Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er leishmaniusýki og hvernig lýsir hún sér?

Þórdís Kristinsdóttir

Leishmaniusýki eða leishmanssótt (e. leishmaniasis) er sýking af völdum frumdýra af ættkvíslinni Leishmania. Frumdýrið er innanfrumusníkjudýr (e. intracellular parasite) í bæði mönnum og dýrum. Að minnsta kosti 15 tegundir geta sýkt menn. Smit berst til manna með sandflugum sem lifa í heitu og tempruðu loftslagi og nærast á blóði manna og dýra. Leishmanssótt er því sérstaklega algeng í til dæmis Suður-Ameríku og Mið-Austurlöndum en er nánast óþekkt á Íslandi.

Sýking er oftast bundin við húð en getur þó einnig lagst á slímhúðir og innri líffæri og er þá mun alvarlegri. Tegundum leishmanssóttar er gjarnan skipt í tegundir „gamla“ og „nýja“ heimsins til hagræðingar. Afbrigði gamla heims finnast á svæðum í kringum Miðjarðarhafið, hluta Afríku og Asíu en afbrigði nýja heims í Mið- og Suður-Ameríku.

Leishmania-frumdýr sjást hér í beinmergssýni.

Leishmania-frumdýrin sýkja spendýr og helsta uppspretta sýkingar eru hundar, menn og nagdýr. Flestar sýkingar berast aðeins í menn frá dýrum en þó er talið að sumar tegundir geti smitast beint manna á milli. Af þeim 30 þekktu tegundum sem sýkja dýr er 21 talin geta sýkt menn. Kvendýr sandflugna verða smitberar með því að nærast á blóði sýktra dýra og bera svo smitið í menn með biti. Frumdýrin lifa svo og fjölga sér í átfrumum (e. macrophages) mannslíkamans. Ólíkar tegundir Leishmania dreifast mismikið um vefi en vefjasértækni ólíkra tegunda veldur klínískum fjölbreytileika sýkinga.

Leishmanssótt í húð einkennist af sárum sem geta verið lengi að gróa.

Leishmanssótt í húð er algengasta sýkingin og einkenni hennar eru sárir blettir á húð sem koma fram nokkrum vikum eða mánuðum eftir bit sandflugu. Þessi sár gróa á mánuðum eða ári en skilja eftir sig ör. Þessi sýking getur dreift sér, en hvort það gerist fer eftir tegundinni sem sýkir. Sýkingin getur dreifst um húðina og valdið þar stórum skemmdum sem nokkuð erfitt er að meðhöndla. Einkennin minna nokkuð á holdsveiki. Sýkingin getur einnig dreift sér í slímhúðir og valdið þar vefjaskemmdum, sérstaklega í nefi og munni. Alvarlegast er ef sýkingin berst í innri líffæri. Afleiðingar þess eru meðal annars hiti, blóðleysi og stækkun á lifur og milta. Þessi tegund sýkingar getur verið banvæn ef ekkert er að gert.

Þær tegundir sem finnast í gamla heiminum valda að öllu jöfnu sýkingum sem eru auðveldari í meðhöndlun og þær læknast oft af sjálfu sér og svara betur meðferð. Þær valda sárum á húð sem gróa oftast sjálfkrafa á innan við ári, en það getur þó tekið nokkuð ár. Þær valda sjaldnast alvarlegum veikindum eða dauða. Tegundir í nýja heiminum valda alvarlegri sýkingum. Þær valda sárum með bólgu og jafnvel sýkingu út í eitla sem getur dreift sér í slímhúðir og valdið vefjaskemmdum.

Sjúklingur með leishmanssótt í húð árið 1917.

Ýmiss konar meðferð er beitt gegn leishmanssótt. Við vægari sýkingum er notuð staðbundin meðferð en í alvarlegri tilfellum þarf að beita kröftugri meðferð. Dæmi um meðferðir eru ýmis lyf, skurðaðgerðir, frysting með fljótandi köfnunarefni og hitameðferð. Fimmgild kvikasilfursambönd hafa veitt góðan árangur en talið er að þess konar lyf bæli ATP- og GTP-myndun í frumdýrum með því að bæla glýkólýsu og sítrónusýruhringinn. Helstu aukaverkanir eru aftur á móti ógleði, uppköst, niðurgangur og kviðverkir. Erfitt þykir að meta árangur meðferðar á vægari sýkingum þar sem sárin gróa oft af sjálfu sér.

Sem stendur eru engin bóluefni gegn leishmanssótt í notkun. Sjúkdómurinn hefur sterk tengsl við fátækt, vannæringu, bágt lífsviðurværi og lélegt ónæmiskerfi. Hann hefur einnig blossað upp í kjölfarið á umhverfisbreytingum, stíflugerð, miklum fólksflutningum og fleiri slíkum atburðum. Leishmanssótt þekkist í fjórum heimsálfum og telst vera landlæg í 88 löndum, en 72 þeirra eru svonefnd þróunarlönd. Banvænir faraldar hafa brotist út á svæðum sem erfitt er að nálgast með læknishjálp, svo sem í Eþíópíu (2005-06), Kenía (2008) og Suður-Súdan (2009). Þetta er auk þess algeng tækifærissýking hjá fólki með HIV og getur valdið þeim dauða. Þess vegna er æskilegt að þróa gott og ódýrt bóluefni sem fyrst en þannig má bjarga fjölda mannslífa.

Heimildir:

Myndir

Höfundur

nemi í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

28.5.2013

Spyrjandi

Elísabet Eva Ottósdóttir, f. 1998

Tilvísun

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað er leishmaniusýki og hvernig lýsir hún sér?“ Vísindavefurinn, 28. maí 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60397.

