Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á Spáni eru fjögur opinber tungumál. Þau eru kastilíska (sem alla jafna er nefnd spænska), galisíska, baskneska og katalónska. Spænska er töluð í öllum héruðum landsins, en galisíska í Galisíu, baskneska í Baskalandi og katalónska í Katalóníu. Í þeim héruðum er spænska einnig opinbert mál og hún er það tungumál sem allir Spánverjar kunna, enda áttu galisíska, katalónska og baskneska undir högg að sækja á tímum Francos árin 1939-1975. Enn þann dag í dag eru fjölmargir sem tala eitt tungumál heima hjá sér og annað á opinberum vettvangi. Katalónska er það tungumál sem stendur sterkast af ofangreindum þremur tungumálum minnhlutanna.
Auk þessara tungumála eru talaðar nokkrar mállýskur á Spáni. Munurinn á mállýsku og tungumáli er sá að tungumál hefur eigin málfræði og samræmda stafsetningu en mállýskur eru venjulegar runnar frá rótum annars tungumáls og geta ekki talist sjálfstæð tungumál meðan þær eru enn háðar öðru málkerfi og hafa ekki þróað með sér yfirlýstar eigin málfræðireglur. Þannig var spænska upprunalega aðeins mállýska þegar hún þróaðist úr latínu en aðstæður breyttu henni í tungumál.
Í Baskalandi er töluð baskneska.
Baskneskan er eina tungumálið sem hefur verið talað á Spáni frá því fyrir tíma Rómaveldis og er einnig eina tungumálið sem hvorki er rómanskt né indóevrópskt. Uppruni þess er umdeildur og fræðimönnum gengur illa að komast að niðurstöðu.
Mállýskur runnar frá latínu náðu yfirhöndinni á Spáni þó svo að eftir fall Rómaveldis hafi einnig verið töluð þar tungumál Vesturgota, araba og svokallaðra mozaraba, en svo nefndust kristnir menn sem bjuggu á yfirráðasvæði araba og töluðu sína mállýsku. Á miðöldum voru talaðar eftirfarandi mállýskur á Píreneaskaganum: astúrleónska, aragónska, judeo-sefardí kastilíska, katalónska og galisíska. Þær þrjár síðasttöldu urðu að tungumálum en hinar voru áfram mállýskur.
Þar sem mállýskurnar leónska og aragónska tilheyrðu stórum konungsríkjum hefði mátt ætla að þær hefðu haldið velli og breyst í tungumál. Hið undarlega gerðist að upp á milli þeirra spratt kastilíska sem einungis var töluð í greifadæmi Kastilíu í þá daga. Með tímanum stækkaði Kastilía og fékk aukin völd og virðingu, sérstaklega þegar hún rann saman við krúnuna í Aragón og Navarra eftir miðja 15. öld. Kastilíska varð menntamál milli leonés og asturiano og þegar Spánverjar fóru yfir hafið til Ameríku var spænska tungumál landvinningamannanna og síðar flestra íbúa Rómönsku Ameríku.
Í Katalóníu er töluð katalónska.
Hér á eftir verður fjallað mjög stuttlega um hvert mál og mállýsku á Spáni fyrir sig:
Katalónska myndaðist við samskipti við Suður-Frakkland og er eina gallorómanska málið á Íberíuskaganum. Katalónska hefur verið til ásamt kastilísku frá því á 15. öld en smám saman varð hún að heimilismáli. Einnig voru þó skrifaðar bókmenntir á katalónsku á miðöldum. Þjóðerniskennd 19. aldar hjálpaði síðar til við að styrkja stoðir málsins og árið 1913 var það yfirlýst annað opinbert mál Katalóníu. Eftir borgarastríðið árin 1936-1939 missti katalónska stöðu sína sem opinbert mál en hefur nú endurunnið þann sess.
Galisíska hélst í hendur við portúgölsku við það að þróast úr latínu yfir í sjálfstætt mál. Talað var um gallego-portugués eða galisísku-portúgölsku. Galisíska varð strax mikið bókmenntamál á miðöldum. Á 15. öld fór notkun galisísku að takmarkast við heimili. Á 19. og 20. öld var tungumálið endurvakið í bókmenntum og eru verk rithöfundarins Rosario Castellanos allra frægust. Fjölmargir frægir rithöfundar frá Galisíu skrifuðu þó eftir sem áður á spænsku. Nægir að nefna Valle-Inclán, Torrente Ballester, Camilio José Cela og Emilia Pardo Bazán. Segir það sitt um styrkleika málsins. Galisíska varð ekki opinbert mál Galisíu fyrr en í upphafi fjórða áratugs 20. aldar en missti sess sinn við valdatöku Francos. Það beið nýrrar stjórnarskrár árið 1978 að tryggja fyrra vægi hennar. Um 85 af hundraði íbúa Galisíu eru tvítyngdir, en margir hverjir eru ekki jafn góðir í galisísku og spænsku. Unnið er að því að auka veg málsins í Galisíu.
