
Lyfleysa eða sýndarlyf er eins í útliti og á bragðið og lyfjaefni. Nýlegar rannsóknir sýna að lyfleysur geta leitt til raunverulegs bata. En það eru takmörk fyrir áhrifum þeirra eða annarra sýndaraðgerða. Ekki er til dæmis unnt að bæta brotinn handlegg með þeim. Lyfleysuáhrifin eru talin virka einkum á sjúkdómseinkennin en síður á orsök sjúkdómsins.
Á síðustu 10 árum höfum við náð verulegum árangri við að sýna fram á líffræðilega hlið lyfleysuáhrifanna. Viðfangsefnið er að sýna hvernig við getum hagnýtt þetta mikilvæga fyrirbæri á þann hátt að það samrýmist trausti sjúklings á lækni sínum og upplýstu samþykki.Það eru takmörk fyrir slíkum áhrifum af völdum lyfleysu eða annarra sýndaraðgerða. Það er til dæmis ekki unnt að bæta brotinn handlegg með þessum hætti. Lyfleysuáhrifin eru talin virka einkum á sjúkdómseinkennin en síður á orsök sjúkdómsins þó dæmi séu um það. Enn eru mjög skiptar skoðanir um þessi áhrif og halda andstæðingarnir því fram að lyfleysu sé oft þakkaður bati sem hefði orðið hvort eð var. Meðmælendur telja skynsamlegt að reyna að örva hæfileika líkamans til að lækna sig sjálfur en í því felist lyfleysuáhrifin. Lyfleysuáhrifin sýna jafnframt hvaða áhrif viðmót lækna og hjúkrunarfræðinga hafa á sjúklinginn, jákvæðni þeirra og uppörvun. Sýndarmeðferð er ekki ný í læknisfræði og segja má að allt fram á 20. öld hafi saga læknisfræðinnar einkennst af sýndarmeðferð. Eftir seinni heimsstyrjöldina komu fram lyf sem raunverulega læknuðu sjúkdóma og ýttu til hliðar lyfleysum eða sýndarmeðferðum. Áhersla var síðar lögð á upplýst samþykki, það er sjúklingar fengu rétt til upplýsinga um meðferðina og veittu samþykki fyrir henni. Á síðasta áratug hafa rannsóknir vakið aukinn áhuga á lyfleysum sem meðferðarúrræði. Eru það til dæmis rannsóknir á heila og verkjalyfjum en heilinn framleiðir eigin verkjastillandi efni sem lyfleysan hefur áhrif á og hafa fleiri slíkar rannsóknir verið kynntar. Ræða menn nú um leiðir til að nýta þessi áhrif vonar og jákvæðni sjúklingsins í bættri meðferð og betri líðan. Mikilvægasti þátturinn er viðmót læknisins og sú von sem hann gefur sjúklingnum. Heimildir og mynd:
- Finns DG, Kaptchuk TJ, Miller F, Benedetti F. Biological, clinical and ethical advances of placebo effects. Lancet 2010; 375 (9715): 686-695.
- Hróbjartsson A, Gøtzsche PC. Is the Placebo Powerless? — An Analysis of Clinical Trials Comparing Placebo with No Treatment, The New England Journal of Medicine 2001; 344:1594-1602.
- Mynd: Lifes Little Mysteries. Sótt 30.1.2012.
Upprunalega hljóðuðu spurningarnar svona:
- Gætuð þið útskýrt lyfleysu fyrir mér og nefnt dæmi um slíkt?
- Hvað er placebo?