Eru þekkt dæmi um það að djöfullinn sé til í fólki og hægt sé að særa hann út? (5. R í MR). Eru andsæringar til í alvörunni? Er hægt að sanna það að fólk hafi verið andsett. (Jenný Björk Ragnarsdóttir)Andsetning (e. possession) kallast það fyrirbæri þegar einstaklingur er talinn (annað hvort af honum sjálfum eða öðrum) vera heltekinn af yfirnáttúrulegum anda sem hefur áhrif á hugsun hans, hegðun og skapferli. Stundum talar hinn andsetni tungum, fær flog og andlitsfall hans breytist. Þessi „yfirtökuandi“ getur annað hvort haft góða eiginleika, svo sem heilagur andi, eða illa, svo sem púki eða djöfullinn sjálfur (e. demonic possessions). Hið síðarnefnda virðist vera algengara í þjóðtrú og trúarbrögðum og er til umfjöllunar hér. Trúin á andsetningar kemur fram í mörgum fornum heimildum um menningu mannkynsins og í langflestum trúarbrögðum er að finna minni sem lýsa andsetningum. Til að mynda eru margar frásagnir af andsetningum í Biblíunni og Jesús Kristur tekur að sér hlutverk særingamanns í nokkrum sögnum Nýja testamentisins. Hippókrates (400 f.Kr.), sem nefndur hefur verið faðir nútíma læknisfræði, var einnig sagður vera lærður særingamaður. Særingar (e. exorcism) kallast sú athöfn að reka illa anda eða djöfulinn sjálfan út úr andsetinni manneskju. Þetta geta verið einfaldar athafnir, eins og að fara með þulu eða bæn eða hreinlega skipa andanum að hypja sig í nafni einhvers æðri yfirboðara, eða flóknar athafnir sem fela í sér muni á borð við trúartákn, vígt vatn og fleira. Hugmyndir um andsetningar falla engan veginn að heimsmynd vísindanna en vísindin hafna tilvist yfirnáttúrulegra anda af nokkru tagi sem hluta af hinum náttúrulega veruleika eða raunheimi. Aldrei hafa komið fram raunverulegar vísbendingar sem túlka mætti sem staðfestingu á tilvist anda eða að fólk geti verið andsetið í orðsins fyllstu merkingu. Kæmu fram slíkar vísbendingar kallaði það á gagngera endurskoðun á þekkingu manna á náttúrulögmálunum. Sá sem fer á veraldarvefinn til að finna vísindatilraunina sem afsannar tilvist andsetninga mun þó líklega verða fyrir vonbrigðum. Þegar kemur að því að mæla eitthvað sem ekki hluti af raunheiminum endar lögsaga vísindanna og þjóðtrú og trúarbrögð taka við. Trú á andsetningar og særingar lifir þó enn góðu lífi í nútímanum á svæðum þar sem andatrú á sér djúpar rætur, svo sem í Afríku og Suður-Asíu. Einnig er hún enn útbreidd í einhverri mynd innan vissra trúarbragða í hinum vestræna heimi þótt verulega hafi dregið úr henni eftir tíma upplýsingaaldar. Í dag starfa allnokkrir særingamenn innan kaþólsku kirkjunnar á Vesturlöndum en færri innan lúterskra kirkjudeilda. Þekkt er að tíðni meintra andsetninga getur sveiflast eftir tískustraumum. Nokkur uppgangur varð í trú á andsetningar með vinsældum spíritismans á 19. öld og merkjanleg aukning varð í særingarathöfnum á seinni hluta 20. aldar og er það meðal annars rakið til vinsælla bíómynda á borð við The Exorcist frá árinu 1973. En hvers vegna hafa andsetningar loðað svo lengi við mannkynið ef enginn fótur er fyrir þeim í raunveruleikanum? Fyrir því kunna að vera margar ástæður. Í fyrsta lagi hefur fólk gripið til slíkra útskýringa þegar það stóð frammi fyrir náttúrulegum fyrirbærum fyrr á tímum. Ýmsir sjúkdómar og sálfræðileg mein sem hafa áhrif á hugsun, hegðun, hreyfingar og skapferli til skemmri eða lengri tíma eru líkleg til að hafa verið útskýrð á þennan hátt. Það getur átt við um flogaveiki, hundaæði, Tourette-heilkennið, svefnrofalömun, persónuleikabreytingar af völdum heilaáfalla og geðrof (til dæmis geðhvörf og geðklofa) svo eitthvað sé nefnt. Enn í dag trúir hluti bandarískra foreldra flogaveikra barna því að barn þeirra sé andsetið í fyrsta skiptið sem það fær flog. Einnig er vel þekkt að fólk sem sýnir einkenni rofins persónuleika (e. dissociative identity disorder) finnist það vera andsetið.

Ýmsir sjúkdómar sem hafa áhrif á hugsun, hegðun, hreyfingar og skapferli gætu hafa verið talin merki um andsetningu. Á myndinni sést sjúklingur smitaður af hundaæði.
- Devinsky, Orrin og George Lai. Spirituality and religion in epilepsy. Epilepsy & Behaviour. Maí 2008.
- Exorcism: Facts and Fiction About Demonic Possession. Livescience.com.
- Exorcism as Psychotherapy: A Clinical Psychologist Examines So-Called Demonic Possession. Psychology Today.
- Layton, J. How exorcism works. http://science.howstuffworks.com/exorcism.htm.
- Leavey, Gerard . The Appreciation of the Spiritual in Mental Illness: A Qualitative Study of Beliefs Among Clergy in the UK. Transcultural Psychiatry. September 2010.
- Mirsky, AF og CC. Duncan. Pathophysiology of mental illness: A view from the fourth ventricle. International journal of Psychophysiology. Nóv-des 2005.
- Obeid, T o.fl. Possession by 'Jinn' as a cause of epilepsy (Saraa): A study from Saudi Arabia. Seizure-European journal of epilepsy. Maí 2012.
- Timothy C. Thomason. Possession, Exorcism and Psychotherapy. Northern Arizona University.
- Exorcism - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 04.02. 2014).
- Rabies - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 04.02. 2014).