Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um dýralíf í Íran?

Jón Már Halldórsson

Þeir sem eru lítt kunnugir Íran halda ef til vill að þar séu aðallega sólþurrkaðar gresjur og eyðimerkur og dýralíf því fábreytt. Þetta er ekki alls kostar rétt því í landinu er að finna nokkuð stóra og merkilega skóga sem fóstra fjölskrúðugu fánu og eins geta gróðursnauð svæði alið af sér fjölbreytt dýralíf.

Talið er að í Íran séu um 190 spendýrategundir, yfir 60 tegundir skrið- og froskdýra og þar verpi hátt í 500 fuglategundir. Það er því ljóst að í stuttu svari er ómögulegt að gera dýralífi landsins tæmandi skil og því látið nægja að stikla á stóru og taka nokkur dæmi.

Nyrst í Íran eru hinir víðáttumiklu Kaspían-skógar eða Hyrcanian-skógarnir, en hyrcanian þýðir úlfa-land á farsi. Þessir skógar eru í bland greni- og laufskógar og teygja sig norður til Aserbaísjan. Stærð skóganna er nú um 33 þúsund ferkílómetrar. Hyrcanian-skóglendið var sennilega síðasta vígi kaspía-tígrisdýrsins (Panthera tigris virgata) sem lifði á svæðinu umhverfis Kaspíahafið og austur um Mið-Asíu en það dó út seint á 6. áratug síðustu aldar.

Af öðrum dýrum í þessum skógum má nefna evrasísku gaupuna (Lynx lynx), úlfa (Canis lupus), merði (Meles meles), birni (Ursus arctos), villisvín (Sus scrofa) og skógarketti (Felis chaus). Þá má finna kákasus-hlébarða (Panthera pardus ciscaucasica, nefnast einnig Panthera pardus saxicolor) á þessu svæði en það er afar sjaldgæf deilitegund. Þrátt fyrir alfriðun skjóta veiðiþjófar enn um fáeina tugi af henni ár hvert. Heildarstofninn í landinu öllu er nú á bilinu 550 til 850 dýr sem er um 65% af alheimsstofninum. Skógarnir eru einnig mikilvægt svæði fyrir farfugla á leið til varpstöðva norður í Rússlandi og aftur á leið til vetrastöðva suður í Afríku.

Kákasus-hlébarði eða Persa-hlébarðinn (Panthera pardus ciscaucasica, einnig kallaður Panthera pardus saxicolor).

Íran er líklega síðasta vígi asíska blettatígra (Acinonyx jubatus venaticus) sem áður mátti finna víða í þessum heimshluta. Talið er að um 400 asískir blettatígrar hafi verið í Íran á fyrri hluta 20. aldar en upp úr seinni heimsstyrjöld fækkaði þeim verulega. Árið 1956 friðuðu írönsk stjórnvöld gasellur (Gazella subgutturosa) sem eru ein helsta bráð blettatígra og síðan var blettatígurinn friðaður árið 1959. Stofninn braggaðist aðeins við þessar aðgerðir og undir lok 8. áratugarins taldi hann líklega um 200-300 dýr. Í kjölfar byltingarinnar í Íran árið 1979 og þess lagaleysis sem ríkti víða um landið varð hins vegar hrun í villtum dýrastofnum þegar menn fóru um eyðimerkur á pallbílum og mótorhjólum með vélbyssur og slátruðu villtum dýrum. Stofn gasella varð sérstaklega illa úti í þessum stjórnlausu veiðum með þeim afleiðingum að blettatígrarnir sultu og þeir sem eftir lifðu þurftu að aðlaga sig að nýrri bráð á þeim afskekktu svæðum í landinu þar sem smáir og aðskildir stofnar finnast nú. Talið er að nú séu í mesta lagi um 60 dýr. Þau lifa á svæðum við Dasht-e-Kavir-eyðimerkursvæðið.

Íran er síðasta vígi asíska blettatígursins (Acinonyx jubatus venaticus) sem er í mikilli útrýmingarhættu.

Í Íran lifa tvær tegundir bjarndýra, asíski svartbjörninn (Ursus thibetanus) sem finnst aðallega í suðausturhluta landsins og skógarbjörninn (Ursus arctos). Útbreiðsla skógarbjarnarins einskorðast við fjalllendi í norður og vesturhluta landsins, aðallega í Alborz- og Zagors-fjöllum. Talið er að fjöldi bjarna í Alborz-fjalllendinu sé allt að 1.000 dýr. Ekki eru til öruggar tölur um heildarstofnstærð bjarna í Íran en sennilega er fjöldinn á bilinu 3-4.000 dýr.

