Í Íslensku alfræðiorðabókinni segir að höfuðborg sé borg eða bær sem er opinbert stjórnsetur ríkis eða þjóðar. Samkvæmt þessu ætti Haag að vera höfuðborg Hollands þar sem aðsetur stjórnvalda er þar. En sú er ekki raunin heldur er það Amsterdam sem er höfuðborgin. Í Britannica Online er sú skýring gefin að samkvæmt stjórnarskrá Hollands skuli arftaki krúnunnar krýndur í Amsterdam og þar með sé hún höfuðborg landsins þó stjórnsýslan sé mestöll í Haag.
Íbúar Hollands eru tæplega 16 milljónir talsins. Amsterdam er stærsta borgin með tæplega 740.000 íbúa. Borgin er miðstöð fjármála og viðskipta en er einnig þekkt fyrir blómlegt menningarlíf. Rotterdam er önnur stærsta borg Hollands með um 560.000 íbúa og er hún ein af umsvifamestu hafnarborgum heims. Haag er svo þriðja stærsta borgin þar sem um 460.000 manns búa. Fyrir utan að vera aðsetur stjórnvalda í Hollandi eru margar alþjóðlegar stofnanir í Haag svo sem Mannréttindadómstóllinn og Alþjóðadómstóll Sameinuðu þjóðanna.
Heimildir:
Íslenska alfræðiorðabókin. Örn og Örlygur, Reykjavík. 1990.
Britannica Online
www.geohive.com
Mynd: Amsterdam Monumenten