Oftast er í Gamla testamentinu talað um heilagan anda sem kraft sem Guð sendi yfir tilteknar persónur þegar hann kallaði þær til þess að vinna ákveðin verk. Dómararnir í Ísrael eru dæmi um það, til dæmis Debóra sem var kona (Dómarabókin 4. - 5. kap.), Gídeon (Dómarabókin 6. - 8. kap.) og Samson (Dómarabókin 13. - 16. kap.). Konungurinn í Ísrael var smurður og merkti smurningin að andi Drottins var honum gefinn. Í samræmi við það nefndist konungurinn Messías eða hinn smurði Drottins. Eins fengu spámenn heilagan anda. Þegar Ísraelsþjóðin var herleidd til Babýlon á árunum 586-536 f.Kr. hófu spámenn hennar að endurmeta hugmyndir þjóðarinnar um stöðu sína og hlutverk sem þjóðar. Stofnanirnar sem hún hafði áður tengt anda Guðs, konungdæmið og musterið, voru báðar horfnar. Spámennirnir fengu þjóðina til þess að hætta að horfa til fortíðar og horfa þess í stað til framtíðar, þegar sendiboði Guðs kæmi smurður heilögum anda að leysa alla menn undan viðjum ánauðar syndar og dauða. Hugtakið Messías tók þá að merkja frelsara þjóðarinnar sem ætti eftir að koma.
Nýja testamentið lítur þannig á að þessir spádómar Gamla testamentisins hafi ræst í Jesú. Allt Nýja testamentið er skráð út frá þeirri fullvissu, að Jesús sé hinn fyrirheitni Messías. Og á grundvelli þess játa kristnir menn um Jesú: "Jesús er Kristur, hinn smurði, Messías, sá sem var fylltur anda Drottins og sá sem veitir anda Drottins, heilögum anda, til fylgjenda sinna." Áður en Jesús gekk út til pínu sinnar hét hann að gefa lærisveinum sínum heilagan anda til þess að hjálpa þeim, fræða þá og styrkja: "Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans" (Jóhannesarguðspjall 14.16-17). Þessi sannleiksandi á að vitna um Krist í hjörtum lærisveinanna og hvetja þá til vitnisburðar um hann í orðum og verkum. Í Postulasögunni 2. kapitula er svo greint frá því hvernig þetta fyrirheit rættist. Páll postuli lýsir svo í einu bréfa sinna hvaða ávöxtu heilagur andi geti borið í samfélagi lærisveina Jesú: "Ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð, bindindi." (Galatabréfið 5.22) Sem andi Guðs föður og Guðs sonar er Heilagur andi lifandi persóna. Hann gefst okkur í skírninni og endurnýjast í okkur þegar við biðjum og göngum til altaris. Það er heilagur andi sem gerir mönnum kleift að játa Jesú sem Drottin og starfa í nafni hans. Það eru margar bænir til heilags anda til, m.a. í Sálmabókinni, t.d. sálmar nr. 329-335. Sálmurinn nr. 335 er bæn sem jafnframt lýsir því vel hvernig kristnir menn vilja skilja hlutverk heilags anda:
Guð helgur andi, heyr oss nú, ó, heyr vér biðjum: Veit oss rétta trú, huggun hjörtum mæddum heims í eymda kjörum, svölun sálum hræddum, síðast burt er förum. Streym þú líknarlind. Þú blessað ljós, ó lýs þú oss í líknarskjólið undir Jesú kross. Veit oss hjálp að hlýða hirði vorum góða lausnaranum lýða, lífgjafanum þjóða. Streym þú líknarlind. Þú kærleiksandi kveik í sál þann kærleikseld, er helgi verk og mál, að í ást og friði æ vér lifað fáum, uns að æðsta miði allir loks vér náum. Streym þú líknarlind. Þú huggun æðst í hverri neyð, oss hjálpa þú og styð í lífi og deyð. Veit þú að oss eigi afl og djörfung þrjóti, er hinn óttalegi óvin ræðst oss móti. Streym þú líknarlind. Guð helgur andi, á hinstu stund oss hugga þú með von um Jesú fund. Þá er þrautin unnin, þá er sigur fenginn, sælusól upp runnin, sorg og þrenging engin. Streym þú líknarlind.Heimildir: Einar Sigurbjörnsson: Credo. Kristin trúfræði. Bls. 299-331. Einar Sigurbjörnsson: Ljós í heimi. Kristin trú og nútíminn. Bls. 119-130.(Lúther; þýð. Helgi Hálfdánarson)