Af grasbítum má fyrst nefna persneska dádýrið (Dama dama mesopotamica). Áður fyrr var þetta hjartardýr útbreitt um stóran hluta Norður-Afríku, stóran hluta Mið-Austurlanda og til vesturhluta Íran en gegndarlaus ofveiði leiddi til þess deilitegundin var talin útdauð á fimmta áratug síðustu aldar. Árið 1956 fannst hins vegar smár stofn, um 25 dýr, í þéttum skógum í Íran, nálægt landamærum við Írak. Stofninn hefur aðeins rétt úr kútnum en er samt sem áður afar smár og viðkvæmur en ekki er vitað með vissu hversu mörg dýrin eru núna. Nokkrir aðrir stórir grasbítar tilheyra fánu landsins, svo sem villisvín, krónhjörtur og gasellutegund sem nefnist chinkara (Dama bennetti), sem er mikilvæg bráð fyrir úlfa og blettatígra. Í fjalllendi Norður- og Austur-Írans lifir villigeitfé (Capra aegagrus turcmenica).

Persneska dádýrið (Dama dama mesopotamica).

Áður fyrr var asíska ljónið (Panthera leo persica) hluti af fánu Írans en það mun hafa horfið með öllu þar í landi árið 1942 og finnst nú aðeins á afar takmörkuðu svæði í vesturhluta Indlands. Í fornöld lifðu svokallaðir sýrlenskir fílar (Elephas maximus asurus) á því svæði sem nú er Íran. Þetta var sú deilitegund asíska fílsins sem teygði útbreiðslu sína vestast eða alla leið að botni Miðjarðarhafs, en þeir eru taldir hafa dáið út í kringum árið 100 f.Kr. Þessir fílar voru stórvaxnir og af beinagrindum að dæma gátu tarfarnir orðið allt að 3,5 metrar á hæð við herðakamb. Sagt er að herfílar Hannibals hafi verið af þessari deilitegund. Fílarnir voru kallaðir surus, sem vísar til Sýrlands. Þetta er mjög sennilegt því að á dögum Karþagó voru norður-afrískir fílar horfnir fyrir löngu.

Það kemur sjálfsagt mörgum á óvart að krókódílar fyrirfinnast í Íran. Það eru svokallaðir fenjakrókódílar (Crocodylus palustris) sem lifa á votlendissvæði í suðausturhluta landsins, nálægt landamærunum við Pakistan. Útbreiðsla fenjakrókódíla nær hvergi lengra í vestur.

Íranskir fenjakrókódílar (Crocodylus palustris).

Talið er að um 470 tegundir fugla verpi í Íran auk þess sem um 370 fuglategundir hafa viðdvöl í landinu í skamman tíma, það er svokallaðir umferðarfuglar. Ein fuglategund er einlend (e. endemic) en það er tegund sem á ensku nefnist 'iranian ground jay' (Podoces pleske). Flestar fuglategundir landsins teljast til landfugla eða þurrlendisfugla eða 312 tegundir. Innan þessa hóps eru meðal annars ránfuglar til dæmis haukar, ernir, nokkrar tegundir hröfnunga og nokkrar tegundir fálka. Vatna- og sjófuglategundir eru um 160. Sennilega verpa um 10 fuglategundir í Íran sem einnig verpa hér á Íslandi, þannig að þessi fjarlægu lönd eiga sameiginlegar varpfuglategundir.

Dýralíf Írans er afar fjölskrúðugt þrátt fyrir að árþúsunda löng og stormasöm menningarsaga landsins með ótal styrjöldum og byltingu hafi tekið sinn toll. Þarlend stjórnvöld og þjóðin sem slík eru þó að vakna til vitundar og reyna að endurreisa laskaða stofna dýra, með því að vernda svæði og stofna þjóðgarða. Fyrsti þjóðgarðurinn var stofnaður árið 1976. Hann nefnist Golestan-garðurinn. Þar er að finna yfir 90 tegundir spendýra sem er meira en helmingur allra spendýrategunda sem lifa í landinu. Golestan-þjóðgarðurinn er einn af 50 náttúrustöðum sem hafa svokallaða UNESCO-vottun.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

14.10.2015

Síðast uppfært

13.11.2018

Spyrjandi

Halldór Kristjánsson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um dýralíf í Íran?“ Vísindavefurinn, 14. október 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68473.

