Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er að segja um siðaskipti á Íslandi og hlutverk Jóns Arasonar í því ferli?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Árið 1537 var lútherstrú lögleidd í Danmörku. Danakonungur var þó ekkert að flýta sér að þröngva henni upp á Íslendinga, en biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, varð óvart til þess að flýta þeirri þróun. Þegar hann bjó sig undir að láta af embætti valdi hann sem væntanlegan eftirmann sinn Gissur Einarsson. Gissur var hins vegar lútherskur, hvort sem Ögmundur vissi það eða ekki. Gissur fór til Danmerkur og kom heim aftur sumarið 1540, tilnefndur af konungi til að taka við Skálholtsstað.

Í Skálholtsbiskupsdæminu hvarf fljótlega öll mótspyrna gegn siðaskiptum og lútherstrú var tekin upp. Á meðan sat kaþólski biskupinn Jón Arason óáreittur á Hólum. Flestir telja að biskuparnir tveir, Gissur og Jón, hafi samið um að láta hvor annan í friði. Danakonungur tók því líka með ró að nyrðra biskupsdæmið á Íslandi héldi áfram að vera kaþólskt mörgum árum eftir að lútherstrú var tekin upp annars staðar í konungsríkinu.

Hverju ætlaði biskup að ná fram?

Til eru heimildir um að Jón Arason hafi skrifað Þýskalandskeisara, sem var nærtækasti málsvari kaþólsku kirkjunnar í Evrópu. Eftir lát Jóns héldu andstæðingar hans því fram að hann hefði ætlað að svíkja Ísland undan Danakonungi í hendur þýska keisarans. Þetta hefur þó aldrei verið sannað.

En fyrir hvaða málstað var Jón biskup að berjast?

Um þetta hafa verið ólíkar skoðanir. Meðan Íslendingar voru að berjast fyrir sjálfstæði undan danskri stjórn, á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar, töldu menn almennt að Jón hefði einkum verið að berjast fyrir landsréttindum Íslands. Lútherstrú merkti að konungar urðu æðstu yfirmenn kirkjunnar; kirkjan varð að ríkisstofnun. Á Íslandi var konungsvaldið danskt, þannig að danskt vald yfir Íslandi hlaut að aukast við siðaskiptin.

Eftir að sjálfstæðisbaráttunni lauk fóru fræðimenn að halda því fram að biskup hefði auðvitað verið að berjast fyrir því sem hann taldi vera rétta trú og fyrir valdi þeirrar kirkju sem hann þjónaði. Samt sem áður er eins og Jón biskup hafi litið á baráttu sína einkum sem baráttu milli Íslendinga og Dana. Það kemur víða fram í því sem biskup orti um sjálfan sig, til dæmis:
Öllum þótti hann ellidjarfur,
Ísalandi næsta þarfur
og miklu megna.

Eftir andlát Gissurar Einarssonar árið 1548, hóf Jón Arason gagnárás á lútherskuna í Skálholtsstifti og lét jafnframt víggirða biskupssetrið á Hólum. Þá ákvað konungur loks að losa sig við þennan þrjóska uppreisnarbiskup. Árið 1549 skrifaði hann Daða Guðmundssyni sýslumanni í Snóksdal í Dalasýslu og bað hann að handtaka Jón biskup. Daði treysti sér þó sýnilega ekki til þess að fara norður að Hólum og Jón biskup var því ekki handtekin.

Haustið 1550 gerði biskup þá skyssu að fara vestur í Dali með tveimur sonum sínum og litlu liði til þess að stefna Daða Guðmundssyni fyrir rétt. Daði réðist að þeim með ofurefli, lét handtaka þá og flytja suður í Skálholt. Öll skip á leið til Danmerkur voru farin það árið, svo ekki var hægt að koma þeim umsvifalaust til konungs. Í Skálholti óttuðust menn að Norðlendingar mundu reyna að frelsa biskup sinn. Því var það ráð tekið að hálshöggva Jón biskup og syni hans 7. nóvember 1550.

Um veturinn kom í ljós að óttinn við Norðlendinga hafði ekki verið ástæðulaus. Í janúar komu suður um 60 menn og drápu alla Dani sem þeir fundu, hvort sem þeir höfðu átt þátt í aftöku Hólafeðga eða ekki. Vorið 1551 sendi konungur tvö herskip til Norðurlands með 300 manna liði, og hvarf þá öll andstaða gegn siðaskiptum. Sem pólitísk bylting höfðu þau sigrað á Íslandi. Sem hugarfarsbreyting átti Lútherstrú enn langa og torsótta leið eftir.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Guðbrandur Jónsson: Herra Jón Arason. Reykjavík, Hlaðbúð, 1950.
  • Gunnar Karlsson: „Íslensk þjóðernisvitund á óþjóðlegum öldum.“ Skírnir CLXXIII (1999), 141–78.
  • Páll Eggert Ólason: Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi I–II. Reykjavík, Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar, 1919–22.
  • Tryggvi Þórhallsson: Gissur biskup Einarsson og siðaskiptin. Reykjavík, börn höfundar, 1989.

