxandi skjálftavirkni í eldstöðinni og næsta nágrenni. Síðan er líklegt að mælanleg þensla verði í fjallinu þegar kvika tekur að ryðja sér leið til yfirborðs. Ennfremur verður að telja líklegt að slíkar breytingar fyndust í núverandi eftirlitskerfum ef þær ættu sér stað núna. Ef tryggja á að forboðar gosvirkni fari ekki fram hjá eftirlitskerfunum þyrfti þó að styrkja þau nokkuð. Það mundi til dæmis auka öryggið verulega ef skjálftamælir væri starfræktur á utanverðu Snæfellsnesi og ef mælt væri net landmælingapunkta umhverfis eldstöðina til að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum. Um núverandi ástand eldstöðvarinnar er það helst að segja, að aldrei hefur mælst jarðskjálfti með upptök í nágrenni hennar. Hún hefur því sofið vært á síðustu áratugum. Enginn getur þó fullyrt neitt um það hversu lengi sá svefn muni standa. Afstaða eldstöðvarinnar til byggðar á Snæfellsnesi og við Faxaflóa ásamt þeim vísbendingum sem þekktar eru um fyrri virkni í eldstöðinni gefa þó tilefni til að taka því með fullri alvöru ef vart verður vaxandi ókyrrðar á þessu svæði.
Mynd: University of Wisconsin-Madison - Vefsetur um ljóð Jónasar Hallgrímssonar (á ensku)