Jón Már Halldórsson. (2015, 14. október). Hvað getið þið sagt mér um dýralíf í Íran? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68473

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um dýralíf í Íran?“ Vísindavefurinn. 14. okt. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68473>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um dýralíf í Íran?
Þeir sem eru lítt kunnugir Íran halda ef til vill að þar séu aðallega sólþurrkaðar gresjur og eyðimerkur og dýralíf því fábreytt. Þetta er ekki alls kostar rétt því í landinu er að finna nokkuð stóra og merkilega skóga sem fóstra fjölskrúðugu fánu og eins geta gróðursnauð svæði alið af sér fjölbreytt dýralíf.

Talið er að í Íran séu um 190 spendýrategundir, yfir 60 tegundir skrið- og froskdýra og þar verpi hátt í 500 fuglategundir. Það er því ljóst að í stuttu svari er ómögulegt að gera dýralífi landsins tæmandi skil og því látið nægja að stikla á stóru og taka nokkur dæmi.

Nyrst í Íran eru hinir víðáttumiklu Kaspían-skógar eða Hyrcanian-skógarnir, en hyrcanian þýðir úlfa-land á farsi. Þessir skógar eru í bland greni- og laufskógar og teygja sig norður til Aserbaísjan. Stærð skóganna er nú um 33 þúsund ferkílómetrar. Hyrcanian-skóglendið var sennilega síðasta vígi kaspía-tígrisdýrsins (Panthera tigris virgata) sem lifði á svæðinu umhverfis Kaspíahafið og austur um Mið-Asíu en það dó út seint á 6. áratug síðustu aldar.

Af öðrum dýrum í þessum skógum má nefna evrasísku gaupuna (Lynx lynx), úlfa (Canis lupus), merði (Meles meles), birni (Ursus arctos), villisvín (Sus scrofa) og skógarketti (Felis chaus). Þá má finna kákasus-hlébarða (Panthera pardus ciscaucasica, nefnast einnig Panthera pardus saxicolor) á þessu svæði en það er afar sjaldgæf deilitegund. Þrátt fyrir alfriðun skjóta veiðiþjófar enn um fáeina tugi af henni ár hvert. Heildarstofninn í landinu öllu er nú á bilinu 550 til 850 dýr sem er um 65% af alheimsstofninum. Skógarnir eru einnig mikilvægt svæði fyrir farfugla á leið til varpstöðva norður í Rússlandi og aftur á leið til vetrastöðva suður í Afríku.

Kákasus-hlébarði eða Persa-hlébarðinn (Panthera pardus ciscaucasica, einnig kallaður Panthera pardus saxicolor).

Íran er líklega síðasta vígi asíska blettatígra (Acinonyx jubatus venaticus) sem áður mátti finna víða í þessum heimshluta. Talið er að um 400 asískir blettatígrar hafi verið í Íran á fyrri hluta 20. aldar en upp úr seinni heimsstyrjöld fækkaði þeim verulega. Árið 1956 friðuðu írönsk stjórnvöld gasellur (Gazella subgutturosa) sem eru ein helsta bráð blettatígra og síðan var blettatígurinn friðaður árið 1959. Stofninn braggaðist aðeins við þessar aðgerðir og undir lok 8. áratugarins taldi hann líklega um 200-300 dýr. Í kjölfar byltingarinnar í Íran árið 1979 og þess lagaleysis sem ríkti víða um landið varð hins vegar hrun í villtum dýrastofnum þegar menn fóru um eyðimerkur á pallbílum og mótorhjólum með vélbyssur og slátruðu villtum dýrum. Stofn gasella varð sérstaklega illa úti í þessum stjórnlausu veiðum með þeim afleiðingum að blettatígrarnir sultu og þeir sem eftir lifðu þurftu að aðlaga sig að nýrri bráð á þeim afskekktu svæðum í landinu þar sem smáir og aðskildir stofnar finnast nú. Talið er að nú séu í mesta lagi um 60 dýr. Þau lifa á svæðum við Dasht-e-Kavir-eyðimerkursvæðið.

Íran er síðasta vígi asíska blettatígursins (Acinonyx jubatus venaticus) sem er í mikilli útrýmingarhættu.

Í Íran lifa tvær tegundir bjarndýra, asíski svartbjörninn (Ursus thibetanus) sem finnst aðallega í suðausturhluta landsins og skógarbjörninn (Ursus arctos). Útbreiðsla skógarbjarnarins einskorðast við fjalllendi í norður og vesturhluta landsins, aðallega í Alborz- og Zagors-fjöllum. Talið er að fjöldi bjarna í Alborz-fjalllendinu sé allt að 1.000 dýr. Ekki eru til öruggar tölur um heildarstofnstærð bjarna í Íran en sennilega er fjöldinn á bilinu 3-4.000 dýr.

