Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eitraðar stofuplöntur
Varasamasta stofuplanta hér á landi er líklega nería (Nerium oleander). Hún getur verið banvæn og eru nánast allir hlutar plöntunnar eitraðir. Skyld henni er vinka (Vinca rosea eða Catharanthus roseus). Hún er líka eitruð en er jafnframt mikilvæg lækningaplanta: Úr henni eru unnin lyf sem valdið hafa byltingu í meðferð á bráðahvítblæði í börnum og Hodgkins-veiki.
Í blöðum köllubróður (Dieffenbachia maculata) eru kalkoxalat-kristallar sem valda valda sviða, bruna og bólgum í munni og koki. Svipaðir kristallar eru í rifblöðku (Monstera deliciosa) og í kærleikstrjám (Philodendron-tegundum).
Tegundir af mjólkurjurtaætt innihalda hvítan mjólkursafa sem yfirleitt er eitraður, getur brennt húð og varasamt er að fá safann í auga. Algengustu stofuplönturnar af þessari ætt, þyrnikóróna Krists (Euphorbia splendens) og jólastjarna (E. pulcherrima), munu þó ekki vera eitraðar að ráði.
Eitraðar garðplöntur og illgresi
Ekki er hægt að gefa tæmandi yfirlit en tekin nokkur dæmi. Bergflétta (Hedera helix) er ræktuð úti og inni. Berin eru eitruð, valda magaverkjum og geta eyðilagt rauð blóðkorn. Þó má vera að þetta skipti litlu máli hér því að ég veit ekki hversu algengt er að bergflétta myndi aldin. Í fræjum (=baunum) gullregns (Laburnum-tegundir, sjá til hægri) eru eiturefni með svipuð lífeðlisleg áhrif og nikótín. Erlendis hafa börn dáið eftir neyslu gullregnsbauna. Þá má minnast á ývið (Taxus), barrtré sem lítillega er ræktað hérlendis. Ýviður myndar rautt “ber” sem er talsvert eitrað.
Ein eitruð garðplöntuættkvísl er Aconitum en til hennar heyra venusarvagnar og bláhjálmar. Í þeim er akónitín sem veldur brennandi sviða í munni og koki og seinna heiftarlegum magaverkjum, doða og óreglulegum hjartslætti. Venusarvagn getur verið banvænn og eru allir hlutar plöntunnar eitraðir en neðanjarðarhlutarnir þó mest.
Einn flokkur virkra plöntuefna eru hjartaglýkósíð en þau hafa áhrif á hjartavöðva dýra og eru mörg banvæn í litlum skömmtum. Sum eru mikilvæg lyf og notuð til að styrkja veikan hjartslátt, til dæmis við hjartaáfall. Mikilvægasta hjartalyfið er unnið úr fingurbjargarblómi (Digitalis purpurea), sem hér er ræktað í görðum. Lilja vallarins (Convallaria majus), inniheldur líka hjartaglýkósíð og hefur dálítið verið notuð til lyfjagerðar.
Eituráhrif efna af flokki furanocoumarina æsast upp í sólarljósi og hafa þau nokkurs konar ofnæmisvirkni. Þau eru einkum í tegundum af sveipjurtaætt og sum geta valdið alvarlegum útbrotum. Tröllahvannir (Heracleum-tegundir) eru mjög stórar jurtir og dálítið ræktaðar hér. Snerting við tröllahvönn að viðbættu sólarljósi veldur því að húðin roðnar en síðan myndast sársaukafullar blöðrur. Eftir að þær hjaðna situr eftir litarmunur á húðinni sem getur verið áberandi í mörg ár.
Að minnsta kosti sumar tegundir næturfjóla eða anemóna innihalda eiturefni sem valda sviða í slímhúð og stundum útbrotum á húð. Hófsóley (Caltha palustris) er af sömu ætt (sóleyjarætt) og oft talin til eitraðra plantna. Virka efnið er skylt eitrinu í næturfjólum.
Tvær illgresistegundir má nefna. Krossfífill (Senecio vulgaris) inniheldur efni sem geta valdið alvarlegum lifrarskemmdum og erlendis koma reglubundið upp dauðsföll hjá búpeningi af völdum hans. Hóffífill (Tussilago farfara, sjá til vinstri) hefur verið notaður af grasalæknum en í blómskipunum eru eiturefni sem geta valdið lifrarskemmdum hjá rottum. Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis) myndar eiturefni sem valdið geta lömun hjá sauðfé. Það getur bitið lúpínu í litlum mæli hafi það annan gróður með en má ekki bíta nema lítið í einu. Þekkt er erlendis að eituráhrif lúpínutegunda geta komið fram sem erfðagallar hjá afkvæmum kúa og kinda, þótt eituráhrif séu ekki sýnileg hjá mæðrunum.
