Það er nokkuð mismunandi hversu mikil völd þjóðhöfðingjar í konungdæmum hafa. Í löndum með þingbundinni konungsstjórn er forsætisráðherra höfuð framkvæmdavaldsins og leiðtogi löggjafarvaldsins en þjóðhöfðinginn beitir einungis táknrænu valdi sínu með samþykki ríkisstjórnarinnar. Í löndum með hálfþingbundna konungsstjórn er forsætisráðherra höfuð framkvæmdavaldsins en þjóðhöfðinginn hefur töluverð pólitísk völd sem hann getur beitt að eigin frumkvæði. Lönd í Breska samveldinu eru oft sett saman í flokk, en þar er þingbundin konungsstjórn þar sem Bretadrottning er þjóðhöfðingi yfir sjálfstæðri ríkisstjórn en tilnefnir landstjóra sem hefur táknrænt gildi. Forsætisráðherra er höfuð framkvæmdavaldsins og einnig leiðtogi löggjafarvaldsins. Loks eru það einveldislöndin, en í þeim er þjóðhöfðinginn höfuð framkvæmdavaldsins og fer með öll völd. Samkvæmt lista á vefsíðunni Wikipediu eru 44 konungdæmi í heiminum í dag. Í Evrópu eru þetta löndin; Andorra, Belgía, Bretland, Danmörk, Holland, Liechtenstein, Lúxemborg, Mónakó, Noregur, Spánn, og Svíþjóð. Vatíkanið er oft flokkað hér með og er þá 12. konungdæmið í Evrópu. Langflest þessara ríkja hafa þingbundna konungsstjórn. Undantekningarnar eru Liechtenstein og Mónakó, þar er hálfþingbundin konungsstjórn, og svo Vatíkanið. Í flestum löndunum ber þjóðhöfðinginn titilinn konungur eða drottning, í Lúxemborg nefnist hann stórhertogi, fursti í Mónakó, Liechtenstein og Andorra (reyndar eru tveir furstar í Andorra sem saman gegna hlutverki þjóðhöfðingja, forseti Frakklands og spænski biskupinn af Urgel) og svo páfi í Vatíkaninu.
Þeir sem vilja nánari útlistun á konungdæmum heimsins geta skoðað Wikipediu, bæði ensku og íslensku útgáfunni en við þær heimildir var aðallega stuðst við gerð þessa svars. Myndir:
- Fox News. Sótt 12. 10. 2011.
- Theodore's Royalty & Monarchy Site. Sótt 12. 10. 2011.