Í Galisíu er töluð galisíska.
Baskneska - Í Baskalandi voru áður fyrr töluð mörg afbrigði basknesku og átti fólk í erfiðleikum með að skilja hvert annað. Talað var um átta mállýskur en núna eru þær tvær: viscaíno og centro oriental. Árið 1968 ákvað Konungleg akademía basknesku að samræma reglur um málið og var síðara málinu fylgt. Borgir hafa aldrei verið helsta áhrifasvæði basknesku heldur sveitir héraðsins og málið á sér ekki bókmenntahefð. Nærri þriðjungur íbúa Baskalands er fæddur í öðrum héruðum Spánar. Baskneska er opinbert mál ásamt spænsku og er mikið unnið að því að breiða málið út í skólum. Fjögur af hundraði þeirra sem ekki eru fædd í Baskalandi tala málið og 20 af hundraði þeirra sem eru fædd þar nota málið sem fyrsta mál.
Kastilíska - Af öllum þeim afbrigðum latínu sem voru töluð á Spáni gekk kastilískan lengst frá latínu. Sögulegar aðstæður hjálpuðu upp á útbreiðslu hennar. Krúnur Aragon og Kastilíu sameinuðust árið 1479, Granada féll úr hendi mára árið 1492 og Navarra bættist við árið 1512. Síðast en ekki síst kom fyrsta spænska málfræðin út árið 1492 og með því voru málfræðireglur samræmdar. Talið er að “fallegasta eða hreinasta” spænskan sé töluð í norðurhluta Spánar. Þar er hún íhaldssömust og stenst best tímans tönn, sérstaklega hvað framburð varðar. Oft er sagt að “besta” spænskan sé töluð í Burgos og Valladolid.
Aragónska – Mælendum málýskunnar fækkaði eftir borgarastyrjöldina. Nútíminn hefur unnið gegn mállýskunni þar sem þjóðvegir auka á samskipti við önnur héruð Spánar, ríkisstarfsmenn koma annars staðar frá á Spáni en sjónvarp og útvarp, ferðamennska, menntun og fólksflutningar vinna einnig að því að mállýskur verði undir gagnvart kastilísku.
El extremeño er önnur mállýska kominn úr kastilísku en hjá íbúum er engin tilraun gerð til að viðhalda mállýskunni þar sem hún þykir ekki sérlega fín. Segir það meira um sjálfsmynd þeirra sem mállýskuna tala en málið sjálft. Það sama á við um murciano, mállýsku sem töluð er í héraðinu Murcia.
Andalúsía er næstum því jafn stór og Ísland eða 87.000 ferkílómetrar og ekki hægt að tala um neina sérstaka mállýsku þar. Þannig tala íbúar í Cadiz ekki eins og Granadabúar. Andalúsíubúar þekkjast þó strax á framburðinum og reynist útlendingum oft erfitt að skilja þá. Helsta einkenni málsins sem þar er talað er svokallað ceceo (s er ávallt borið fram eins og þ) en þá hljómar viðkomandi sérlega smámæltur. Í Andalúsíu er einnig að finna seseo (s, ce og ci eru ávallt borin fram eins og s. Þ-hljóði er alveg sleppt). Sá framburður er eins og spænska Rómönsku Ameríku. Jafnframt sleppa Andalúsíubúar gjarnan s-i úr enda orðs og bera ekki fram d á milli sérhljóða.
Kanaríska er einnig runnin af rótum kastilísku. Þar er að finna seseo eins og í Andalúsíu og einnig er ustedes notað í staðinn fyrir vosotros rétt eins og í Rómönsku Ameríku.
Síðasta mállýskan sem komin er frá kastilísku og hér er getið er ekki lengur töluð á Spáni en lifir enn meðal fræðimanna og í alþýðusöngvum. Það er judío-sefardí eða spænskan sem gyðingar á Spáni töluðu þegar þeir voru reknir í útlegð árið 1492.
Jafnframt má nefna tungumál sígauna sem hafa verið á Píreneaskaganum í margar aldir. Sígaunar tala oft svokallað caló, tungumál sem hefur auðgað spænsku Píreneaskagans.
Loks má ekki gleyma gleyma tungumálum sífellt fleiri innflytjenda á Spáni og tungumálum milljóna erlendra ferðamanna.
Einkum byggt á Pilar García Mouton, Lenguas y dialectos de España. Cuadernos de lengua española. Madrid 1994.
Myndir:
Margrét Jónsdóttir. „Hvaða tungumál eru töluð á Spáni?“ Vísindavefurinn, 23. júní 2003, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3521.
Margrét Jónsdóttir. (2003, 23. júní). Hvaða tungumál eru töluð á Spáni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3521
Margrét Jónsdóttir. „Hvaða tungumál eru töluð á Spáni?“ Vísindavefurinn. 23. jún. 2003. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3521>.