Rabarbari og túnsúra (Rumex acetosa, sem grasafræðingar nefna svo en allur almenningur kallar plöntuna hundasúru) eru náskyldar og innihalda báðar talsvert magn af oxalsýru, - sem gefur súra bragðið af þessum plöntum. Oxalsýra er í það miklum styrk í rabarbara að hún getur haft óæskileg áhrif á nýrnastarfsemi og ætti að minnsta kosti ekki að neyta mikils af honum.
Eitraðar tegundir í íslensku flórunni
Ýmsar tegundir í íslensku flórunni mynda efni sem geta valdið eituráhrifum. Oftast er eitrið í svo litlu magni að það hefur hverfandi áhrif á stór dýr, þar með talinn manninn. Slíkar tegundir myndi almenningur alla jafna ekki kalla eitraðar.
Að minnsta kosti tvær tegundir í íslensku flórunni geta myndað blásýru, hvítsmári (Trifolium repens) og mýrasauðlaukur (Triglochin palustris). Blásýra er mjög eitruð en hvorug þessara tegunda er þó hættuleg. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að sauðfé virðist ekki greina blásýruna í hvítsmára en hún skiptir máli fyrir beit snigla sem sneiða hjá hvítsmáraeinstaklingum sem mynda blásýru en velja blásýrulausar plöntur.
Maríuvandarættin inniheldur talsvert af efnum sem haft geta áhrif á dýr, bæði beiska alkalóíða og glýkósíð-efni. Maríuvöndurinn (Gentiana campestris) er gömul íslensk lækningajurt og var notuð við margskonar kvillum. Mér er ekki kunnugt um að efnafræði íslensku tegundanna hafi verið rannsökuð en nefna má að úr rótum skyldrar erlendrar tegundar (Gentiana lutea) er unnið lyf gegn lystarstoli og meltingarkvillum og aðrir maríuvendir eru notaðir sem bragðgjafi í líkjöra.
Nokkrar íslenskar tegundir geta valdið eituráhrifum sé þeirra neytt í nokkru magni þótt þess séu fá dæmi að þær hafi valdið alvarlegum veikindum. Gott dæmi er brennisóley (Ranunculus acris, sjá til hægri) en brennibragðið og sviðinn kemur af efnum sem tilheyra flokki glúkósínólata. Slík efni geta valdið ertingu og bólgum á húð, magakveisu og niðurgangi. Búpeningur sniðgengur brennisóley sem nýtur góðs af beit annarra og lostætari tegunda og fjölgar sér gjarnan á beittu landi.
Tvær stærstu ættir íslensku flórunnar, grasaættin og staraættin innihalda yfirleitt ekki eiturefni. Þó má nefna að á melgresi vex stundum mjög eitraður sveppur. Hann myndar dvalagró í öxunum og sýktar plöntur bera hörð, aflöng og svört horn þar sem fræin ættu að vera. Þau kallast meldrjólar og í þeim eru ofskynjunarefni, skyld virku efnunum í LSD. Þau valda einnig uppköstum en sé tekið mikið inn af þeim geta þau verið banvæn og eru þekkt allnokkur tilfelli frá miðöldum þar sem heilu þorpin urðu fyrir eiturverkunum en þessi sami sveppur finnst á öðrum korntegundum, til dæmis hveiti.
Tvo eitraða einkímblöðunga má nefna að lokum. Ferlaufungur (Paris quadrifolia) er sjaldgæf og friðlýst og allsérkennileg tegund. Í beri hans og jarðstöngli eru eiturefni og reyndar hefur kínversk tegund af sömu ættkvísl verið notuð gegn krabbameini. Sýkigras (Tofieldia pusilla) er önnur sérkennileg jurt. Sýkigras er mjög beiskt á bragðið og veldur sviða og doða í vörum og munni og mikilli ertingu í slímhúð. Kindur spýta sýkigrasi út úr sér, verði þeim á að bíta jurtina, og oft má sjá upprifnar plöntur liggja lausar úti í haga.
Myndir
Gullregn: Laburnum. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin. Mynd eftir Andrew Dunn.
Hóffífill: Coltsfoot. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin. Mynd eftir André Karwath.
Brennisóley: Brennisóley. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin. Mynd eftir Kurt Stueber.
Þóra Ellen Þórhallsdóttir. „Hvaða plöntur á Íslandi eru eitraðar?“ Vísindavefurinn, 27. nóvember 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1183.
Þóra Ellen Þórhallsdóttir. (2000, 27. nóvember). Hvaða plöntur á Íslandi eru eitraðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1183
Þóra Ellen Þórhallsdóttir. „Hvaða plöntur á Íslandi eru eitraðar?“ Vísindavefurinn. 27. nóv. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1183>.