Mismunandi skilgreiningar eru þó notaðar þegar fjallað er um mismunandi þætti. Í vínframleiðslu er talað annars vegar um Evrópuframleiðslu og hins vegar framleiðslu utan Evrópu, það er nýja heims vín. Á hinu síðarnefnda svæði fer flokkunin til dæmis fremur eftir því hvaða þrúga á í hlut en frá hvaða svæði hins nýja heims það kemur. Þegar kemur að líffræðinni koma þessi hugtök einnig við sögu en þá er heiminum skipt upp í 8 svæði. 4 þessara svæða tengjast áðurnefndum hugtökum, gamli heimurinn tekur til svæða sem kallast Palearctic (Evrópa, Afríka norðan Sahara, nyrðri hluti arabíuskaga og Asía norðan Himalayafjalla) og Afrotropic (Afríka sunnan Sahara og syðri hluti arabíuskaga). Nearctic og Neoptropic eru svæði sem innihalda saman Norður- og Suður-Ameríku. Hér er Eyjaálfa ekki talin með enda dýralíf og flóra álfunnar gjörólík því sem þekkist annars staðar. Að lokum er einnig hægt að tala um nýja heiminn sem vesturhvel jarðar en gamla heiminn sem austurhvel jarðar. Norður- og Suður-Ameríka myndu þá einungis teljast til hins nýja heims. Ein heimsálfa hefur orðið utanundan í þessari umfjöllun en það er Suðurskautslandið. Fyrst sást til þess árið 1820 þrátt fyrir að menn hafi löngum gert sér í hugarlund að það hlyti nú að vera stór landmassi sunnar í höfum til að vega upp á móti þeim landmassa sem væri í norðri. Suðurskautslandið telst því hvorki til hins nýja heims né hins gamla. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvers vegna er heiminum kennt að Kólumbus hafi fundið Ameríku þegar Leifur Eiríksson kom þangað fyrstur? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Getið þið sagt mér frá ferðum Kólumbusar til Ameríku? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur og Þorstein Vilhjálmsson