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

19.1.2007

Spyrjandi

Þórunn Arnardóttir

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað er að segja um siðaskipti á Íslandi og hlutverk Jóns Arasonar í því ferli?“ Vísindavefurinn, 19. janúar 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6473.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2007, 19. janúar). Hvað er að segja um siðaskipti á Íslandi og hlutverk Jóns Arasonar í því ferli? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6473

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað er að segja um siðaskipti á Íslandi og hlutverk Jóns Arasonar í því ferli?“ Vísindavefurinn. 19. jan. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6473>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er að segja um siðaskipti á Íslandi og hlutverk Jóns Arasonar í því ferli?
Árið 1537 var lútherstrú lögleidd í Danmörku. Danakonungur var þó ekkert að flýta sér að þröngva henni upp á Íslendinga, en biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, varð óvart til þess að flýta þeirri þróun. Þegar hann bjó sig undir að láta af embætti valdi hann sem væntanlegan eftirmann sinn Gissur Einarsson. Gissur var hins vegar lútherskur, hvort sem Ögmundur vissi það eða ekki. Gissur fór til Danmerkur og kom heim aftur sumarið 1540, tilnefndur af konungi til að taka við Skálholtsstað.

Í Skálholtsbiskupsdæminu hvarf fljótlega öll mótspyrna gegn siðaskiptum og lútherstrú var tekin upp. Á meðan sat kaþólski biskupinn Jón Arason óáreittur á Hólum. Flestir telja að biskuparnir tveir, Gissur og Jón, hafi samið um að láta hvor annan í friði. Danakonungur tók því líka með ró að nyrðra biskupsdæmið á Íslandi héldi áfram að vera kaþólskt mörgum árum eftir að lútherstrú var tekin upp annars staðar í konungsríkinu.

Hverju ætlaði biskup að ná fram?

Til eru heimildir um að Jón Arason hafi skrifað Þýskalandskeisara, sem var nærtækasti málsvari kaþólsku kirkjunnar í Evrópu. Eftir lát Jóns héldu andstæðingar hans því fram að hann hefði ætlað að svíkja Ísland undan Danakonungi í hendur þýska keisarans. Þetta hefur þó aldrei verið sannað.

En fyrir hvaða málstað var Jón biskup að berjast?

Um þetta hafa verið ólíkar skoðanir. Meðan Íslendingar voru að berjast fyrir sjálfstæði undan danskri stjórn, á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar, töldu menn almennt að Jón hefði einkum verið að berjast fyrir landsréttindum Íslands. Lútherstrú merkti að konungar urðu æðstu yfirmenn kirkjunnar; kirkjan varð að ríkisstofnun. Á Íslandi var konungsvaldið danskt, þannig að danskt vald yfir Íslandi hlaut að aukast við siðaskiptin.

Eftir að sjálfstæðisbaráttunni lauk fóru fræðimenn að halda því fram að biskup hefði auðvitað verið að berjast fyrir því sem hann taldi vera rétta trú og fyrir valdi þeirrar kirkju sem hann þjónaði. Samt sem áður er eins og Jón biskup hafi litið á baráttu sína einkum sem baráttu milli Íslendinga og Dana. Það kemur víða fram í því sem biskup orti um sjálfan sig, til dæmis:
Öllum þótti hann ellidjarfur,
Ísalandi næsta þarfur
og miklu megna.

Eftir andlát Gissurar Einarssonar árið 1548, hóf Jón Arason gagnárás á lútherskuna í Skálholtsstifti og lét jafnframt víggirða biskupssetrið á Hólum. Þá ákvað konungur loks að losa sig við þennan þrjóska uppreisnarbiskup. Árið 1549 skrifaði hann Daða Guðmundssyni sýslumanni í Snóksdal í Dalasýslu og bað hann að handtaka Jón biskup. Daði treysti sér þó sýnilega ekki til þess að fara norður að Hólum og Jón biskup var því ekki handtekin.

Haustið 1550 gerði biskup þá skyssu að fara vestur í Dali með tveimur sonum sínum og litlu liði til þess að stefna Daða Guðmundssyni fyrir rétt. Daði réðist að þeim með ofurefli, lét handtaka þá og flytja suður í Skálholt. Öll skip á leið til Danmerkur voru farin það árið, svo ekki var hægt að koma þeim umsvifalaust til konungs. Í Skálholti óttuðust menn að Norðlendingar mundu reyna að frelsa biskup sinn. Því var það ráð tekið að hálshöggva Jón biskup og syni hans 7. nóvember 1550.

Um veturinn kom í ljós að óttinn við Norðlendinga hafði ekki verið ástæðulaus. Í janúar komu suður um 60 menn og drápu alla Dani sem þeir fundu, hvort sem þeir höfðu átt þátt í aftöku Hólafeðga eða ekki. Vorið 1551 sendi konungur tvö herskip til Norðurlands með 300 manna liði, og hvarf þá öll andstaða gegn siðaskiptum. Sem pólitísk bylting höfðu þau sigrað á Íslandi. Sem hugarfarsbreyting átti Lútherstrú enn langa og torsótta leið eftir.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Guðbrandur Jónsson: Herra Jón Arason. Reykjavík, Hlaðbúð, 1950.
  • Gunnar Karlsson: „Íslensk þjóðernisvitund á óþjóðlegum öldum.“ Skírnir CLXXIII (1999), 141–78.
  • Páll Eggert Ólason: Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi I–II. Reykjavík, Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar, 1919–22.
  • Tryggvi Þórhallsson: Gissur biskup Einarsson og siðaskiptin. Reykjavík, börn höfundar, 1989.
...