Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er einfalt að svara þessari spurningu og svarið er já! Fjölmargar dýrategundir á Íslandi hafa í sér eitur einkum dýr úr hópi skordýra og köngulóa sem nota oft eitur til að lama bráð sína. Víða í skordýraheiminum er að finna ýmis efnasambönd sem hafa lamandi eða eyðileggjandi áhrif á líkamsvefi þess sem er stunginn eða bitinn. Þar sem eitrið er yfirleitt mjög veikt og í afar litlu magni er það þó venjulega skaðlaust mönnum.
Meðal íslenskra skordýra sem bera í sér eitur má fyrst og fremst nefna geitunga. Í broddi þeirra er eitur sem veldur talsverðum sársauka þó að áhrif eitursins í einni stungu séu ekki mikil. Þegar stungurnar eru hins vegar orðnar nokkrir tugir getur magn eitursins orðið lífshættulegt fyrir fullorðinn einstakling. Hunangsflugur eru einnig með eiturbrodd og geta stungið þó að þær séu mun seinþreyttari til vandræða en geitungar. Vel þekkt og ákaflega útbreidd aðferð meðal köngulóa er að bíta væntanlega bráð sína og dæla inn eitri til að lama hana. Bit af völdum köngulóa hér á landi eru þó venjulega ekki alvarleg.
Hér sést hunangsfluga stinga mann í fingurinn. Eins og sést á myndinni dregst broddurinn út úr flugunni eftir stunguna.
Þar sem íslensk náttúra er blessunarlega laus við snáka þá telst ekkert af þeim fáu hryggdýrum sem lifa hér á landi vera eitrað. Það getur þó komið fyrir að snákar sem hefur verið smyglað inn til landsins sleppa úr haldi. Þessir snákar geta hæglega lifað af yfir sumartímann og þá jafnvel bitið þann sem þeir komast í tæri við. Þó smygl af þessu tagi virðist vera að færast í aukana eru enn í dag afar litlar líkur á að verða fyrir árás af þessu tagi. Með hlýnandi veðurfari aukast þó líkurnar á að snákar geti lifað hér af í framtíðinni. Ólöglegur innflutningur á dýrum getur því reynst afdrifaríkur fyrir íslenska náttúru ef þessi dýr sleppa úr haldi.
Höggormar (Vipera berus) búa norðar en aðrir snákar. Þrátt fyrir að vera eitraðir er eitur þeirra mun vægara en hjá náskyldum ættingjum sem lifa sunnar á hnettinum. Heimkynni höggormsins nær norður fyrir heimskautsbaug og því ætti vetrarkuldinn hér á landi ekki að vera honum hindrun, en það kunn að vera aðrir þættir í íslensku vistkerfi sem eru honum óhagstæðir, eins og skortur á fæðuframboði. Höggormurinn er tiltölulega algengur í Svíþjóð og þar er tilkynnt um 1300 bit á ári að meðaltali. Um 150 manns þurfa árlega að leita sér læknisaðstoðar vegna eituráhrifa eða sýkingar af völdum bits. Vitað er um nokkur dauðsföll af hans völdum í Evrópu síðastliðna öld.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Jón Már Halldórsson. „Lifa einhverjar eitraðar dýrategundir á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 24. september 2007, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6815.
Jón Már Halldórsson. (2007, 24. september). Lifa einhverjar eitraðar dýrategundir á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6815
Jón Már Halldórsson. „Lifa einhverjar eitraðar dýrategundir á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 24. sep. 2007. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6815>.