Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér mun vera átt við lögun geymslu- og flutningstanka fyrir fljótandi nitur (köfnunarefni, N2). Þessir tankar eru í meginatriðum byggðir eins og venjulegir hitabrúsar. Nitur-vökvinn er við hitann –196°C, svo að hitastigsmunur við umhverfið er um og yfir 200°C.
Til að hægja á uppgufun vökvans þarf því að halda varmaskiptum við umhverfið í lágmarki. Auk þess að einangra ílátið, með lofttæmi eða efni sem leiðir varma illa, þarf að halda yfirborðsflatarmáli vökvans sem er í snertingu við ílátið sem minnstu í hlutfalli við rúmmál. Vökvasameindirnar við yfirborðið eru þær einu sem "skynja" að umhverfishitinn er hærri.
Kúluformið er sú lögun sem gefur minnsta hlutfall yfirborðs og rúmmáls. Það er algengt form á innsta byrði geymslutanka fyrir fljótandi nitur. Algengara er þó að nota sívalningsform sem gefur líka hagstætt hlutfall á þessum stærðum og er auðveldara í smíði og meðförum. Botn og toppstykki eru hlutar af kúlufleti og þessi tvö flatarform eru brúuð með mjúkri sveigju. Menn reyna að forðast skörp horn á samskeytum vegna álags við hitabreytingar. Efnin sem mest eru notuð í geymslutanka fyrir nitur eru gler og ryðfrítt stál. Við 200°C kælingu verður lengdarsamdráttur þessara efna um 1 til 2 prómill (þúsundustu partar). Sívalningur sem er metri á breidd grennist þannig um 1 til 2 millimetra. Ef kælingin er ekki jafndreifð kallar þetta á miklar spennur í efninu, auk þess sem föst efni verða almennt stökkari við lágt hitastig.
Ari Ólafsson. „Af hverju eru geymar fyrir fljótandi köfnunarefni kringlóttir að lögun?“ Vísindavefurinn, 14. maí 2001, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1596.
Ari Ólafsson. (2001, 14. maí). Af hverju eru geymar fyrir fljótandi köfnunarefni kringlóttir að lögun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1596
Ari Ólafsson. „Af hverju eru geymar fyrir fljótandi köfnunarefni kringlóttir að lögun?“ Vísindavefurinn. 14. maí. 2001. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1596>.