Fjölbreytileiki jarðmyndana er óvíða jafn mikill og á Snæfellsnesi. Snæfellsjökull er kjarni eldvirkninnar í þjóðgarðinum en verndargildi þjóðgarðsins felst einkum í mörgum og fjölbreyttum gosmyndunum. Snæfellsjökull skipar auk þess sérstakan sess í hugum fólks enda kraftur Jökulsins margrómaður. Sérstaða þjóðgarðsins felst meðal annars í nálægð við sjóinn og afar fjölbreyttri strandlengju en þjóðgarðurinn er sá fyrsti hér á landi sem nær í sjó fram. Samspil manns og umhverfis er áberandi því meðfram ströndinni má víða sjá merkar menningarminjar tengdar búsetu og sjósókn frá tímum árabátaútgerðar og vitna þær um lífsbaráttu genginna kynslóða. Hraunin á svæðinu eru gljúp svo mjög lítið vatn er á yfirborði. Þrátt fyrir það þekur mosi og lággróður landið milli fjalls og fjöru og víða er blómskrúð og lágvaxnar trjáplöntur í hraungjótum. Sjófuglar eru í björgum þjóðgarðsins og söng mófugla má heyra víða. Ef heppnin er með má rekast á ref á ferli eða sjá hval undan ströndinni. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull heyrir undir Umhverfisstofnun (UST) sem tilheyrir Umhverfisráðuneyti. Umhverfisstofnun fer með stjórn þjóðgarðsins en henni til ráðgjafar starfar ráðgjafarnefnd með fulltrúum Snæfellsbæjar, Fornleifaverndar ríkisins, Ferðamálasamtaka Snæfellsness og Umhverfisstofnunar. Þjóðgarðsvörður sér um daglegan rekstur þjóðgarðsins en auk hans er heilsársstöðugildi sérfræðings við þjóðgarðinn. Á sumrin starfa landverðir í þjóðgarðinum. Þeir sjá um daglegan rekstur gestastofu á Hellnum, sumardagskrá, viðhald og eftirlit. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 28. júní 2001 skv. reglugerð nr. 568/2001. Friðlýsing Snæfellsjökuls og vestasta hluta Snæfellsness á sér nokkuð langan aðdraganda. Fyrstu opinberu hugmyndir um friðun svæðisins má rekja til Eysteins Jónssonar ráðherra og formanns Náttúruverndarráðs 30 árum fyrir stofnun þjóðgarðsins. Á Náttúruverndarþingi árið 1972 var ályktað um stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi. Náttúruverndarráð skoðaði svæðið sumarið 1974 og árið 1977 var lögð fram tillaga að friðlandi undir Jökli. Verulegur skriður komst á málið árið 1994 þegar þáverandi umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, skipaði undirbúningsnefnd til að vinna að friðlýsingu svæðisins. Formaður þeirrar nefndar var Sturla Böðvarsson núverandi samgönguráðherra. Nefndin skilaði lokaskýrslu árið 1997. Sú skýrsla er grunnur að þeirri vinnu sem fram fór í kjölfarið. Árið 2000 var síðan ákveðið að stofna þjóðgarðinn ári síðar. Um miðjan maí það ár skipaði Siv Friðleifsdóttir þáverandi umhverfisráðherra fimm manna starfshóp til að annast undirbúning að stofnun hans. Formaður þeirrar nefndar var Stefán Jóhann Sigurðsson. Nefndin skilaði lokaskýrslu í júní það ár og stofndagur þjóðgarðsins var, eins og fyrr segir, þann 28. júní árið 2001. Á Vísindavefnum er að finna fleiri áhugaverð svör um Snæfellsnes, til dæmis:
- Hversu stór hluti Snæfellsness er þakinn gróðri? Hvers konar gróður vex þar helst? eftir Hörð Kristinsson
- Hvað eru miklar líkur á því að Snæfellsjökull gjósi? eftir Pál Einarsson
- Hvaða bæir eru í hættu ef Snæfellsjökull gýs? eftir Ármann Höskuldsson