Þórdís Kristinsdóttir. (2013, 28. maí). Hvað er leishmaniusýki og hvernig lýsir hún sér? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60397

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað er leishmaniusýki og hvernig lýsir hún sér?“ Vísindavefurinn. 28. maí. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60397>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er leishmaniusýki og hvernig lýsir hún sér?
Leishmaniusýki eða leishmanssótt (e. leishmaniasis) er sýking af völdum frumdýra af ættkvíslinni Leishmania. Frumdýrið er innanfrumusníkjudýr (e. intracellular parasite) í bæði mönnum og dýrum. Að minnsta kosti 15 tegundir geta sýkt menn. Smit berst til manna með sandflugum sem lifa í heitu og tempruðu loftslagi og nærast á blóði manna og dýra. Leishmanssótt er því sérstaklega algeng í til dæmis Suður-Ameríku og Mið-Austurlöndum en er nánast óþekkt á Íslandi.

Sýking er oftast bundin við húð en getur þó einnig lagst á slímhúðir og innri líffæri og er þá mun alvarlegri. Tegundum leishmanssóttar er gjarnan skipt í tegundir „gamla“ og „nýja“ heimsins til hagræðingar. Afbrigði gamla heims finnast á svæðum í kringum Miðjarðarhafið, hluta Afríku og Asíu en afbrigði nýja heims í Mið- og Suður-Ameríku.

Leishmania-frumdýr sjást hér í beinmergssýni.

Leishmania-frumdýrin sýkja spendýr og helsta uppspretta sýkingar eru hundar, menn og nagdýr. Flestar sýkingar berast aðeins í menn frá dýrum en þó er talið að sumar tegundir geti smitast beint manna á milli. Af þeim 30 þekktu tegundum sem sýkja dýr er 21 talin geta sýkt menn. Kvendýr sandflugna verða smitberar með því að nærast á blóði sýktra dýra og bera svo smitið í menn með biti. Frumdýrin lifa svo og fjölga sér í átfrumum (e. macrophages) mannslíkamans. Ólíkar tegundir Leishmania dreifast mismikið um vefi en vefjasértækni ólíkra tegunda veldur klínískum fjölbreytileika sýkinga.

Leishmanssótt í húð einkennist af sárum sem geta verið lengi að gróa.

Leishmanssótt í húð er algengasta sýkingin og einkenni hennar eru sárir blettir á húð sem koma fram nokkrum vikum eða mánuðum eftir bit sandflugu. Þessi sár gróa á mánuðum eða ári en skilja eftir sig ör. Þessi sýking getur dreift sér, en hvort það gerist fer eftir tegundinni sem sýkir. Sýkingin getur dreifst um húðina og valdið þar stórum skemmdum sem nokkuð erfitt er að meðhöndla. Einkennin minna nokkuð á holdsveiki. Sýkingin getur einnig dreift sér í slímhúðir og valdið þar vefjaskemmdum, sérstaklega í nefi og munni. Alvarlegast er ef sýkingin berst í innri líffæri. Afleiðingar þess eru meðal annars hiti, blóðleysi og stækkun á lifur og milta. Þessi tegund sýkingar getur verið banvæn ef ekkert er að gert.

Þær tegundir sem finnast í gamla heiminum valda að öllu jöfnu sýkingum sem eru auðveldari í meðhöndlun og þær læknast oft af sjálfu sér og svara betur meðferð. Þær valda sárum á húð sem gróa oftast sjálfkrafa á innan við ári, en það getur þó tekið nokkuð ár. Þær valda sjaldnast alvarlegum veikindum eða dauða. Tegundir í nýja heiminum valda alvarlegri sýkingum. Þær valda sárum með bólgu og jafnvel sýkingu út í eitla sem getur dreift sér í slímhúðir og valdið vefjaskemmdum.

Sjúklingur með leishmanssótt í húð árið 1917.

Ýmiss konar meðferð er beitt gegn leishmanssótt. Við vægari sýkingum er notuð staðbundin meðferð en í alvarlegri tilfellum þarf að beita kröftugri meðferð. Dæmi um meðferðir eru ýmis lyf, skurðaðgerðir, frysting með fljótandi köfnunarefni og hitameðferð. Fimmgild kvikasilfursambönd hafa veitt góðan árangur en talið er að þess konar lyf bæli ATP- og GTP-myndun í frumdýrum með því að bæla glýkólýsu og sítrónusýruhringinn. Helstu aukaverkanir eru aftur á móti ógleði, uppköst, niðurgangur og kviðverkir. Erfitt þykir að meta árangur meðferðar á vægari sýkingum þar sem sárin gróa oft af sjálfu sér.

Sem stendur eru engin bóluefni gegn leishmanssótt í notkun. Sjúkdómurinn hefur sterk tengsl við fátækt, vannæringu, bágt lífsviðurværi og lélegt ónæmiskerfi. Hann hefur einnig blossað upp í kjölfarið á umhverfisbreytingum, stíflugerð, miklum fólksflutningum og fleiri slíkum atburðum. Leishmanssótt þekkist í fjórum heimsálfum og telst vera landlæg í 88 löndum, en 72 þeirra eru svonefnd þróunarlönd. Banvænir faraldar hafa brotist út á svæðum sem erfitt er að nálgast með læknishjálp, svo sem í Eþíópíu (2005-06), Kenía (2008) og Suður-Súdan (2009). Þetta er auk þess algeng tækifærissýking hjá fólki með HIV og getur valdið þeim dauða. Þess vegna er æskilegt að þróa gott og ódýrt bóluefni sem fyrst en þannig má bjarga fjölda mannslífa.

Heimildir:

Myndir

...