Af grasbítum má fyrst nefna persneska dádýrið (Dama dama mesopotamica). Áður fyrr var þetta hjartardýr útbreitt um stóran hluta Norður-Afríku, stóran hluta Mið-Austurlanda og til vesturhluta Íran en gegndarlaus ofveiði leiddi til þess deilitegundin var talin útdauð á fimmta áratug síðustu aldar. Árið 1956 fannst hins vegar smár stofn, um 25 dýr, í þéttum skógum í Íran, nálægt landamærum við Írak. Stofninn hefur aðeins rétt úr kútnum en er samt sem áður afar smár og viðkvæmur en ekki er vitað með vissu hversu mörg dýrin eru núna. Nokkrir aðrir stórir grasbítar tilheyra fánu landsins, svo sem villisvín, krónhjörtur og gasellutegund sem nefnist chinkara (Dama bennetti), sem er mikilvæg bráð fyrir úlfa og blettatígra. Í fjalllendi Norður- og Austur-Írans lifir villigeitfé (Capra aegagrus turcmenica).

Persneska dádýrið (Dama dama mesopotamica).

Áður fyrr var asíska ljónið (Panthera leo persica) hluti af fánu Írans en það mun hafa horfið með öllu þar í landi árið 1942 og finnst nú aðeins á afar takmörkuðu svæði í vesturhluta Indlands. Í fornöld lifðu svokallaðir sýrlenskir fílar (Elephas maximus asurus) á því svæði sem nú er Íran. Þetta var sú deilitegund asíska fílsins sem teygði útbreiðslu sína vestast eða alla leið að botni Miðjarðarhafs, en þeir eru taldir hafa dáið út í kringum árið 100 f.Kr. Þessir fílar voru stórvaxnir og af beinagrindum að dæma gátu tarfarnir orðið allt að 3,5 metrar á hæð við herðakamb. Sagt er að herfílar Hannibals hafi verið af þessari deilitegund. Fílarnir voru kallaðir surus, sem vísar til Sýrlands. Þetta er mjög sennilegt því að á dögum Karþagó voru norður-afrískir fílar horfnir fyrir löngu.

Það kemur sjálfsagt mörgum á óvart að krókódílar fyrirfinnast í Íran. Það eru svokallaðir fenjakrókódílar (Crocodylus palustris) sem lifa á votlendissvæði í suðausturhluta landsins, nálægt landamærunum við Pakistan. Útbreiðsla fenjakrókódíla nær hvergi lengra í vestur.

Íranskir fenjakrókódílar (Crocodylus palustris).

Talið er að um 470 tegundir fugla verpi í Íran auk þess sem um 370 fuglategundir hafa viðdvöl í landinu í skamman tíma, það er svokallaðir umferðarfuglar. Ein fuglategund er einlend (e. endemic) en það er tegund sem á ensku nefnist 'iranian ground jay' (Podoces pleske). Flestar fuglategundir landsins teljast til landfugla eða þurrlendisfugla eða 312 tegundir. Innan þessa hóps eru meðal annars ránfuglar til dæmis haukar, ernir, nokkrar tegundir hröfnunga og nokkrar tegundir fálka. Vatna- og sjófuglategundir eru um 160. Sennilega verpa um 10 fuglategundir í Íran sem einnig verpa hér á Íslandi, þannig að þessi fjarlægu lönd eiga sameiginlegar varpfuglategundir.

Dýralíf Írans er afar fjölskrúðugt þrátt fyrir að árþúsunda löng og stormasöm menningarsaga landsins með ótal styrjöldum og byltingu hafi tekið sinn toll. Þarlend stjórnvöld og þjóðin sem slík eru þó að vakna til vitundar og reyna að endurreisa laskaða stofna dýra, með því að vernda svæði og stofna þjóðgarða. Fyrsti þjóðgarðurinn var stofnaður árið 1976. Hann nefnist Golestan-garðurinn. Þar er að finna yfir 90 tegundir spendýra sem er meira en helmingur allra spendýrategunda sem lifa í landinu. Golestan-þjóðgarðurinn er einn af 50 náttúrustöðum sem hafa svokallaða UNESCO-vottun.

Heimildir og myndir:

...